Sumarið í sveitinni – og í langri bílferði

Að leggja af stað í langferð með börn í aftursætinu er viss áhætta. Verða þau róleg? Verður stríð? Hvenær þurfum við að stoppa til að pissa? Hvað er hægt að finna þeim til dundurs og verður það nóg?

Ég hef gaman af því að ferðast um landið með fjölskyldunni minni, en ekki eins gaman af löngum bílferðum í aðeins og heitum bíl (okkur vantar loftkælinguna, skiljið þið). Ég hef hins vegar afskaplega gaman af spurningaleikjum, sögum og alls kyns pælingum. Um tíma fórum við í framsætinu í spurningakeppni við aftursætið og notuðum Krakkakviss-spurningarnar (aftursætið vann alltaf!). Það er samt alltaf gaman að hafa fjölbreytni þegar kemur að afþreyingu í bílnum.

Góð afþreying í aftursætinu

Guðjón Ragnar Jónasson og Harpa Rún Kristjánsdóttir tóku saman bráðskemmtilega bók sem passar fullkomlega inn í bílferðirnar og nestisstoppin við þjóðveginn. Í Sumarið í sveitinni eru spurningum, fróðleik og þjóðsögum um húsdýr og lífið í sveitinni blandað saman á fjölbreyttan hátt. Þannig eru nokkrar spurningar, svo fróðleikur og svo þegar ungir hlustendur eru orðnir óþreyjufullir eftir sögu er hægt að lesa þjóðsögu. Spurningarnar snúa flestar að sveitalífi og búskap, en inn á milli leynast aðrar spurningar – til dæmis um Hvolpasveitina!

Í síðustu bílferðum höfum við oftar en ekki gripið í bókina til að stytta okkur stundir og skemmtum okkur vel. Spurningarnar eru hæfilega einfaldar fyrir krakka og bjóða upp á samræður um sveitina og landið okkar. Það er því aldrei að vita hvaða samræður spretta fram. Saman höfum við rætt um munin á orfi og ljá og réttir og smölun. Spurningarnar henta þó kannski ekki endilega yngstu börnunum (sá yngsti í bílferðinni er 4ra ára og hann gat lítið svarað en smitaðist engu að síður af eldmóði bræðra sinna). Fyrir yngri börnin hitta þjóðsögurnar betur í mark, ásamt skemmtilegum, og stundum hryllilegum, blýantsteikningum Jóns Ágústs Pálmasonar.

Nú síðast, í nestispásu við þjóðveginn, hrylltum við okkur yfir teikningum af Þorgeirsbola, sem okkur þótti ansi ófrýnilegur. Strákunum fannst gaman að keppast um að vera fyrstir til að svara spurningum, en að þessu sinni vann þó framsætið. Það er ekki alltaf hægt að vinna!

Við mælum með Sumarið í sveitinni fyrir langar bílferðir. Það er gott að grípa í hana til að stytta sér stundir og efnið er fjölbreytt og langt frá því að vera einhæft.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...