Grátbroslegur raunveruleiki unglæknis

This is Going to Hurt: Secret Diaries of a Junior Doctor eftir Adam Kay var metsölubók þegar hún kom fyrst út í Bretlandi árið 2017. Síðan þá hefur hún verið þýdd á fjölmörg tungumál og farið sigurför um heiminn. Bókin er einlæg frásögn Adam Kay, í dagbókarformi, af því að vera unglæknir í breska heilbrigðiskerfinu (NHS) á árunum 2004 til 2010. Frá því að Adam Kay sagði skilið við heilbrigðisstéttina hefur hann unnið sem uppistandari og handritahöfundur. Bókin ber þess merki, en þrátt fyrir að vera um alvarleg málefni, er hún skrifuð með miklum húmor og er á pörtum sprenghlægileg. Kay tekst þannig að miðla mikilvægum skilaboðum um raunveruleika unglækna í Bretlandi á aðgengilegan hátt.

Bugaðist eftir sex ár sem læknir

Það kemur fram í upphafi bókarinnar að Kay hafi hætt sem læknir eftir sex ára nám, og að sex ára starfsreynslu lokinni. Sem lesandi veit maður því strax frá byrjun í hvað stefnir. Engu að síður er áhugavert að lesa dagbókafærslur Kay sem fara frá því að vera stuttar frásagnir læknis sem veit ekkert hvað hann er að gera, yfir í kómískar sögur af því sem hann tekst á við dagsdaglega eftir að hafa byrjað að ná tökum á starfinu. Maður verður líka forvitnari með tímanum fyrir því hvers vegna hann ákvað að segja skilið við atvinnugreinina.

Raunveruleikinn fyndnari en skáldskapur

Bókin er auðlesin og nær að halda góðu jafnvægi milli þess að varpa ljósi á hversu lítinn stuðning unglæknar virðast fá í Bretlandi, sem og hvað starfið er ofboðslega krefjandi, og húmorsins sem einkennir viðhorf Kay til lífsins. Ég hló upphátt nokkrum sinnum við lesturinn, eitthvað sem gerist sjaldan, og bókin sannar þá staðreynd að það er ekki hægt að finna upp á þeirri vitleysu sem á sér stað í raunveruleikanum.

Kay tekst vel að miðla skoðunum sínum og persónuleika í gegnum dagbókarformið. Mér þótti í rauninni sorglegt þegar ég nálgaðist seinni hluta bókarinnar að Kay hefði ekki séð leið til þess að halda áfram sem læknir, hann virtist akkúrat hafa það sem maður myndi óska hjá lækni: honum var ofboðslega annt um sjúklingana sína og lagði sig allan fram við að hjálpa þeim. En líkt og hann bendir á er starfsumhverfið fyrir unglækna í Bretlandi orðið svo erfitt að fjölmargir hæfir læknar sjá sér ekki fært að halda áfram í greininni.

This is Going to Hurt er opinská frásögn sem varpar ljósi á hversu ótrúlega krefjandi starf unglækna í Bretlandi er. Bókin er saga eins manns en miðað við fréttir af undirmönnun og álagi á opinberum spítölum í Bretlandi, sem og sláandi tölum um geðheilsu lækna, má teljast líklegt að upplifun margra unglækna svipi til upplifunar Adam Kay. Bókinni er því ekki bara ætlað að segja sögu Kay, heldur einnig vekja stjórnendur breska heilbrigðiskerfisins til umhugsunar til að breyta starfsumhverfinu. Bókinni tekst vel ætlunarverk sitt – að vekja lesendur til umhugsunar – og eftir lesturinn getur maður ekki annað en leitt hugann að unglæknum hér á Íslandi og vonað að aðstæður þeirra séu betri, því það er klárt mál að svona starfsumhverfi mun valda skaða.

this is going to hurt bbc

Sjö þátta leikin sjónvarpssería með Ben Whishaw í aðalhlutverki var gerð eftir bókinni og sýnd á BBC í febrúar 2022 og á RÚV í september sama ár.

Þættirnir gerast árið 2006, tveimur árum eftir að Kay hóf störf sem læknir. Fyrsti þáttur hefst á minnistæðu atriði úr bókinni þar sem Kay er vakinn með símhringingu í bílnum sínum eftir að hafa sofnað þar að lokinni vakt á spítalanum. Atriðið setur tóninn fyrir það sem koma skal. Whishaw leikur á snilldarlegan hátt hinn örmagna unglækni sem fórnar ekki bara einkalífi sínu heldur líka andlegri og líkamlegri heilsu fyrir starfið á spítala sem rekinn er af NHS.

Whishaw er mjög sannfærandi í hlutverki sínu sem úrvinda læknir sem notar dökkan húmor til að lifa af í ómannúðlegu starfsumhverfi. Þættirnir eru dimmir og drungalegir á köflum, enda kalla efnistök bókarinnar á það, en húmorinn er aldrei langt undan. Líklega hefði Kay bugast miklu fyrr ef hann hefði ekki haft skopskyn fyrir aðstæðum sínum.

Þó að persónur eins og Shruti hafi ekki verið í bókinni þá er þeim ætlað að flytja ákveðinn boðskap. Að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk eru nefnilega manneskjur eins og við öll hin. Manneskjur sem oft finna mikið til með sjúklingum sínum og vilja þeim það besta.

Markmið Kay með skrifum bókarinnar var að vekja athygli stjórnvalda á aðstæðum heilbrigðisstarfsfólks innan NHS. Þáttunum tekst að magna upp skilaboðin. Því það er eitt að lesa um hversu þreyttur hann var á enn einni vaktinni en annað að sjá andlit og líkamstjáningu leikarans. Vonandi vekja bókin og þættirnir þá athygli sem þeir eiga verðskuldaða.

Fleiri bækur eftir Adam Kay

adam kay

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...