Undanfarin 15 ár hefur röð bóka komið út í hinum enskumælandi heimi sem setja sér róttækt verkefni. Þetta eru skáldsögur eftir kvenhöfunda þar sem nýju, femínísku sjónarhorni er varpað á helgustu texta hins vestræna kanóns — grísk-rómversku fornritin, svo sem Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu eftir Hómer og Ummyndanir eftir Ovídíus. Þetta er róttækt í ljósi þeirrar karllægu helgi sem þessi verk hafa verið sveipuð um aldaskeið. Efristéttarkarlar hafa allt frá því í síðfornöld skapað bókmenntalegan geislabaug í kringum þessa texta, veitt þeim stundum fáránlegt menningarlegt vægi og þar með oft misst sjónar á umfjöllunarefni textanna, sem fellur í skuggann af þeirra eigin upphafningu. Hinn hefðbundni lestur á fyrrnefndum verkum á það þannig til að vera ógagnrýninn á naívan eða hreinlega heimskulegan hátt, en verkin vaxa mjög um leið og menn fara að líta textann nýjum augum, eins og umræddir kvenhöfundar hafa bent á á undanförnum árum. Þær hafa því unnið mikilvægt bókmenntalegt framlag, sem vert er að fjalla um hér — þótt ég ætli mér sömuleiðis að vera gagnrýninn á sumt sem úr því verkefni hefur komið, sem er bara í anda umfjöllunarefnisins.

Vandamálið sem þessir kvenhöfundar bentu á krystallast í grein frá árinu 2004 í fræðiritinu Pedagogy. Greinin er eftir kennara sem segir frá erfiðri kennslustund í enskum bókmenntum sem hún hafði kennt, þar sem nemendurnir — sem allir voru konur, þetta var kvennaskóli — gagnrýndu harkalega kennsluefnið, enska þýðingu á Ummyndunum Ovidiusar. Verkið hafði á formlegan eða óformlegan hátt verið kynnt fyrir nemendunum á forsendum hins klassíska álits á fornaldarverkum, þ.e. að þau væru íðilfögur, hreinar og tærar birtingarmyndir hæstu hæða mannsandans. En þegar nemendurnir fóru að lesa sáu sumar þeirra, sérstaklega þær róttæku í hópnum, að þessi lýsing passaði alls ekki við. Ein spurði kennarann beint út: „Af hverju erum við að lesa handbók um nauðganir?“

Svipuð umræða hefur átt sér stað víða undanfarin ár. Mikið fjaðrafok varð í einni af mörgum bylgjum „cancel culture“-umræðunnar í Bandaríkjunum árið 2015 út af sama verki, Ummyndunum Ovidiusar. Kvenkyns nemandi í Columbia-háskólanum kvartaði það ár við kennarann sinn eftir kennslustund þar sem verkið var lesið og sagði það vera óviðeigandi hvernig kennarinn vildi tala um fegurð ljóðlínanna eða tækni Ovidiusar, en minntist ekki orði á nauðganirnar sem ljóðlínurnar lýstu. Nemandinn var síðan að sjálfsögðu sakaður um að vilja ritskoða klassískar menningarminjar — við þekkjum þessa umræðu, hún er eins og lest, hún keyrir á sínum teinum og ekkert kemur á óvart.

Það sem þessir nemendur — allt konur — höfðu komið auga á var sem sagt skógurinn — ofbeldið — sem svo ótal margir sjá ekki fyrir trjánum — hinni aldagömlu friðhelgi textanna frá gagnrýnum lestri. En hér var, nota bene, engu „cancellað“. Í fyrrnefndu kennslustundinni í kvennaskólanum náði kennarinn, eftir nokkuð panikk, að beina umræðunni frá þeirri einföldu staðreynd, sem blasti við, að ofbeldið væri til staðar, og að merkingu þess hvernig það birtist þar. Þótt einhverjir nemendur hafi viljað hafna textanum sem slíkum fyrir umfjöllunarefnið voru aðrar á öndverðum meiði. Þær lýstu því að þessi umfjöllun Ovidiusar rímaði við þeirra eigin reynslu og tilfinningar, að meðferð hans á efninu, ef maður leyfir sér að taka hana alvarlega, væri raunar djúp, áhrifamikil og flókin.

Atwood, Penelópa og þernurnar

Flestir þeir kvenhöfundar sem hafa skoðað klassísku verkin gagnrýnum augum seinustu fimmtán árin eru sama sinnis. Þær laðast að verkunum og sjá í þeim galdrana þeim mun skýrar sem hefðin þjakar ekki lestur þeirra. Brautryðjandinn var, ef mér skjátlast ekki, Margaret Atwood í bók sinni frá 2005, Penelópukviða (The Penelopiad). Í henni tók Atwood fyrir Ódysseifskviðu Hómers, en færði sjónarhólinn burt frá ferðum og hefndum Ódysseifs og þroskasögu sonar hans Telemakkusar. Þess í stað beindi Atwood sjónum að konum í kviðunni, annarsvegar Penelópu, eiginkonu Ódysseifs, og svo þernunum hennar tólf sem Ódysseifur og Telemakkus hengja undir lok kviðunnar, fyrir þann glæp að hafa sofið hjá, eða verið nauðgað af, vonbiðlum Penelópu.

Það er líklega merki um að þessi bók hafi ekki selst vel hérlendis að ég finn enga nothæfa mynd á netinu af íslensku kápunni. Það er hægt að kaupa hana á 870 kr. í bókabúð Forlagsins – gjöf en ekki gjald!

Atwood stillir upp rödd Penelópu, sem segir frá eigin ævi og vinnur samúð lesandans, gegn röddum þernanna, sem syngja, dansa, kveða, setja upp leiksýningar og eru með dólg gegn þeirri sjálfsréttlætingartúlkun sem Penelópa setur fram. Hægt og hægt vinna þær lesandann á sitt band, gegn Penelópu, gegn Ódysseifi, gegn Telemakkusi og gegn feðraveldinu sem hneppti þær í þrældóm, ól upp til þess eins að nota þær sem vinnuafl, leit á þær sem kynlífsleikföng og drap svo fyrir að hafa sofið hjá/verið nauðgað af einhverjum sem ekki var í náðinni hjá húsbóndanum, Ódysseifi. Það er meistaralega gert hjá Atwood hvernig frásögn Penelópu af eigin kúgun af hendi karla sannfærir fyrst lesandann með menntaðri stillingu sinni og háfleygni, en hömlulausar ásakanir þernanna fletta á endanum ofan af henni líka, því hún var þrælaeigandi rétt eins og eiginmaðurinn. Hér er enginn hluthafafemínismi á ferð heldur eitthvað sem nær dýpra — eins og höfundi á borð við Atwood er von og vísa. Ég mæli eindregið með þessari bók, sérstaklega þar sem hún hefur verið meistaralega þýdd á íslensku af Sigrúnu Á. Eiríksdóttur (Bjartur, 2005).

Kona fær nafn

Árið 2018 kom síðan út bók sem ég tel nokkuð víst að sótti sér innblástur til Atwood, The Silence of the Girls eftir enska rithöfundinn Pat Barker. Bókin færir sjónarhorn Ilíonskviðu Hómers frá karlhetjunum, Akkilesi, Agamemnon, Ódysseifi og co., yfir til konunnar sem í íslenskri þýðingu kviðunnar er aðeins kölluð Bríseifsdóttir — Bríseis á grísku. Þótt þetta sé að forminu til vissulega föðurnafn þá tekur Barker það sem kenninafn, enda var það ekkert óalgengt í hinum gríska heimi að fólk væri bara kallað „x-son“ eða „x-dóttir“. Bríseis fær þannig eigið nafn og einnig það vægi sem hún á skilið, en gervöll Ilíónskviða hverfist um Bríseis ef að er gáð. Hún var tróversk prinsessa sem hafði verið hertekin og leidd í þrældóm af gríska hernum á meðan umsátrinu um Tróju stóð. Varð hún eign Akkilesar, mesta stríðsmanns Grikkja. Leiðtogi gríska herleiðangursins, Agamemnon, vildi hinsvegar taka hana eignarnámi af Akkilesi, enda taldi hann sig hlunnfarinn um þræla af hinum grísku höfðingjunum. Akkilles brást illur við, þráaðist við að afhenda Bríseis og sagðist ekki munu berjast með gríska hernum framar eftir þessa móðgun í sinn garð. Þetta hrindir af stað þeirri blóðugu atburðarás sem Ilíónskviða fjallar um — allt kom þetta til út af tveimur karlmönnum að rífast um eignarhald á kynlífsþræl.

Bríseis var fangi í grísku herbúðunum við Tróju og hvílir sjónarhorn bókarinnar því þar. Lýsingin á búðunum er eftirminnileg og breytir því varanlega hvernig maður les Ilíonskviðu, enda er Barker ekkert að draga úr því: Hún kallar þær rape camp, nauðgunarbúðir. Slíkt er að sjálfsögðu alþekkt í hernaði fyrr og síðar og er það áhrifaríkt hvernig Barker setur hið goðsagnakennda Trójustríð í samhengi þess sem sérhver maður á að vita um stríð — að það er ekkert „hetjulegt“ við þau, að þau eru gengdarlaust ofbeldi ekki bara stríðsmanns gegn stríðsmanni, heldur hins sterka gegn öllum öðrum — ofar öllu konum. En Barker er heldur ekki að „cancella“ Ilíónskviðu. Eins og franski heimspekingurinn Simone Weil benti á í magnaðri grein frá árinu 1939 er Ilíónskviða meistaralegasta umfjöllun bókmenntanna fyrr og síðar um ofbeldi og hlutgerandi mátt þess yfir manneskjum; þótt Ilíonskviða lýsi engum nauðgunum er það sem Barker lýsir alls ekki fjarri þeirri mynd sem kviðan varpar upp, því hvergi dregur hún úr þeim hrottaskap og þeirri afmennskun sem stríð kallar fram í mannfólki. Ég get því mælt heilshugar með þessari bók líka, hún er frábær lestur fyrir hvern þann sem þekkir til Hómerskviða.

Tár, bros og Trójuhestur

Nokkuð ólík þeim tveimur bókum sem ég hef þegar fjallað um er vinsæl bók bandaríska fornfræðingsins og höfundarins Madeleine Miller frá 2011, Söngur Akkillesar (The Song of Achilles; hún kom út á íslensku árið 2013 í þýðingu Þórunnar Hjartardóttur). Þótt sú bók færi einnig sjónarhorn Ilíonskviðu til þá eru konur ekki í forgrunni hér (og koma raunar lítið við sögu). Aðalsöguhetjan er Patróklus, maðurinn sem Akkilles elskaði meira en allt annað en steypti svo í glötun með þrjósku sinni og hroka eftir rifrildið um Bríseis. Margt er raunar á huldu um samband Akkillesar og Patróklusar í Ilíonskviðu. Eru þeir elskendur? Eru þeir vinir? Fólk hefur svarað þessari spurningu á ólíkan hátt eftir tíðarandanum. Grikkir í fornöld töldu augljóst að Akkilles og Patróklus væru elskendur, og það sama finnst okkur mörgum í dag. En Ilíonskviða var ævaforn strax á fornöld; þetta er elsta varðveitta bókmenntaverk Vesturlanda og við höfum ekkert til að miða við, við vitum ekkert um það samfélag sem kviðan spratt úr. Því er ekki hægt að fullyrða neitt um ætlun „höfundar“ hvað þetta varðar (en kviðan er ennfremur sprottin úr munnlegri geymd, og á sér þannig ekki neinn einn „höfund“).

Stórskemmtilega erótísk kápa. Ég fíla sérstaklega sverðshjöltun sem minna mjög á eitthvað allt annað.

Miller, hinsvegar, þótt hún viti án vafa af þessum fræðilegu vafamálum öllum, ákvað að gefa þeim langt nef. Hún skrifaði þannig hreina og beina gay ungmennabók um hina ógæfusömu ást Akkillesar og Patróklusar, fulla af roða í kinnum, uppgötvunum um sjálfan sig, dramatískum setum við strendur beljandi hafs og klístruðu unglingakynlífi. Þótt bókin sé eftir því skemmtileg er það eiginlega undarlegt hversu sjaldan er talað um hana sem ungmennabók. Þar er án vafa aftur þungi kanónsins að verki. Bók sem byggir á Ilíonskviðu bara hlýtur að vera fullorðinsbók, eða hvað? Nei, þetta er drepleiðinlegt viðhorf, sem bæði gerir lítið úr þeirri frábæru bókmenntagrein sem ungmennabókin er og setur Ilíonskviðu í einhverja hámenningarprísund sem hún þarf sárlega að losna úr. Ég styð því eindregið verkefni Miller að færa karaktera Ilíonskviðu niður á jörðina — þótt mér finnst eitthvað örlítið of bandarískt og nútímalegt við samband Akkillesar og Patróklusar í útgáfu Miller, og stíllinn er sömuleiðis stundum kauðalegur. (Miller gaf út aðra bók byggða á Hómerskviðum árið 2018, Circe, en hana hef ég því miður enn ekki komist í að lesa).

Ovidius í Bandaríkjunum

Amerískheit og stundum kauðalegur stíll Miller er hinsvegar ekkert við hliðina á seinustu bókinni sem ég ætla að fjalla um hér, Wake, Siren: Ovid Resung eftir bandaríska rithöfundinn Ninu Maclaughlin (2019). Í stíl Atwood og Barker ætlar Maclaughlin sér að færa hinum nauðguðu kvenpersónum Ummyndana Ovidiusar rödd með seríu örsagna í þeirra nafni. Þessar örsögur eru færðar úr goðsögulegum tíma frumtextans yfir í stundum örlítið afbakaða útgáfu 21. aldarinnar. Sumar eru í formi tíma hjá sálfræðingi, aðrir í formi textaskilaboða o.s.frv. Þetta er skemmtileg hugmynd, sem mér finnst hins vegar alls ekki ganga upp í útfærslu höfundar.

Þetta minnir mig nú bara á einhvern karakter úr kvikmyndabálknum X-Men.

Hvað ætlar Maclaughlin sér með þessu? Baksíða bókarinnar vill meina að höfundurinn „lays bare the violence lurking in the heart of Ovid‘s narratives“. En þessi lýsing stenst ekki. Eins og áður var komið að er ofbeldið alls ekkert „lurking“ í Ovidiusi. Það blasir við á yfirborðinu, þótt aldaraðir spekinga hafi látið eins og það væri ekki þarna. Þó má segja að það sé engu að síður þörf á því að benda á það sem blasir við, rétt eins og Atwood og Barker höfðu áður gert — en þá er spurningin: Benda hverjum á?

Bókin er nefnilega mjög skýrt ætluð ákveðinni gerð lesanda og talar inn í mjög ákveðið umhverfi: Þetta er bók fyrir menntaðar bandarískar konur sem kjósa Demókrataflokkinn og fjallar augljóslega um #metoo, með karaktera Ovidiusar sem hámenningarlega átyllu. Þeir fá vissulega raddir, en þær raddir eru einhverjar þær ósympatískustu sem ég hef á ævi minni lesið: svo bandarískar, svo nefmæltar og hvítar, svo yfirborðskenndar, svo háværar en innihaldsrýrar, svo skrafhreifar en stefnulausar, að ég þurfti stöðugt að taka mér hlé við lesturinn til að bæla niður kanahatrið sem byggðist upp í mér.

Það er margt sem er að hér. Fyrir bók sem gefur sig út fyrir að vera með puttann á púlsinum hvað varðar kynferðisofbeldi og valdahlutföll er ótrúlegt hvers konar stereótýpur höfundur leyfir sér, t.d. þegar hún skrifar karaktera fólks úr lágstétt. Vefnaðarmeistarinn Arakhne er í útgáfu Maclaughlin svo fátæk að fjölskylda hennar selur hvolpa úr húsasundi (eins og fátækt fólk gerir). Lífið er erfitt in the ´hood:

Eagle, Ben-Ben, Paulo, they went to prison. Kevin, he got killed by the police. Spice Rack, Henrietta, they got killed that way too. Alma went wrong in her head because she kept drinking from this one well we knew had the poisons, but she drank anyway because that‘s the way she always did it and there was nothing that would change her mind.

Í þessari stuttu klausu er svo ótal margt sem fer í mínar fínustu taugar. Já, svona er þetta fátæka fólk — drekkur úr eiturbrunnum því það veit ekki betur. Orðalagið „had the poisons“ á væntanlega líka að gefa í skyn lágstéttarstöðu, og það á óbærilega yfirlætislegan hátt. Maður spyr sig hvaðan Maclaughlin, sem býr í vellauðuga háskólabænum Cambridge, Massachussets, hefur þá hugmynd að fólk úr fátækrahverfunum beri nöfn eins og „Spice Rack“ og „Ben-Ben“. Áfram heldur lýsingin: Einn fátæklingurinn enn „talked so much about being tired. „It‘s tiring being poor“, she said, and then one day she gave herself permanent rest“. Hver þarf Steinbeck þegar hann hefur þetta?

Segðu mér meira um Spice Rack, Nina Maclaughlin

Höfundurinn er augljóslega drifinn áfram af réttlátri reiði, sem er skiljanlegt og auðvitað fyrirgefst manni margt undir þeim kringumstæðum. En þessi reiði drífur höfundinn stöðugt út í yfirlýsingar sem vinna gegn hennar eigin markmiðum. Maclaughlin segir manni til dæmis trekk í trekk að nauðgararnir í sögunum hennar séu með lítil typpi, þeim til niðurlægingar. (Þetta er náttúrulega bandarískt, þannig að það eru alltaf notuð einhver idiotísk skrauthvörf eins og „tiny wiener“). Þannig tekur hún undir feðraveldislegar menningarlegar hugmyndir um karlmennsku og typpastærð í stað þess að rífa þær niður. Nauðgarar eru ekki alvöru karlmenn, eru skilaboðin, sem þá gengur út frá því að það sé til eitthvað sem heitir „alvöru karlmaður“. Skyldi hann heita Ben-Ben og vera úr gettóinu?

Ég mæli sem sagt persónulega frekar með Ummyndunum Ovidiusar sjálfs heldur en útfærslum Maclaughlin. Ummyndanir koma lesandanum á óvart og eru krefjandi, á meðan Wake, Siren er kannski í takt við tíðarandann en jafnframt svo rígbundin við hann að bókin verður fyrirsjáanleg og hálfóþolandi fyrir vikið. Hún bætir engu við það sem hún byggir á og gagnrýnin á Ovidius er svo augljós að hún er vart fram takandi. Þetta stendur í beinni mótsögn við hinar bækurnar sem ég hef hér talið fram, og ég vona að það trend sem Penelópukviða Atwood hratt af stað eigi sér bjarta framtíð þótt þetta nýjasta innslag sé lítt spennandi.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...