Rithornið: Hádegisverður í Kaíró

Hádegisverður í Kaíró

Brot úr lengri fjölskyldusögu 

Eftir Sæunni Gísladóttur

 

Þegar vélin var komin upp í 30 þúsund fet skellti Edda í sig heyrnatólum og dró upp spjaldtölvu. Hún átti þó mjög erfitt með að festa hugann við sjónvarpsefnið og setti að fyrsta þætti loknum á pásu og leyfði hugsunum að taka yfir. Þráin um að kynnast lífi föður síns hafði fylgt henni frá því að hann lést í slysi þegar hún var ekki orðin þriggja ára gömul. Hugmyndin um ferðalagið var þó tiltölulega ný af nálinni. Þegar föðuramma hennar lést eftir að hafa verið sjúklingur stærstan part úr lífi Eddu kom í ljós að það var lítið eftir af þeim auðæfum sem höfðu lengi fylgt Silfurberg ættinni. Þar sem faðir hennar var látinn erfði Edda þó smá summu í hans stað og íhugaði vandlega hvað hún ætti að gera við hana. Þetta var ekki nægur peningur til að geta keypt íbúð en dugði þó til dæmis fyrir notuðum bíl. Hún var á síðustu önn í menntaskóla og ætluðu margir félagar hennar að taka sér ár í „pásu.“ Eftir mikla umhugsun brá hún á það ráð að gera það sama, hún brann hvort eð er ekki fyrir læknisfræði eða öðrum greinum sem var skynsamlegt að fara að læra sem fyrst, og þannig fæddist hugmyndin að hennar reisu. Milli lokaprófa og stúss í kringum útskriftina sjálfa hafði hún ekki náð að eyða miklum tíma í að hugsa um ferðalagið sem var framundan, fyrir utan praktísk atriði eins og að sækja um vegabréf, redda sér bakpoka og bóka fyrstu flugleggina. Henni fannst allt í einu hugmyndin um reisuna svo yfirþyrmandi, myndi henni takast áætlunarverk sitt? Eða yrði hún bara enn ein nýútskrifuð stelpa á ferð og flugi um heiminn að prófa bjórtegundir?

 

Það kom lítið á óvart að salernið væri upptekið þegar Edda fór á það, enda fullbókuð vél, en fljótlega greip gluggi aftast í vélinni auga hennar. Hún beygði sig örlítið og gat þá fylgst með skýjunum sem vélin þeyttist í gegnum. Ósjálfrátt fór hún að brosa yfir þessu og stóð stutta stund eins og með störu á glugganum þangað til hún tók eftir að það var einhver að horfa á hana. Sessunautur hennar brosti að henni. Hún brosti til baka og sagði á ensku að salernið væri upptekið. Hann tók þessu sem merki að hún væri tilbúin í samræður.

„Fyrsta skiptið til Parísar?“ spurði hann með þykkum frönskum hreim.

„Fyrsta skiptið til útlanda,“ svaraði hún.

„Oh en spennandi,“ var eina sem hann náði að segja við hana því þá opnuðust dyrnar. Edda lauk sér fljótlega af á salerninu og snéri aftur í sætið sitt. Þegar Frakkinn snéri til baka stuttu síðar stóð hún upp til að hleypa honum í sætið.

„Farð þú frekar í sætið mitt,“ sagði hann þá og kom þetta Eddu verulega á óvart.

„Ertu alveg viss?“ spurði hún.

„Já alveg viss, það ættu sko allir að fá að sjá París að ofan einu sinni á ævinni.“ Hún skælbrosti og spennan leyndi sér ekki þegar hún færði sig.

 

Þau Edda og Jean-Marie, eins og Frakkinn reyndist heita, spjölluðu töluvert saman það sem eftir var af fluginu. Hann var Frakki en vann við að fara með franska ferðamannahópa í leiðsögn um Norðurlöndin og var því þaulvanur þessu flugi og að sjá Parísarborg, heimaborg sína, úr flugvél. Það gladdi hann greinilega hvað hún var spennt þegar hún fór að sjá akrana með húsum sem líktust LEGO húsum og svo að greina einhver mannvirki í borginni þegar þau nálguðust lendingu. Hún útskýrði fyrir honum að hún yrði einungis um sólarhring í borginni. Hún væri á leið í tengiflug næsta dag en það hefði borgað sig að fljúga degi fyrr með þessu lággjaldaflugfélagi. Jean-Marie lét það ekki stoppa sig í að mæla með tugi kaffihúsa og safna við hana. Hún lofaði honum að ef hún næði þeim ekki í þessari ferð myndu hún koma aftur einn daginn og klára listann.

„Það koma flestir aftur,“ sagði hann sposkur á svip þegar þau kvöddust við töskuafhendinguna. Og svo eins skyndilega og hann kom inn í líf Eddu var Jean-Marie horfinn.

 

Edda yrði eina nótt í París og naut ráðgjafar Hildar vinkonu sinnar þegar hún var að skipuleggja hana. Hildur hafði farið ásamt hópi frönskunema í skólanum í ferð til Parísar um haustið og gist á ódýru, en jafnframt, öruggu farfuglaheimili nálægt Canal St Martin. Edda valdi átta manna kvennaherbergi á því: hún var opin fyrir að deila herbergi með ókunnugu fólki, en dró mörkin við karlmenn. Edda var fljótari inn í borgina en hún átti von á og var komin á gististað sinn rétt fyrir kvöldmatarleitið. Hún hafði verið fegin að taskan skilaði sér og þakklát fyrir að lenda ekki í neinum hremmingum. Edda tók strax eftir því hvað meðalaldurinn var lágur á farfuglaheimilinu, það var sameiginlegt svæði frammi og margir sem virtust á hennar aldri sátu þar að sumbli. Maðurinn í móttökunni var fljótur að innrita hana þegar röðin kom að henni. Hún fór í framhaldinu með bakpokann sinn inn í herbergi og lagði hann á eitt rúmið. Hildur hafði brýnt fyrir henni að með þessu hefði hún eignað sér það rúm fyrir kvöldið.

 

Kvöldið var óskrifað blað og datt Eddu í hug að fylgja straumnum, hún fór því fram í sameiginlega rýmið þar sem hægt var að kaupa sér bjór og léttvín og fékk sér rauðvínsglas. Hún leit í kringum sig og sá lausan stól í hæfilegri fjarlægð frá hóp sem hafði myndast og settist þar. Edda var smá feimin að eðlislagi og hlustaði því á hópinn sem var að spjalla í von um að komast inn í samræðurnar innan tíðar. Fyrirferðamikill Bandaríkjamaður var að segja einhverja lygasögu af því er virtist af djammi gærkvöldsins. Edda hlustaði, enda var lítið annað hægt, maðurinn talaði svo hátt en fljótlega mættust augu hennar og dökkhærðs stráks á aldur við hana sem sat í hópnum með Kananum. Hann stóð upp og hélt í átt að henni. Hann hafði greinilega fengið sér nokkra drykki til að losa um málbeinið og hikaði ekki við að kynna sig fyrir henni.

„Pierre,“ sagði hann og rétti fram höndina.

„Edda,“ svaraði hún. Það lifnaði yfir honum.

„Eins og Snorra-Edda?“ spurði hann á ensku. Eddu kom svarið á óvart en játti því.

„Þekkirðu hana?“ spurði hún hissa.

„Gera það ekki allir?“ svaraði hann glettinn.

 

Þau fóru að spjalla og hann viðurkenndi að hann væri að nema fornbókmenntir. Hann væri frá Lyon en hefði komið til Parísar til að fara í sumarnámskeið við Sorbonne háskóla. Edda var hissa yfir því að hann væri á farfuglaheimili en hann útskýrði að það væri miklu einfaldara og ódýrara en að leigja íbúð í þrjá mánuði í París, auk þess sem hann hefði gaman af því að hitta nýtt fólk.

„En Parísarbúar nenna ekki að kynnast öðrum Frökkum,“ fullyrti hann. Það fór vel á milli þeirra strax og Pierre kynnti hana fyrir fleirum í hópnum, þetta var eins og fundur hjá Evrópusambandinu: Frakki, Belgi, Þjóðverji og meira að segja einn sem var hálf ítalskur og hálf spánskur. Bandaríkjamaðurinn var eini utan Evrópu í hópnum. Edda naut þess að vera boðið inn í hópinn en var ennþá hlédræg. Hún var því til í að fara út með Pierre þegar hann nefndi að hann ætlaði að fá sér sígarettu. Það voru mikil læti í hópnum og í sannleika sagt var hún meira spennt fyrir að tala við hann ein.

 

Edda hafði nefnt að þetta væri fyrsta ferð hennar til Parísar þegar þau Pierre sátu með hópnum en þegar þau voru ein leið henni eins og hún gæti leyst aðeins meira frá skjóðunni og byrjaði á því að segja að hún hefði aldrei verið á farfuglaheimili áður. Pierre sem reyndist nokkrum árum eldri en hún lýsti því yfir að hann væri vel sjóaður í þeim eftir ferðalög í menntaskóla og núna á háskólaárum sínum.

„Leyfðu mér að vera leiðsögumaður þinn!“ sagði hann og hló svo. Hún hló með honum. „Í hnotskurn eru öll farfuglaheimili í Evrópu full af sömu samsetningu af gestum. Þú ert með blanka námsmenn,“ sagði hann og benti á sjálfan sig, áður en hann hélt upptalningunni áfram, „nísku þjóðverjana, og alltaf án undantekningar Bandaríkjamenn sem kalla sjálfa sig „ferðalanga“ ekki „túrista“ og þreyta nýja gesti á hverju kvöldi með því að segja þeim ævisögu sína. Þannig útskýrði hann að þó að þetta væri fyrsta stopp hennar á farfuglaheimili gæti hún alveg eins hafa eytt mörgum árum á þeim. Hún væri búin að upplifa þetta einu sinni og því hitt allar þessar týpur. Pierre kláraði sígarettuna of fljótt fannst Eddu. Hann var ágætlega myndarlegur en það var einhver góðvild í honum sem dró hana strax að honum. Edda hafði þurft að ganga í gegnum ansi margt á stuttri ævi og var því búin að öðlast góða næmni fyrir fólki. Þegar hann henti stubbnum og vísaði henni aftur inn varð hún fyrir vonbrigðum, hún vildi meiri tíma með honum ein. Þegar inn var komið tilkynnti hópurinn að starfsmaðurinn í móttökunni væri orðinn þreyttur á hávaðanum í þeim og þau þyrftu að færa partíið annað. Edda vildi fara þangað sem Pierre fór og elti því hópinn út á lífið í hið litríka Canal St Martin hverfi.

 

Nóttin leið hratt, krakkarnir í hópnum höfðu verið á svæðinu í nokkra daga og vissu hvar besta verðið á víni var. Þegar leið á nóttina voru þau líka með á hreinu hvar skemmtilegast væri að dansa. Edda naut sín í botn. Hún var mjög skipulögð að eðlisfari enda þurft að taka mikla ábyrgð á lífi sínu frá unga aldri og fannst æðisleg tilbreyting að sleppa takinu og fljóta með straumnum. Hún passaði sig þó að drekka ekki of mikið áfengi, hún vildi geta skoðað borgina eitthvað um morguninn áður en hún héldi út á flugvöll á ný um eftirmiðdaginn. Um þrjúleytið kom í ljós að enginn í hópnum hafði borðað kvöldmat og því stefndu þau á McDonalds stað sem var opinn allan sólarhringinn. Edda fékk sinn fyrsta Big Mac og það kom á óvart hvað hann var góður. Hún hvíslaði að Pierre að þetta væri fyrsta skiptið sem hún smakkaði McDonalds. Hann spurði hvort hún væri alin upp af grænmetisætum. „Eitthvað svoleiðis,“ sagði hún og vildi ekki ræða það meira. Hann þyrfti ekki að vita allt um fortíð hennar. Þó að áætlunin hefði verið að halda áfram að dansa eftir matinn var ljóst að fæstir höfðu orku í það. Þau héldu því öll aftur á farfuglaheimilið að máltíðinni lokinni. Edda hafði þá loksins kjark til að spyrja Pierre hvort hann vildi skoða með henni borgina í fyrramálið. Hvort var hann til! Þau ákváðu að hittast í anddyrinu klukkan níu þegar þau kvöddust. Þetta yrði ekki langur svefn, en Edda vildi frekar missa svefn en að missa af því að skoða París.

 

Það var erfitt að opna augun þegar síminn hringdi klukkan korter í níu. Edda var alltaf fljót á morgnana að klæða sig og nennti aldrei að eyða púðri í að mála sig nema sérstakt tilefni væri til. Það var heitur dagur og hún fór í létta blússu, setti á sig uppáhalds eyrnalokkana sína og ákvað á síðustu stundu að skella á sig rauðum varalit. Hún myndi kannski taka einhverjar myndir í París og vildi líta þokkalega út. Hún var með fiðring í maganum yfir deginum. Pierre var mættur þegar hún steig inn í anddyrið klukkan þrjár mínútur yfir níu og var alveg jafn viðkunnalegur í dagsbirtu og hann hafði verið nóttina áður. Hún sá að hann hélt á tveimur hjálmum. Hún varð eitt spurningamerki í framan.

 

„Eina leiðin til að sjá borgina!“ fullyrti hann og var búinn að draga hana á bak á bifhjóli áður en hún vissi af. Morguninn leið allt of hratt. Þau þutu þvert yfir Rivoli götu, þeyttust yfir brýr, keyrðu framhjá Eiffel turninum og enduðu í Bois de Boulogne skóginum. Þar bauð Pierre henni í lautarferð með kaffi á brúsa og baguette og croissant, sem var um það bil hundrað sinnum betra á bragðið en það sem hún hafði borðað daginn áður á flugvellinum. Þau héldu svo aftur inn í bæinn og heimsóttu vatnaliljur Monet á Orangerie safninu við Tuilleries garðana.

 

„Þetta væri eina safnið sem ég myndi heimsækja ef ég ætti bara einn dag í París,“ sagði Pierre. Þau fóru í framhaldinu inn í gyðingahverfið og smökkuðu þar besta falafel borgarinnar, að sögn Pierre, en svo þurfti Edda að fara að drífa sig út á flugvöll. Hún vildi ekki yfirgefa borgina en áminnti sig að það væri mikilvægur áfangastaður sem biði hennar. Edda deildi meiru um fortíðina með Pierre, og sagði honum að lokum frá ástæðu ferðarinnar. Hann dáðist að því að hún væri að fara ein síns liðs til þess að kynnast lífi föður síns og hann hafði hlustað innilega þegar hún lýsti harmi móður sinnar sem hefði að mestu leyti lokað sig af eftir slysið sem hún hafði lifað af. Þegar þau kvöddust hvatti hann hana til að stoppa aftur í París eða Lyon, ef það yrði um haustið, á heimleiðinni. Hún lofaði að íhuga það. Hann faðmaði hana á lestarstöðinni. Hún var fegin að þau kysstust ekki. Þetta var miklu einlægara svona.

 

Það var álíka mikið að gera á Charles de Gaulle flugvellinum eins og hafði verið á Leifsstöð daginn áður. Eddu fannst það ótrúlegt að það voru bara um 36 tímar síðan hún lagði af stað. Hún var sérlega ánægð með stoppið í París sem hafði verið langt umfram væntingar. Þegar Edda var komin upp í flugvél Air France sem átti að fara beint til Kaíró fylltist hún þó smá kvíða. Hún hafði verið ótrúlega heppin að hitta Pierre og hópinn hans í París, það var engin trygging fyrir að svo yrði líka í næstu borg. Hún myndi lenda seint í þessari ævafornu borg og þorði ekki að treysta á almenningssamgöngur og hafði því bókað skutlu frá farfuglaheimilinu sem hún átti pantaða gistingu hjá. Hún fór yfir ferðaplanið í huganum meðan hún beið eftir flugtaki og reyndi svo að loka augum og hvíla sig. Innan skamms var ljóst að ró kæmi ekki yfir Eddu. Hún dró því fram reyfarann sem hún hafði ekkert snert frá því hún keypti hann á flugvellinum og dembdi sér ofan í hann. Flugið var ekki í frásögur færandi og Edda komst greiðlega í gegnum flugvöllinn og að töskuafhendingunni. Það var myrkur yfir Kaíró á leiðinni á farfuglaheimilið þar en margar moskur voru upplýstar. Eddu hafði fundist Parísarborg stór en hún var eins og smápeð í samanburði við Kaíró. Þegar hún var nýstigin út úr lyftunni á fjórðu hæð þar sem farfuglaheimilið var staðsett í miðri borg varð henni starsýnt á gluggann. Hún leit til beggja átta og sá að hvergi virtist byggðin enda. Það var mikill hiti þrátt fyrir að klukkan væri langt gengin í eitt um nótt. Maður að nafni Ahmed innritaði hana og veitti henni helstu upplýsingar um gististaðinn, rétt eins og maðurinn í París hafði gert. Hann ítrekaði mikilvægi þess að drekka vatn úr flöskum, meira að segja við tannburstun. Hún þakkaði fyrir hjálpina og fann þreytuna koma yfir sig. Hún hafði bara getað valið einstaklings herbergi á þessu farfuglaheimili og var fegin að eiga herbergið út af fyrir sig. Hún tannburstaði sig en fleiri voru gjörðirnar ekki þann daginn.

 

Næsta morgun lá Edda á grjónapoka í sameiginlega rými farfuglaheimilisin og íhugaði næstu skref. Hún hafði haft samband við mann að nafni Hameed sem hafði starfað með pabba hennar í fornleifauppgreftri í Egyptalandi. Hann var nú búsettur í Kaíró þar sem hann vann við háskólann og hafði verið spenntur að hitta hana þegar hún hafði samband. Eddu fannst hitinn þrúgandi og átti í miklum erfiðleikum við að koma sér af stað. Þau Hameed höfðu talað um að hún kæmi bara upp í háskóla til hans og þau myndu fá sér kaffi og ræða málin. Hann gæti sagt henni frá uppgraftrarstöðunum sem pabbi hennar vann á. Edda vonaðist líka til að hann gæti sagt henni meira frá hans innri manni. Amma hennar hafði alltaf verið of heilsulítil til að tala mikið við hana og mamma hennar brotnaði niður í hvert sinn sem hún reyndi að ræða við hana um hann. Hameed var fyrsti maðurinn sem Eddu datt í hug að gæti varpað ljósi á hver faðir hennar hafði verið og hún vonaðist til þess að hann gæti bent henni í frekari áttir. Hann hafði sent henni númerið sitt í síðasta tölvupósti og beðið hana eindregið um að hafa samband þegar hún kæmi í borgina. Morgunstund gefur gull í mund, hugsaði hún með sér og hringdi þaðan sem hún lá. Hameed hafði greinilega átt von á símtalinu og bauð henni þá og þegar að koma í hádegismat. Hún ákvað að samþykkja boðið og hóf að gera sig til. Edda steig út úr bílnum fyrir framan Kaíró háskóla og sá strax fallegan gosbrunn fyrir framan bogadregið hlið. Hún átti að hitta Hameed á skrifstofunni hans og varð því hissa þegar maður á miðjum aldri stefndi beint í átt að henni og ávarpaði hana: „Edda?“

„Hvernig vissirðu?“ spurði hún á ensku hissa á þessu.

„Þú ert með augun hans pabba þíns,“ sagði Hameed.

 

[hr gap=”30″]

Sæunn Gísladóttir er hagfræðingur og ráðgjafi í þróunarsamvinnu. Hún hefur verið penni á Lestrarklefanum í tæp tvö ár. Hún hefur lengi haft gaman af því að skrifa sögur og efldist áhuginn í kófinu. Hún vinnur nú að lengra verki um Silfurberg fjölskylduna.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...