Stigalausa gluggaþvottagengið í Turninum

Ein af nýútkomnum barnabókum þetta sumarið er Gírafína og Pellinn og ég eftir Roald Dahl í þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur með teikningum Quentin Blake. Síðustu misseri hefur bókaútgáfan Kver gefið út bækur Dahl í íslenskri þýðingu og mér virðist á öllu sem bækurnar fái góðar viðtökum hjá ungum lesendum.

Innbrot!

Í nýjustu bók Dahl á íslensku fylgjumst við með Ella. Elli er nýlega búinn að kynnast Gírafínu, Pellanum og Apanum, sem búa í Turninum. Gírafína og félagar eru stigalaust gluggaþvottagengi sem fá verðugt verkefni við að þrífa glugga hjá Hertoganum. En þegar þau standa innbrotsþjóf að verki í húsinu þurfa þau að nýta alla sína kænsku til að ná honum.

Sögur Dahl eru fullar af leik og hann lét ekki leiðilegan raunveruleikann stoppa sig þegar hann spann sögurnar sínar. Sögurnar eru ætíð ævintýralegar og spila með mestu draumóra barnanna, eins og til dæmis að eiga sína eigin sælgætisbúð. Aðalpersónurnar fá venjulega allt sem þær óskuðu mest, ljótu kallarnir eru ljótir í gegn og eiga allt vont skilið, góðu kallarnir sigra að lokum. Sögurnar eru hraðar og grípandi.

Auðlesin fyrir næsta stig

Níu ára álitsgjafi Lestrarklefans er orðinn þrautþjálfaður í lestri og las bókina á einni kvöldstund, jafnvel þótt hann ætti að vera farinn að sofa. Hann sagði bókina vera spennandi, skemmtilega og fyndna. Hann hefur í gegnum tíðina lesið margar bækur eftir Dahl og hefur alltaf jafn gaman af þeim.

Gírafína og Pellinn og ég er leikandi létt og atburðarrásin er hröð. Hún hentar því einstaklega vel sem næsta stig við léttlestrarbækurnar um Binnu B. Bjarna og Heyrðu Jónsi. Söguþráðurinn er örlítið flóknari en nægilega hraður til að halda athygli lesanda sem les hægar.

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...