Fjölskyldusaga sveipuð töfraraunsæi

Nýjasta bókin úr áskriftarseríu Angústúru er Uppljómun í eðalplómutrénu eftir Shokoofeh Azar. Í þetta sinn er lesanda boðið að dýfa sér inn í menningu og samfélag Írans á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Sögumaðurinn er hin unga Bahar sem þarf að flýja Teheran með fjölskyldu sinni vegna byltingarinnar árið 1979. Fjölskyldan býr til heimili í afskekktu þorpi, uppi á fallegri hæð þar sem þau vonast til að finna frið. Svo verður því miður ekki.

Þessa fyrstu bók sína skrifaði Shokoofeh í Ástralíu eftir að hafa þurft að flýja Íran en áður starfaði hún sem blaðamaður og var fangelsuð ítrekað vegna skrifa sinna. Bókin var tilnefnd til alþjóðlegu Booker verðlaunana árið 2002 en Elísa Björg Þorsteinsdóttir sá um þýðingu bókarinnar á íslensku.

Magnað töfraraunsæi

Þetta er ekki raunsæ frásögn, þó að tilfinningar og hörmungarnar sem henda Bahar og fjölskyldu eru líklega sannar fyrir marga sem þurftu að lifa eða týndu lífi í Íran á þessum árum. Frásögnin er skrifuð í stíl töfraraunsæis sem hefur verið kennt við Suður-Ameríku og höfunda á borð við Jorge Luis Borges og Gabriel Garcia Marquez. Við lestur bókarinnar var mér sífellt hugsað til Hundrað ára einsemdar eftir Marquez sem er einnig fjölskyldusaga uppfull af furðulegum atburðum sem gætu aldrei hent í raunveruleikanum. Inn í sögur töfraraunsæis er blandað því yfirnáttúrulega, draugum, öndum og allskyns atburðum og fyrirbærum sem eru töfrum líkast. Í Uppljómun í eðalplómutrénu vefjast þessar sögur úr lífi Bahar og fólksins í kringum hana inn í frásögnina. Þær eru goðsagnakenndar og ævintýralegar. Tilvist drauga og töfraanda er til dæmis samþykkt, ein sögupersónan umbreytist í hafmeyju, svartur snjór hylur afskekkta þorpið í hundrað sjötíu og sjö daga og kona fær lækningamátt sem virkar aðeins ef hún skyrpir á fólk.

Pólitísk ádeila

Bókin spilar á allan tilfinningaskalann þó að sorgin sé sú tilfinning sem sker lesanda mest. Það sem fjölskyldan þurfti að þjást vegna pólitískra skoðana eða uppspunna ásakana er hörmulegt. Í gegnum töfraraunsæið er Shokoofeh að varpa ljósi og ádeilu á ástandið í Íran á þessum árum og enn þann dag í dag með áhrifamiklum hætti. Enda er bókin bönnuð í landinu vegna innihaldsins.

Ég gat sjálf vart lagt bókina frá mér við lesturinn en það er langt síðan að ég las svo vel skrifaða bók í stíl töfraraunsæis. Það sem er svo spennandi við lesninguna er að maður veit aldrei hvað er að fara að gerast næst. Ímyndunarafl höfundar á sér engin mörk.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...