Blaðamaðurinn Barbara Demick er gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í ár. Til margra ára flutti hún fréttir frá Kína fyrir blaðið Los Angeles Times. Hún hefur áður vakið athygli fyrir bók sína um Norður-Kóreu, Engann þarf að öfunda – Daglegt líf í Norður -Kóreusem kom út á íslensku árið 2013.

Spurningin

Demick heldur sig við sögur frá löndum í Asíu í nýrri bók sinni, sem kom út í íslenskri þýðingu Ugga Jónssonar í sumar. Bókin er hluti af áskriftarseríu Angústúru. Að borða Búdda – líf og dauði í tíbeskum bæ segir sögu borgarinnar Ngaba á hásléttu Tíbet allt frá lokum keisaraveldisins í Tíbet til nútímans. Demick leggur upp með spurningu í upphafi bókar: Hvers vegna eru hlutfallslega fleiri munkar sem stunda sjálfsíkveikjur í Ngaba en annars staðar í Tíbet? Heimildir Demick eru sögur viðmælenda hennar, sem hún hefur leitað uppi bæði í Ngaba og í Dharamsala í Indlandi.

Sýn blaðamannsins

Sem vesturlandabúi hefur maður rósrauða sýn á Tíbet. Þar búa friðsamir munkar í fallegum rauðum klæðum, ævinlega friðsamir. Það er þess vegna eitthvað svo undarlegt, við fyrstu sýn, að munkar stundi sjálfsíkveikjur. Og ástæðan er virkilega flókin og liggur djúpt, eins og Demick leiðir lesandann í sannleikann um.

Demick nálgast viðfangsefni sitt af virðingu og hlutleysi, sem ég held að aðeins blaðamaður geti gert. Hún setur sögur viðmælenda sinna í tímaröð og þannig leiðir hún lesandann í gegnum sögu Tíbets frá þeim árum sem Rauði herinn hóf inngöngu sína inn í landið, til dagsins í dag. Minni viðmælendanna liggur allt aftur til miðrar tuttugustu aldar. Stíll Demick er mjög hreinn og beinn, það er hvergi bætt í söguna og hvergi er tilfinningum gefinn laus taumurinn. Lesandinn fær það á tilfinninguna að Demick vilji koma upplýsingum til skila, en þó á aðgengilegan hátt í línulegri frásögn. Hún fléttar saman frásögnum mismunandi viðmælenda til að skapa heildræna og línulega sýn á söguna. Þannig fær maður að fylgjast með nokkrum sögupersónum og ævi þeirra í gegnum söguna.

Erfið en fræðandi

Ég get ekki sagt að ég hafi haft gaman af því að lesa bókina. Ekki í þeim skilningi þess orðs. En ég var límd við hana. Það opnast heill heimur fyrir lesandanum, sem er annars fjarlægur. Pólitík heils heims, menning, frásagnir. Það er ekki hægt að hætta að lesa. Að sama skapi fylltist ég óþoli yfir yfirgangssömum stjórnmálastefnum og sorg yfir því sem hefur glatast og verður ekki endurheimt aftur.

Að borða Búdda er aðgengileg fræðileg bók um sögu Tíbets frá inngöngu Rauða hersins inn í Tíbet í kringum miðja tuttugustu öldina. Bókin upplýsir lesandann um baráttu Tíbeta fyrir sjálfstæði frá Kína, eða fyrir sjálfstjórn eins og er raunin í dag. Það er auðveldara að skilja af hverju munkar í Ngaba stunda sjálfsíkveikjur eftir lesturinn og því er takmarki Demick náð.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...