Í ár voru Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur veitt í þriðja sinn og var það Margrét Tryggvadóttir sem bar sigur úr býtum með ungmennabókinni Sterk. Sjálf er ég alltaf verulega spennt að sjá hvaða handrit sigra þessar barnabókakeppnir en þau eru yfirleitt mjög vönduð og slá í gegn. Ég held að nánast hvert einasta barn hafi lesið Kennarinn sem hvarf og sigurbók síðasta árs, Blokkin á heimsendafékk Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Ungmennaspennusaga

Sterk hefur rétt sloppið inn í barnabókakeppnina en söguhetja bókarinnar er hin sautján ára Birta sem hefur nýlega flutt til Reykjavíkur til að stunda nám í Tækniskólanum. Flutningurinn var mögulega meiri flótti frá heimabænum þar sem hún mætti litlum skilning frá bæði fjölskyldu og vinum þegar hún kom út sem trans. Birta fær þó mikinn stuðning frá bestu vinkonu sinni, Blævi, sem hefur einnig svipaða reynslu en fjölskylda hennar tók henni fagnandi þegar hún kom út sem trans.

Birta býr í fremur hrörlegum húsakynnum en hún hefur aðeins efni á herbergi í kjallaraholu sem hún deilir með öðrum dularfullum leigjendum. Í upphafi bókarinnar veltir Birta fyrir sér hver erlenda konan er sem býr í einu herberginu, hún er vansæl og birtist einn daginn með glóðarauga og áverka. Síðan hverfur hún sporlaust nokkrum dögum síðar. Hér kemur spennusagnaívaf bókarinnar sterkt inn og verður fyrirferðarmikill þráður í bókinni.

Innsýn í nýjan hugarheim

Meðfram spennusögunni fáum við að kynnast Birtu og hvernig henni tekst að fóta sig í þessari nýju tilveru. Hún er skotin í stelpu sem er með henni í einum tíma, Jóhönnu, og erum við þá komin inn á þemað sem er hvað sterkast í ungmennabókum, ástina. Þessa nýju og spennandi ást ungra manneskja sem eru á barmi þess að vera fullorðin. Það að vera trans vekur upp óöryggi hjá Birtu þegar kemur að sambandi hennar við Jóhönnu, eins og sjá má á hugsunum hennar eftir að hún gistir í fyrsta sinn heima hjá Jóhönnu: „…ef hún kærði sig einhverntímann aftur um að vakna með fúlskeggjaðri stelpu. […]. Jafnvel enn verri tilhugsun fannst henni samt ef það væri gróft útlitið sem heillaði Jóhönnu. Að hún hrifist af karlmannleikanum sem óneitanlega blasti enn við, hvernig sem Birtu leið innra með sér. Í svefnrofunum kvaldi hún sig á hvort væri verra.“ (bls. 163) Hugsanir Birtu í gegnum bókina varpa ljósi á líðan og tilfinningar fólks sem er að ganga í gegnum þetta ferli. Við lestur á bókum sem gefa innsýn í hugarheim annarra vaknar nýr skilningur og samlíðan hjá lesendum því eru bækur eins og Sterk svo mikilvægur partur í því að stuðla að víðsýni lesenda og til að breikka sjónarhorn þeirra. Fyrir utan að Sterk er einfaldlega vel skrifuð og spennandi ungmennabók.

Sterk vekur upp margar spurningar um það sem má fara betur í okkar samfélagi. Þegar Birta segir bestu vinum sínum að hún sé trans eru viðbrögðin ekki þau sem hún hefði óskað sér. Hún veltir fyrir sér af hverju það er: „Af hverju hafa karlar verið hræddir um að vera álitnir hommar? Er það einhver ógn við þá? Af hverju skiptir það máli þótt einhver haldi að einhver annar sé kannski hommi? Kannski voru strákarnir heima bara hræddir við það? Að allir myndu halda að þeir væru hommar fyrst að vinur þeirra væri trans?“ (bls. 55) Þeir létu þessar fréttir berast án samþykkis Birtu sem fékk því ekki að koma út sem trans á eigin forsendum. Birta gerir sér þó grein fyrir því að auðvitað er þetta margslungið: „En þó sennilega ekki, þetta var flóknara. Hún var stelpan sem þeir höfðu alltaf haldið að væri strákur. Svo fór hún yfir einhver landamæri sem ekki mátti fara yfir, nema í gríni.“ (bls. 55) Birta hefur í raun mikinn mannskilning, einnig gagnvart foreldrum sínum sem afneita henni þegar hún kemur út sem trans. Henni þykir vænt um þau en áttar sig á því að þetta er fáfræði, hræðsla og skilningsleysi sem veldur því að þau koma illa fram við hana. Samband hennar við foreldra sína vekur upp blendnar tilfinningar: „Hún fann að hún yrði aldrei alveg frjáls á meðan hún leyfði því hvað öðru fólki fyndist um hana að hafa hafa svona mikil áhrif á sig. Á sama tíma hafði hún samviskubit yfir að slíta sig alveg frá fólkinu sem ól hana upp. Henni þótti innst inni vænt um bæði pabba sinn og mömmu.“ (bls. 166)

Tekið á stórum málum

Sterk ekki aðeins góð ungmennabók heldur þrususpennusaga þar sem mikilvægum samfélagslegum málefnum er fléttað fínlega inn í frásögnina. Birta þarf að takast á við spillingu í undirheimum Íslands, öfl sem eru henni sterkari, og þar kemur fram beitt samfélagsádeila. Margrét veigrar sér ekki við að setja alvarlega þræði á borð við nútímaþrælavinnu, vinnuleigur og vændi inn í ungmennabók og talar ekki niður til ungra lesenda sem gerir það að verkum að eldri lesendur, og aðdáendur spennusagna, munu án efa hafa gaman af bókinni. Þar að auki er útgáfa bókarinnar fagnaðarefni því hér sjáum við jákvæða, sterka og flotta birtingarmynd ungrar trans stúlku sem mætti klárlega vera meira af í íslenskum bókmenntum.

 

Ef þú vilt kynna þér betur hvað það er að vera trans mæli ég með þessari frábæru síðu: www.otila.is

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...