Sýnishornið: Skuggi ástarinnar eftir Mehmed Uzun

Fimmti hluti: Saga og örlög. 8. og 9. kafli.

Brot úr skáldsögunni Skugga ástarinnar eftir Mehmed Uzun. Einar Steinn Valgarðsson þýddi. Kemur út hjá Uglu útgáfu síðar á árinu.

 

Tyrknesk kápa bókarinnar.

8

Kvöld. Undir stjörnuhimninum hljómar kveinandi laglína á ný. Frá búðum frelsisbaráttumannanna, frá sumarbeitilöndunum og dölunum. Dengbêjinn, þessi ævagamla rödd. Söngurinn, rödd hinnar ævafornu þjóðar. Tónlist mitt í stríðinu. Söguljóðið um Binevshu Narîn og Cembeliyê Hekkarê.

Einu sinni var maður að nafni Cembelî frá fjallinu Hekkarê, og hann réð fyrir fimmtánhundruð ungum mönnum. Hann var góður höfðingi. Hann átti tvær eiginkonur, sem dugðu ekki til húsverkanna eða að veita gestunum. Og þar var líka  Hemo dengbêj, söngvari Cembelîs, fríður sveinn sem sá til þess að Cembelî héldist í góðu skapi.“

Memduh Selîm bað dengbêjinn um þetta ljóð. Hann þylur það hægt. Síðan syngur hann það. Memduh Selîm hlustar með athygli. Hvort sem það eru löng frásagnarkvæði, fiðlutónlist eða nútímakonsertar, þá eru tónar tónlistarinnar einn af þeim fjórum ómum sem Memduh Selîm þykir vænt um. Þeir eru meðalið gegn sorgum hans og hjartasári. Þeir hressa hann, opna hliðin að hjarta hans og sál. Ómur tónlistarinnar líkist tindi Ararats: eilífur, óviðjafnanlegur og máttugur. Tónlistin seiðir manneskjuna. Hún tælir hana svo veröldin virðist full af litum. Hún drekkur vatn ástarinnar úr svölum uppsprettum. Ómur tónlistarinnar eflir Memduh Selîm og vekur með honum ákefð, hvort heldur það er gegnum ljóðið um Binevshu Narîn og Cembeliyê Hekkarê eða gegnum tónlist Yvette Guilbert eða Erik Saties. Hann elskar gamlar laglínur dêngbejsins, en líka fiðluspil Gasellunnar. Þessar gömlu laglínur ættbálkanna og nútímaleg kammertónlistin fullkomna hvor aðra.

Memduh Selîm hefði gjarnan viljað verða söngvari eins og Hemo dêngbej hjá Cembelî. Þá hefði hann ferðast um með hirðingjaættbálkunum, sungið og samið söngva um gömlu siðina. En örlögin ætluðu honum annað.

„En sú synd að ég hafi ekki svo gott vald á móðurmáli mínu, þar sem ég yfirgaf heimaland mitt þegar á æskuárunum og hlaut menntun mína á tyrknesku.“

Enn á ný einn af duttlungum örlaganna.

Ferskur ilmur stígur upp af nývakinni jörðinni. Jarðarilmurinn blandast ilmi trésins, blómanna og fjallsins. Alls staðar sitja örþreyttir frelsisbaráttumenn framan við tjöldin sín og spjalla. Nóttinn fellur hægt á. Stjörnur tindra. Í fjarska heyrast byssuskot. Við hlið Memduhs situr aldraði þjóðlagasöngvarinn og flytur gamalt hetjuljóð þunglyndislegri röddu.

„Guð minn, hvers konar heimur er þetta? Þar sem ljóðskáld, söngvar, stríð, hatur og ást sameinast? Allt rennur saman í eitt.“

Memduh Selîm hlustar á ljóðið. Hann hefur teygt úr sér á jörðinni og horfir á hvernig stjörnurnar dansa. Þetta gamla ljóð, kyrrð stjörnubjartrar næturinnar og mjúk moldin. Sá sem rataði hingað og væri ókunnugur stríðinu gæti haldið að hann væri í paradís. Stjörnurnar. Karlsvagninn, þessar sjö skæru stjörnur, prýða himininn. Pólstjarnan blikar yfir tindi Ararats. Og ógæfusamar stjörnur Leylu og Mechnûns blika hvor til annarrar. Önnur úr austri, hin úr vestri.

Cembelî og Binevsha Narîn, Leyla og Mecnûn.

Almáttugi guð, hvers vegna þessar kvalir? Rata þessar vesalings stjörnur aldrei hvor til annarrar?

 

9

 

Dauðaengillinn kætist. Hann hefur slegið tjaldinu sínu upp milli fjallanna Ararats og Tendûreks og fagnar sláturtíðinni. Sveðjan hans hvín linnulaust. Manneskjur deyja út um allt við Ararat. Sár rifna upp og Ararat grætur blóði. Vagnalest dauðans er á leiðinni. Með dauðaengilinn í fararbroddi.

Hann sýnir herfilega ásjónu sína. Glottir við tönn og hlær sem óður væri. Heita sumarið 1930 er baðað blóði. Ararat blæðir.

Tyrkjarríki beinir öllum kröftum sínum að Ararat. Sextíuþúsund fótgönguliðum, tíu  herfylkjum af stórskotaliði, fimmhundruð og fimmtíu vélbyssum og fimmtíu herflugvélum.  Hinn mikilsvirti Sali Pascha hefur verið skipaður foringi tyrkneska heraflans. Þrátt fyrir að þeir hafi færri vopn og verri útbúnað veita Kúrdar mótspyrnu. Það er 11. júní, dagurinn fyrir hörðustu árásina á her Tyrkja. Dauðaengillinn hefur sláturtíð sína á ný. Tyrkjaher reynir að ná stöðvum Kúrda á sitt vald. Kúrdar verja sig eins vel og þeir geta og tekst að taka krók framhjá tyrknesku sveitunum svo þeir geti komið í bakið á þeim frá Dayadin, Patnos, Aladax, Sipan, Zilan og frá Tendûrek.

Það er líkast því að dómsdagur sé runninn upp. Jörðin stynur, fjöllin drynja. Fuglar og öll önnur dýr flýja. Raddir hermannanna og Kúrdanna hljóma um allt eins og  daufar þrumur á himni.

  1. júní bíða hersveitir Tyrkja ósigur. Þær hörfa eftir að hafa liðið töluvert mannfall. Nú er ekkert annað að gera en að harma dauða og særða. Menn eru teknir til fanga, fimm flugvélar skotnar niður. Vopn og útbúnaður eru ennþá á vígvellinum. Kúrdar reka flótta tyrknesku hermannanna og hrekja þá út úr þorpunum. En Tyrkjaher gefst ekki upp. Flugvélar þeirra varpa sprengjum án afláts yfir kúrdísku þorpin og stöðvarnar. Hús eru jöfnuð við jörðu. Púðurfnykur hvílir yfir öllu. Eiginkona Ishans Nurîs særist, nótt eina rífur sprengja hundrað og tíu ára gamla móður Biros Heskis í tætlur. Kúrdar hafa hörfað til hærri slétta og gilja og þar koma þeir upp stöðvum sínum.

Memduh Selîm veit ekki hvernig hann á að lifa af þetta helvíti blóðs og elds. Margir særðir eru fluttir hingað. Memduh Selîm hleypur frá einum til annars til að veita hjálp. Þar fyrir utan skrifar hann bréf og dreifirit en hefur þau stutt. Þessir dagar gefa honum engan tíma til íhugunar.

Hann er í hellinum þar sem særðir liggja á börum úr heyi, hlið við hlið. Óhugnarleg sjón. Þeir særðu stynja, kveina og andvarpa, biðja um vatn og lyf. Margir vilja helst deyja.

Hverju fær Memduh áorkað hér? Núna situr hann hjá alvarlega særðum manni sem er með þarmana og magann úti og það er aðeins bundið um þá af ítrustu nauðsyn með hvítu efni. Hann leggur höfuðið í kjöltu Memduhs Selîms. Laglegur maður með snúið yfirskegg, í blóma lífsins. Blóð rennur úr enni hans. Memduh Selîm þurrkar það burt með klút. Ungi bardagamaðurinn gefur frá sér hryglu og stamar óskiljanleg orð.

Hvað getur hann gert þegar þá skortir lækna, sjúkrahús og lyf? Frammi fyrir augunum á honum liggur ungur maður fyrir dauðanum. Dauðinn sýnir herfilega ásjónu sína. Föt unga mannsins eru í tætlum. Frá honum leggur sterkan fnyk af púðri, tóbaki, mold og svita. Skórnir hans eru götóttir. Hann tekur ekki eftir Memduh Selîm, hann svitnar, nötrar og á erfitt um andardrátt. Andlitið er afskræmt af sársauka. Memduh Selîm þurkar varlega svitann af enninu á honum og leggur hönd á öxl hans. „Ungi maður! Bróðir, þraukaðu, þú munt sigra dauðann…“

Unglingurinn opnar augun, lítur fyrst á hendur Memduhs Selîms og svo í andlit hans. Stóru svörtu augun hans eru þreytt. Í þeim endurspeglast sársauki og hræðsla við dauðann.  Kinnar hans eru eilítið rjóðar, eins og hann sé með sótthita. Varirnar eru blánaðar og skrælþurrar.

„Ekki missa kjarkinn, piltur minn, þú mátt bara ekki missa kjarkinn!“

Enn á ný lítur hann á Memduh Selîm. Bros sprettur fram á varir Memduhs, því það gleður hann að ungi maðurinn líti á hann og heyri í honum.

Núna vill hann segja eitthvað en orðin úr þunnri brostinni röddinni eru ógreinanleg. Þó að úti sé heitt nötrar hann af sársauka og skelfur í sífellu af sótthita. Memduh Selîm fer úr frakkanum og breiðir hann yfir unglinginn. Unglingurinn gefur honum merki um að þetta geri honum gott, hann reynir að þakka fyrir. Þá fá varir hans aðeins tjáð eitt: „Góði guð, hjálpaðu mér!“

Hann gefur aftur frá sér hryglu og skelfur allur, kippist til. Svo er hann kyrr. Varir hans titra. Líkami hans tekur nokkra  kippi enn. Og síðan, síðan liggur hann þar hreyfingarlaus. Í blóma lífsins kveður hann veröld stríðsins. Engill dauðans hefur sigrað aftur. Á undirförulan og óréttláttan hátt.

Hvers vegna kemur dauðinn svona skyndilega og óvænt? Hvers vegna tekur hann sér bólfestu í brjósti ungs manns? Á einni mínútu er lífið vikið úr þessum unga líkama. Nú liggur hann þarna, kaldur, sálarlaus og bærist ekki lengur. Tár renna niður kinnar Memduhs, tár eins og perlur. Hann strýkur hár unglingsins og grætur.

[hr gap=”30″]

 

Einar Steinn Valgarðsson, f. 1984. Þýðandi. BA í ensku og stúdent af nýmáladeild. Þýðingar hans á greinum og ljóðum hafa m.a. birst í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, Kvennablaðinu, á Vísi, í Kastljósinu og í Frjálsri Palestínu, sem hann hefur einnig ritstýrt. Stjórnarmaður í Félaginu Ísland-Palestína um árabil. Hefur m.a. þýtt greinar eftir Uri Avnery, Amiru Hass og Hagai El-Aid og ljóð eftir Mazen Maarouf, Mourid Barghouti, Yehuda Amichai og Taha Muhammad Ali. Þýðing hans á ritgerð Mehmeds Uzuns, Harmi ástarinnar, birtist í febrúarhefti Tímarits Máls og Menningar 2021. Einar hefur nýlega þýtt skáldsöguna Skugga ástarinnar eftir Uzun, sem væntanleg er hjá Uglu útgáfu á árinu og barnabókina Bak við töfragluggana eftir Corneliu Funke, sem hann leitar nú að útgefanda fyrir.

 

Mehmed Uzun, f. 1953, d. 2007. Kúrdískur rithöfundur frá Tyrklandi. Hann lagði mikið af mörkum við að móta kúrdísku sem bókmenntamál og endurvekja sagnahefð Kúrda. Hann var pólitískur flóttamaður og dvaldi í tæplega 30 ár í útlegð í Svíþjóð. Árið 2005 var hann gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...