Minnisleysi og sértrúarsöfnuðir

Höggið eftir Unni Lilju Aradóttur bar sigur úr býtum í glæpasagnakeppninni Svartfuglinn. Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld. Sem forfallinn glæpasagnaaðdáandi fagna ég þessum verðlaunum enda alltaf gaman að fá nýjar raddir í glæpasagnaflóru landsins. Á síðasta ári sigraði Katrín Júlíusdóttir keppnina með Sykri sem ég hafði mjög gaman af og þar á undan hefur meðal annars Eva Björg Ægisdóttir unnið keppnina fyrir Marrið í stiganum. Þetta virðist vera góður stökkpallur fyrir höfunda en Eva Björg hefur gefið út tvær glæpasögur til viðbótar frá því að frumraun hennar kom út og sú fjórða er væntanleg.

Fjölskyldukona í sértrúarsöfnuði

Höggið er að mörgu leyti ólík Sykri og Marrinu í stiganum sem eru báðar með mjög hefðbundna uppbyggingu morðsögu. Að þessu sinni vaknar Elínborg, fjölskyldukona á fertugsaldri, á spítala með höfuðáverka sem hafa leitt til algjörs minnisleysis. Hún þekkir hvorki umhverfi sitt né sig sjálfa og þarf að reiða sig á útgáfu Einars mannsins síns á lífi þeirra. Fljótlega kemur í ljós að Elínborg hefur einangrað sig á undanförnum mánuðum frá fjölskyldu sinni, vinum og kollegum. Hún hefur verið ötull meðlimur í sértrúarsöfnuðinum Börn Ljóssins og breytt mörgu í sínu lífi í takt við það. Þegar hún vaknar kannast hún ekki við þessa útgáfu af sjálfri sér en vill komast til botns í því hvers vegna hún breyttist svona og hvaða skelfilegu atburðir leiddu til þess að hún vaknar minnislaus einn daginn.

Frumleg efnistök

Mér finnst uppbygging sögunnar og efnistökin frumleg fyrir íslenska glæpasögu, ég man ekki eftir mörgum bókum hér á landi sem byggja á minnisleysi aðalpersónunnar.  Þetta er mjög sniðugt frásagnarform því hvorki sögumanni né persónunum í kringum hann er fullkomlega treystandi. Einnig er merkilegt hversu vel næst að sýna sjónarhorn bæði Einars og Elínborgar í bókinni. Bókin hefst á því að Elínborg er að biðja Einar um að segja sér frá lífi þeirra og hvort þau hafi verið hamingjusöm. Svo er horfið aftur til fortíðar og sagt frá rómantískum fyrstu kynnum Einars og Elínborgar. Bókin nær lesandanum fljótt enda spennandi að vita hvað átti sér stað, sú spenna helst fram eftir bókinni og koma efnistökin í endanum sterk inn.

Hvernig sannfærist venjuleg kona?

Án þess að gefa upp of mikið um söguþráðinn þá er mín helsta gagnrýni á söguna að þar sem hún gerist á Íslandi, þar sem sértrúarsöfnuðir eru ekki fjölmennir og virðist að Elínborg sé heilsteypt manneskja úr „venjulegu umhverfi“, fannst mér skorta dýpt í hvers vegna hún sannfærist svona hratt af boðskapi sértrúarsafnaðarins og er fljót að gefa sig algjörlega á band leiðtogans. Það tekst ekki að útskýra nógu vel hvernig „venjuleg íslensk kona“ geti farið á bólakaf í slíkan sértrúarsöfnuð.

Engu að síður er hér um að ræða ágætis frumrun í glæpasagnaskrifum, bókin er mjög læsileg með liprum stíl og fagna ég því að við séum að fá nýja rödd inn í bókaheiminn.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...