Bókabeitan hefur nú gefið út þrjár léttlestrarbækur í ritröðinni, Bekkurinn minn, en nýjasta viðbótin Lús! kom út í júní síðastliðnum. Hún er eins og fyrri bækur, skrifuð af Yrsu Þöll Gylfadóttur og myndskreytt af Iðunni Örnu. Áður útgefnar bækur í ritröðinni eru Prumpusamloka og Geggjað ósanngjarnt sem Katrín Lilja skrifaði umfjöllun um hér á vefnum.

Það viðurkennist hér með að þessar bækur Bókabeitunnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og yngri dætrunum tveim sem eru 9 og 7 ára. Þær eru í uppáhaldi því þær tengja við raunveruleika barnanna sem og okkar fullorðna fólksins. Það er góður eiginleiki bóka sem börn og foreldrar lesa oft saman eins og raunin er með léttlestrarbækur. Sú nýjasta í röðinni gerir það alveg sérstaklega, allavega í okkar tilviki, en bókin fjallar um hana Sigríði sem lendir í þeirri lífsreynslu að fá lús með tilheyrandi kembingum og öðru brasi í baráttunni við lýsnar.

Angist og lúsakamburinn góði

Sagan hefst á því að móðir Sigríðar fær tölvupóst frá skólanum um að lús sé komin upp í bekk Sigríðar og fer þá af stað sú atburðarrás sem fylgir þegar slíkur tölvupóstur berst. Lúsakamburinn er dreginn fram og hárið er kembt. Lýs finnast og angistinni sem slíku fylgir er skilað vel til lesandans. Við mæðgur lifðum okkur mögulega, aðeins of mikið, inn í söguna en sama dag og við mæðgur lásum bókina þá fékk undirrituð tölvupóst frá skóla dætranna um að lúsin væri mætt. Talandi um að tengja við raunveruleikann, bókin var lesin upphátt af öðru barninu á meðan ég, móðirin, kembdi hinu barninu með lúsakambnum góða. Við höfum reynslu af að kemba og að finna lýs í hári svo við tengdum vel við raunir Sigríðar og fjölskyldu. Uppáhaldið okkar í sögunni er sagan inní sögunni um landnemana og skrælingjana, skemmtilegur vinkill á söguþræðinum sem vakti upp vangaveltur sem umræður spunnust út frá hjá okkur, líkt og hjá Sigríði, um lýs og tilverurétt þeirra.

Bókabeitan, Yrsa og Iðunn senda frá sér aftur og aftur stórkostlega skemmtilegar léttlestrarbækur sem bæði börn og foreldrar hafa gaman af. Svona eiga léttlestrarbækur að vera. Við mæðgur mælum svo sannarlega með þessum bókaflokki.

 

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...