Þótt barnabókaútgáfa sé öflug í byrjun sumars er ekki þar með sagt að unglingabókaútgáfa sér eins mikil. Það gladdi mig því að sjá að Kver bókaútgáfa sendi frá sér bókina Á hjara veraldar eftir Geraldine McCaughreaní lok maí í frábærri þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur

McCaughrean er margverðlaunaður breskur barnabókahöfundur en þetta er fyrsta frumsamda skáldsagan eftir hana sem er þýdd yfir á íslensku. McCaughrean sækir innblástur aftur í tímann í sögum sínum. Í bókinni Á hjara veraldar sækir McCaughrean innblástur til St. Kildu eyjaklasans árið 1727.

Á fuglaveiðum

Kappadrangi eða Stac an Armin.

Nokkrir drengir eru settir í land á Kappadranga til að sækja egg, fugla og fiður. Þetta er eitt af sumarverkunum og drengirnir búast við að vera sóttir tveimur til þremur vikum síðar. Þegar tíminn hefur liðið bólar ekkert á bátnum og eftir sitja ungir drengir á aldrinum 8-15 ára aleinir við mjög fjandsamlegar aðstæður. Þeir sem hafa stundað klifur geta vel gert sér í hugarlund hvernig dvöl á dranga sem þessum krefur líkamann um nær óframkvæmanleg afrek.

Frjálsleg túlkun á sönnum atburðum

McCaughrean skrifar á mjög aðgengilegan hátt og það er nær ógerlegt að hætta að lesa. Einn sögumaður er í bókinni sem segir frá atburðunum rólega og af staðfestu. Quill hefur þægilega sögumannsrödd, hann er rödd skynseminnar þegar örvænting hellist yfir félaga hans.

Það er óþægilegt að lesa bók sem þessa. Á Kappadranga er nær ekkert skjól. Vosbúðin, erfiðleikarnir, aðgerðarleysið og hungrið dregur hægt og rólega kjark úr sögupersónunum og það er erfitt að verða ekki snortinn af örvæntingu þeirra og ótta. Allan tímann heldur maður þó með þeim og vonar að allt blessist að lokum. Á vissan hátt minnti bókin mig á Lord of the Flies. Þemað er það sama; drengir eru fastir saman á einangruðum stað og þurfa að þrauka þar til björgun berst. Sundrung klýfur hópinn og gerir baráttuna fyrir lífinu enn erfiðari. Bókin er þó ekki speglun á samfélagi okkar, heldur mun fremur frjálsleg túlkun höfundar á sönnum atburðum.

Frábær þýðing

Þýðing Sólveigar Sifjar á bókinni er frábær. Hún valdi að þýða staðanöfn og fyrir vikið færði hún allan söguheiminn nær lesandanum. Það er þægilegt að lesa um Kappadranga, en ekki Stac an Armin. Staðanöfnin fá þýðingu og merkingu á íslenskunni sem dregur lesandann enn lengra niður í söguheiminn.

Bókin hentar krökkum frá ellefu ára aldri. Lýsingarnar á lífi drengjanna á Kappadranga eru nokkuð átakanlegar, atburðirnir óhugnanlegir og erfiðir. Sjálf átti ég erfitt með að slíta mig frá bókinni, þótt hún sé sögð í mjög yfirveguðum og rólegum stíl. Lífsbaráttan reiðir sig á rútínu sem er aðeins rofin af hörmungum.

Bókin er tilvalin í sumarlesturinn, á meðan válynd veður eru víðsfjarri.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...