“Ég er með hugmynd,” sagði ég upp úr þurru við eiginmann minn í byrjun síðasta mánaðar. Við vorum stödd á sumarútsölu Nexus og ég stóð fyrir framan hillustæðu sem var smekkfull af bókum á afslætti og reyndi að muna hvort ég væri þegar búin að kaupa tiltekna bók sem hafði fangað athygli mína.

“Ókei,” svaraði hann varfærnislega. Það voru innan við fjórar vikur liðnar síðan ég var næstum því búin að sannfæra hann um að kaupa lóð og byggja hús af því við fórum í göngutúr á svo fallegu svæði í heimabænum okkar, svo varfærnin var ekki úr lausu lofti gripin.

“Hvað ef við búum til smá leik? Eigum við að velja sitthvora bókina handa hvort öðru?”

Þetta var hugmynd að hans skapi, enda eru bækur sameiginlegt áhugamál okkar og hugmyndin ólíkleg til að setja okkur á hausinn. Fyrr en varir vorum við farin að móta reglur leiksins, eins og siðmenntuðu fólki sæmir.

Regla númer 1

Það er stranglega bannað að velja bækur úr miðri seríu. Bækur skulu annað hvort vera fyrsta bókin í seríu, eða stakar.

Regla númer 2

Það verður að gefa bókinni tækifæri, a.m.k. 100 blaðsíður. Eftir það má hætta lestrinum ef bókin er ekki að vekja áhuga.

Regla númer 3

Þótt leikurinn sé kjörið tækifæri til að víkka út sjóndeildarhringinn, ætti þó að leitast við að hafa áhugasvið þess sem verið er að velja bókina fyrir til hliðsjónar.

Fleiri voru reglurnar ekki.

Fyrir sakir þess að gera þessum gjörningi okkar skil í pistli yfirheyrði ég eiginmann minn um þær hávísindalegu aðferðir sem hann beitti við valið. Eftir að hafa borið þær aðferðir saman við mínar eigin hef ég dregið þær saman í eftirfarandi lista, sem auðveldlega mætti breyta í flæðirit:

  1. Er bókin furðusaga/vísindaskáldsaga?
  2. Er kápan falleg?
  3. Hvað segja meðmælin með bókinni?
  4. Hvað fær bókin margar stjörnur á Goodreads?

Með hliðsjón af öllu ofangreindu endaði ég á því að velja bókina Tempests and Slaughter eftir Tamora Pierce handa honum og hann valdi bókina Spinning Silver eftir Naomi Novik handa mér, mér til mikillar ánægju.

Hvorugt okkar hefur komist í að lesa bækurnar ennþá, svo ég get ekki upplýst ykkur um hvort leikurinn hafi verið vel heppnaður. Við vorum hins vegar sammála um að báðar bækurnar hljómuðu áhugaverðar. Raunar er staðan þannig að okkur langar bæði til að lesa báðar bækurnar og því óljóst á þessu stigi málsins hvort við höfum raunverulega valið bækur handa hvort öðru, eða hvort við höfum bara valið bækur sem okkur langar sjálfum að lesa. Smekkur okkar á bókum er óneitanlega mjög svipaður og ekki alls kostar ólíkt að það hafi einmitt verið raunin.

Hvað sem því líður þá hefur þessi fyrirvaralausa hugdetta aðeins undið upp á sig og höfum við verið að ræða hér heima um hvort við ættum að endurtaka leikinn (hehö). Þá höfum við jafnvel séð fyrir okkur að fara saman á bókasafnið og velja bók handa hvort öðru þar. Einnig þykir mér persónulega ákveðið lykilatriði að festast ekki í bókum og höfundum sem maður þekkir sjálfur, heldur reyna að koma með eitthvað nýtt og skemmtilegt. Það stefnir því í mögulega reglubreytingu og hefur sérstök nefnd verið stofnuð utan um það verkefni. Nefndin samanstendur af okkur tveimur. Niðurstöður verða birtar almenningi um leið og þær liggja fyrir.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...