Óvæntur liðsauki frá eldri borgurum

The Thursday Murder Club kom út síðasta haust í Bretlandi og er fyrsta bók Richard Osman sem er betur þekktur sem grínisti og kynnir í bresku sjónvarpi. Bókin sló sölumet og er strax orðið ljóst að um er að ræða glæpasagnaseríu, en framhaldsbókar er að vænta núna í haust. Bókin er frábær sumarfríslesning, sagnaheimurinn er kósý en spennandi og óhætt að mæla með því að lesa hana í bústaðnum, útilegunni eða bara heima í sófanum.

Fjórar áhugarannsóknalögreglur

The Thursday Murder Club sem titillinn vísar til er hópur sem hittist á hverjum fimmtudegi og kafar ofan í gömul óleyst morð. Hópurinn samanstendur af fjórum afar ólíkum einstaklingum: Joyce sem er fyrrum hjúkrunarfræðingur, Ibrahim sem er fyrrum sálfræðingur, Elizabeth sem starfaði við njósnir og Ron sem leiddi verkalýðsfélag. Öll eiga þau það sameiginlegt að búa í ríkumannlegum íbúðakjarna fyrir aldraða á rólegum, en fallegum stað, í Kent við suðurströnd Englands.

Richard Osman

Lífið gengur sinn vanagang hjá þessum eldri borgurum þar til byggingarverktaki finnst látinn og félagarnir standa frammi fyrir því að leysa morð í beinni. Ekki líður á löngu þar til fleiri lík bætast í hópinn og óreynt lögreglulið á svæðinu fer að þiggja aðstoð eldri borgaranna.

Góð persónusköpun

Ég naut þess að lesa The Thursday Murder Club, bókin er í húð og hár bresk og Osman tekst að skapa afar kósý umhverfi þar sem alltaf er boðið upp á te og breskar kökur þrátt fyrir að umræðuefni hópsins sé langt frá því að vera huggulegt. Mikið er lagt í persónusköpun og að gera daglegt líf sögupersónanna raunsætt: Joyce hefur misst margar af nánustu vinkonum sínum í íbúðakjarnanum, Elizabeth felur það fyrir félögum sínum hve langt leiddur maður hennar er orðinn af elliglöpum og Ron og Ibrahim eiga erfitt með að sleppa tökum á sjálfsmyndinni sem tengist fyrri störfum þeirra.

Heilt yfir er þetta hin fínasta saga sem er mjög grípandi. Mín helsta gagnrýni er hve langan tíma það tekur að skýrast hverjir gætu hafa valdið morðunum. Það eru falskar vísbendingar út um allt sem þarf að komast í gegnum áður en liggur fyrir hverjir raunverulegu morðingjarnir voru og það er ekki auðvelt að giska miðað við vísbendingar sem hafa komið fram hver drap hvern. Ég ætla þó klárlega að lesa næstu bók Osman, enda ekki á hverjum degi sem glæpasögur um áhugarannsóknarlögreglur á áttræðisaldri koma út!

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...