Lúmskur sálfræðitryllir

Um þessar mundir er ég í fæðingarorlofi með syni mínum, mínu fyrsta barni, og mér fannst í alvöru góð hugmynd að fara að lesa bókina Grunur eftir Ashley Audrain í þýðingu Rögnu Sigurðardóttur. Þið ykkar sem þekkið til vitið að þessi bók fjallar um „martröð hverrar móður – að geta ekki elskað barnið sitt“, eins og stendur aftan á bókinni. Ég ákvað nú samt að slá til, þetta gæti nú ekki haft svo mikil áhrif á mig, enda elska ég barnið mitt einstaklega mikið og nýt þess að vera í fæðingarorlofi.

En bókin hafði klárlega mikil áhrif á mig og það ekki góð, ég varð taugaveiklaðri og mun hræddari um ungbarnið mitt (nýbakaðar mæður eru nógu taugaveiklaðar fyrir!). Ég kláraði nú samt bókina og ætla að fjalla hér stuttlega um hana.

Erfiðleikar móðurhlutverksins

Bókin fjallar um Blythe, unga móður og upprennandi rithöfund. Hún er gift góðum manni sem sér fyrir henni og hvetur hana áfram í skrifunum og getur ekki beðið eftir að stofna með henni fjölskyldu. Saman eignast þau dótturina Violet sem Blythe þráast við að tengjast tilfinningaböndum í gegnum svefnleysi fyrstu mánaðanna og algjöra örmögnun. Hún fer að gruna að Violet sé ekki eins og hún eigi að sér að vera, hún er dularfull og köld gagnvart móður sinni. Er eitthvað að Violet eða á Blythe bara erfitt með að fóta sig í móðurhlutverkinu? Inn í frásögnina um Blythe fléttast tvær aðrar tímalínur, um móður Blythe og svo ömmu hennar. Alltaf eru það samskipti móður og dóttur sem eru í kastljósinu, áföll sem erfast.

Raunsönn frásögn

Það eina jákvæða við að lesa þessa bók með þriggja mánaða barn var að ég var nýbúin að ganga í gegnum svo margt sem kemur fram í frásögninni og get því staðfest að í þessari bók eru virkilega raunsannar lýsingar á fæðingu, sængurlegu og svo orlofinu. Stundum jafnvel óþægilega raunsannar. Það er ekki skafið utan af neinu, allt það ljóta og blóðuga við þetta ferli fær að fylgja með og er það einn mesti styrkleiki bókarinnar.

Kafað er djúpt ofan í sambönd mæðra og dætra. Þá órjúfanlegu tengingu sem ætti að vera til staðar þegar kona elur barn. En í gegnum ættartréð virðast mæðgnasambönd alltaf innihalda eitthvert rof, tengslaleysi. Móðir og amma Blythe áttu báðar við andlega erfiðleika að stríða og yfirgefa dætur sínar báðar vegna þess. Það sem er frábrugðið við frásagnirnar úr fortíðinni er að þar er sagan sögð frá sjónarhorni dótturinnar sem finnur að móðir sín elskar sig ekki. Ekki er þar gefið í skyn að eitthvað sé að dætrunum, heldur eru það mæðurnar sem eru augljóslega vandamálið. Það er áhugavert þar sem lesandinn fær aðeins sjónarhorn Blythe á Violet, en aldrei sýn Violet á móður sinni. Er Violet jafn slæm og Blythe heldur? Er þetta allt í höfðinu á Blythe sjálfri? Er fortíðin að endurtaka sig?

Þetta er myrk bók þar sem slæmir hlutir henda ung börn. Ég þurfti oft að leggja bókina frá mér einfaldlega til að fá pásu frá því sem var að gerast. Mömmuhjartað var of lítið fyrir sumar senurnar. Ég las bókin þó til enda og þjáðist með sársauka og sorg Blythe og örlögum fjölskyldu hennar.

Grunur er lúmskur sálfræðitryllir sem tekur á taugar lesandans, hægt og rólega, í gegnum alla bókina.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...