Sturlaðar staðreyndir um raunir Werthers unga

Raunir Werthers unga eftir þýska skáldið Johann Wolfgang van Goethe er ein frægasta nóvella þýskra bókmennta og hefur verið hælt sem einni af bestu nóvellum bókmenntasögunar. Goethe skrifaði bókina ungur að aldri en leikrit hans, meistaraverkið Fást, vakti síðar verðskuldaða athygli og festi hann í sessi í bókmenntasögunni.

Bókin fjallar um óendurgoldna ást og er sagan sögð í formi bréfa frá Werther, ungum listamanni, til vinar síns Wilhelm. Bókin segir frá ást Werther til hina fallegu Charlotte. Það má vara við að hér sé verið að spilla fyrir söguþræðinum (má það ekki þegar bókin kom út árið 1774?) en þetta endar ekkert afskaplega vel.

Það er óhætt að mæla með lestri verksins, bókin er áhugaverð, dularfull og fljótleg í lestri. En með pistli þessum langar mig í stað hefðbundins ritdóms að vekja athygli á merkilegum staðreyndum um þessa sögulegu bók.

  1. Goethe var einungis 24 ára þegar bókin kom út og varð bókmenntastjarna eftir útgáfuna
  2. Bókina ritaði Goethe á aðeins fjórum vikum. Hann lokaði sig inni á meðan og meinaði vinum að koma í heimsókn
  3. Goethe sá síðar eftir útgáfu bókarinnar og frægðinni sem fylgdi henni, sérstaklega þar sem bókin var sjálfsævisöguleg og hann byggði hana á misheppnuðu ástarsambandi við Charlotte Buff
  4. Napoleon Bonaparte var afar hrifinn af bókinni og ferðaðist með hana alla leið til Egyptalands. Þeir Goethe ræddu bókina þegar þeir hittust árið 1808
  5. Bókin skapaði svokallaða „Werther veiki“ þar sem ungir menn í Evrópu klæddu sig í fatastíl Werther eins og honum var lýst í bókinni. Stjórnvöld óttuðust þessi áhrif og bókin var víða bönnuð, meðal annars í Leipzig í Þýskalandi, Danmörku og á Ítalíu. Fatastíll Werthers var einnig bannaður í Leipzig árið 1775
  6. Það voru orðrómar um að sjálfsvíg væru tengd bókinni, að ungir menn frömdu sjálfsmorð á sama hátt og Werther gerði í bókinni. Í einu tilfelli fannst eintak af bókinni á vettvangi sjálfsvígs ungrar konu
  7. Skáldið Friedrich Niolai ákvað að skrifa sína eigin útgáfu af bókinni í háði sem endaði vel. Goethe var ekki par sáttur við þetta og hóf ritstríð við Nicolai sem entist alla hans ævi
  8. Charlotte Buff heimsótti Goethe þegar hann var orðinn áttræður og frægt skáld. Thomas Mann fannst svo mikið til þessarar heimsóknar koma að hann skrifaði um hana söguna „Lotta í Weimar“

Til gamans má geta að bókin er fallin úr höfundarrétti og má því lesa ensku þýðingu hennar ókeypis hér á Gutenberg Project vefsíðunni.

 

Heimildir: The Lancet, The Guardian og Morgunblaðið

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...