Aldrei hélt ég að ég myndi draga upp upptökutæki í miðjum lestri bókar og byrja að rökræða við sjálfa mig um innihald hennar, en það er einmitt það sem gerðist á meðan ég gleypti í mig Stríð og klið á leifturhraða.

Stríð og kliður er ellefta bók höfundarins Sverris Norland, en hér má nálgast umfjöllun um bókaknippið hans sem kom út 2018. Grunnstefið í Stríði og kliði er sköpunarkrísa sem höfundurinn lenti í haustið 2016, en í bókinni fjallar hann um það hvernig hann tókst á við það að geta skyndilega ekki skapað, ástæðurnar sem lágu að baki og hvernig honum tókst smám saman að vinna sig út úr KRÍSUNNI, eins og hann kallar hana.

Áhugaverð og ögrandi

Bókin inniheldur alls kyns tölfræðilegar upplýsingar um neikvæð áhrif mannkynsins á náttúruna og fjöldann allan af tilvísunum í verk annarra höfunda. Inn í frásögnina fléttar Sverrir vangaveltum varðandi yfirvofandi hnignun mannkynsins vegna loftslagsbreytinga, áhrif loftslagsbreytinga á sköpunargáfuna, áhrif tækninnar á menningu og tungumál og hvað við getum gert til að sporna við þessu öllu saman.

Bókin er áhugaverð og ögrandi og hélt athygli minni allan tímann og þess vegna get ég fyllilega mælt með henni. Sverrir skrifar líka mjög fallegan texta og hefur lagt metnað og vinnu í bókina. Mér fannst þó bókin líða aðeins fyrir lengd sína og búning; á köflum kallaði fræðimaðurinn í mér eftir betri rökstuðningi á sumum af hugmyndunum sem þar birtast, og stundum fannst mér afstaða höfundarins full einhliða.

Óhemjurnar

Það sem fékk mig til að draga fram símann var kaflinn um óhemjurnar, en þar vitnar Sverrir í Jón lærða og náttúrur náttúrunnar, þar sem höfundur ber saman fjöruferð drengs sem var uppi á 16. öld annars vegar og drengs sem er uppi á 21. öld hins vegar. Fortíðin er þar sveipuð ákveðnum dýrðarljóma, þar sem fortíðardrengurinn er “barn útiverunnar” og nútímadrengurinn er “barn inniverunnar” og nútímadrengurinn lifir við rofin tengsl sem Sverrir kallar verugleymsku.

Þetta er ótrúlega áhugaverð pæling hjá þeim Sverri og Viðari Hreinssyni, höfundi Jóns lærða og náttúra náttúrunnar, en skautar að mínu mati nokkuð framhjá því hversu miklar framfarir hafa líka orðið á lifnaðarháttum okkar. Á upptökunni velti ég upp pælingum um allt það sem fortíðardrengurinn hefði þurft að lifa af bara til að komast í fjöruferðina sína, en náttúran var honum talsvert hættulegri en náttúran er nútímadrengnum. Það sama gerðist síðan í kaflanum um tæknina, en þar fannst mér fókusinn allur á öllu því slæma sem tæknin hefur gert okkur, án þess að fjallað væri nægilega mikið um það hvernig tæknin hefur líka fært okkur nær hvort öðru og smækkað heiminn.

Horfst í augu við vandann

Mótrökin eru hins vegar þau að þegar öllu er á botninn hvolft skipta þessir hlutir ekki svo miklu máli, því markmiðið með bókinni er ekki að lofsyngja þær framfarir sem mannkyninu hafa hlotnast, heldur beina athyglinni að því sem þær hafa kostað. Það væri því fráleitt að hafna þeim hugmyndum sem fram koma í bókinni á grundvelli þess að það vanti meiri jákvæðni og eftir að hafa velt þessu öllu fyrir mér komst ég að þeirri niðurstöðu að við Sverrir værum líklega meira sammála en mér hafði fundist við vera fyrst þegar ég byrjaði að lesa bókina.

Af viðfangsefnum bókarinnar að dæma má draga þá ályktun að bókin sé þung í vöfum, og það er alveg satt. Það er eiginlega ógerlegt að lesa um allt það sem við erum að gera jörðinni okkar án þess að fyllast vonleysi. Þegar ég byrjaði að lesa bókina fannst mér Sverrir ekki gera voninni nægilega hátt undir höfði, en þegar ég var búin að lesa bókina var ég eiginlega sammála honum með það að von og vonleysi, bjartsýni og svartsýni, eru ekki ósamrýmanleg fyrirbæri. Því hvernig ætlum við annars að laga vandamálið, ef við viljum helst ekki horfast í augu við að við höfum valdið því?

 

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...