Rithornið: Kragerø 22. júlí 2011

Kragerø 22. júlí 2011

Eftir Berglindi Ósk 

 

Hér er fallegasti skerjagarður í Noregi,

á sumrin streymir Oslófólk að

hytturnar fyllast

og bærinn lifnar við.

 

Hér er alltaf sól,

alltaf friðsælt.

 

Í dag er rigning.

 

Við erum í heimsókn hjá vinkonu mömmu

– í húsi klippt út úr Astrid Lindgren bók

þegar síminn raskar hversdeginum.

 

Það varð sprenging í Osló

dóttir vinkonunnar send heim úr vinnunni,

er allt í lagi með hana?

 

Þetta getur varla verið alvarlegt

hlýtur að vera mistök – eitthvað slys.

 

Í loftinu er ókyrrð.

 

Við komum heim og kveikjum á sjónvarpinu.

Bein útsending:

Sprenging í miðbæ Osló. Nánar tiltekið í

stjórnsýsluhverfinu. Líklega

bílasprengja. Nokkrir lífshættulega slasaðir.

 

2 látnir

 

 

Á skjánum sést hvítt reykský liggja yfir háhýsum.

Svæðið hefur verið rýmt og girt af. Fólk í nágrenninu á að halda

sig heima. Ekki er vitað hvort þetta er skipulögð

hryðjuverkaárás.

 

5 látnir

 

Osló er í þriggja klukkustunda fjarlægð

virðist nú vera mörg ljósár

– hvort er ljósár annars vegalengd eða tími?

 

8 látnir

 

Við borðum kvöldmat fyrir klukkan fimm

eins og norðmenn. Veltum vöngum yfir hver

stóð á bak við sprenginguna á milli þess

að rétta hakkið, grænmetið og taco skeljarnar.

Rifjum upp í gamni hvar við vorum

þegar árásin á Tvíburaturnana átti sér stað.

 

Sjónvarpsútsendingin er rofin.

Það er skotárás í Útey.

Sumarbúðir ungmenna í jafnaðarhreyfingunni.

 

10 látnir

 

Kem þessu ekki heim og saman.

Sprenging í Osló.

Skotárás í Útey.

Reyni að skilja en kem

þessu ekki heim

og saman.

 

12 látnir

 

Maður klæddur eins og lögregla

gengur um á eyjunni

maður sem skýtur ungt hugsjónafólk.

 

Maðurinn er ljóshærður og talar norsku.

 

17 látnir

 

Sonur minn leikur sér með playmó karla

sem við keyptum í sakleysi okkar

í morgun.

 

Ég faðma hann að mér

aðeins of fast.

 

22 látnir

 

Sjónvarpið sýnir frá öðrum heimi

þrjár klukkustundir í burtu

nokkur ljósár.

 

Við sitjum í leiðslu

viljum ekki sjá

viljum ekki sjá ekki.

 

Símhringing truflar að nýju:

systir mín sem býr hér

er á Íslandi.

Vinkona mín hætti á síðustu stundu við

að fara í Útey, stynur hún,

fegin að vera örugg,

fegin að vera

langt í burtu.

 

26 látnir

 

„Ekki hringja, ég er í felum,“

póstar eitt fórnarlambanna á Twitter.

 

33 látnir

 

Krakkar kasta sér í sjóinn

550 metrar í land

sum ná að synda yfir

öðrum er bjargað af bátum

einhver eru skotin

enn önnur

drukkna.

 

Á ströndinni liggja lík

eins og marglitaðir kuðungar.

 

42 látnir

 

Sérsveitin kemur með þyrlu frá vettvanginum í Osló. Mótorinn á bátnum

þeirra deyr rétt fyrir utan land. Það tekur þau tvær mínútur

að finna annan bát

og halda aftur af stað.

 

46 látnir

 

Fyrst kemur björgunarsveitafólk yfir í eyjuna

með pari á hraðskreiðum bát.

Nokkrum mínútum síðar

sérsveitin.

Nokkrum sekúndum síðar

lögreglan.

 

59 látnir

 

Sérsveitin handsamar árásarmanninn.

Hann er einnig grunaður um

sprengjuárásina í Osló.

Hann er norskur.

 

Á meðan við borðuðum taco

keyrði hann frá einum glæp til annars?

 

Kem ekki

heim og saman.

 

67 látnir

 

Allir fara að sofa

nema ég

er sokkin ofan í sófann

grafin í grimmúðinni

steinrunnin fyrir framan sjónvarpið.

 

80 látnir

 

Yngstu fórnarlömbin fjórtán ára

flest nýskriðin yfir átján.

 

Sofna í þeirri von um að fjöldamorð

í þriggja klukkustunda fjarlægð

hafi verið draumur.

 

Vakna við staðfestar tölur látinna:

69 látnir í Útey

8 látnir í Osló

 

Tölurnar lægri en í fyrstu var talið.

 

77 of margir látnir

 

Á stofugólfinu liggja playmó karlar á víð og dreif.

Fjölskylda og spíttbátur.

Handklæði og nesti.

Lögreglumaður.

Byssur og handjárn.

 

Í dag er rigning.

 

Les í blöðunum að morðinginn var hér

í bænum

í síðustu viku

í öðrum tíma

 

Hef hugsanlega mætt honum.

Reyni að rifja upp alla sem gengu hjá,

muna hvort ég sá morðblik

í bláum augum.

 

77 látnir

75 alvarlega særðir

 

Systkini héðan úr bænum urðu fyrir skoti

en lifðu af.

 

Sonur minn leikur sér á gólfinu

of ungur til að skilja

of ungur til að muna

of ungur til að deyja.

 

77 jarðarfarir

 

Kem ekki heim

og saman.                                                                                                                                                               

 

 

[hr gap=”30″]

Berglind Ósk stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún er tölvunarfræðingur að mennt og starfar sjálfstætt sem sérfræðingur í notendamiðaðri textasmíði. Hún gaf út ljóðabókina Berorðað árið 2016 auk þess sem hún hefur birt ljóð, smásögur og þýðingar í tímaritum. Í haust er von á næstu ljóðabók hennar, Loddaralíðan, en undanfarin ár hefur hún haldið fyrirlestra um það efni og hafa þeir gert mikla lukku.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...