Loksins, loksins. Eftir langa bið og menningarþurrk komst ég loksins á leiksýninguna Níu líf eftir samkomutakmarkanir. Miðinn var keyptur í janúar 2020. Ég var orðin stressuð hvort biðin þessi tæpu tvö ár eftir sýningunni myndi gera það að verkum að ég myndi hafa of miklar væntingar til upplifuninnar. En ég varð ekki svikin. Kvöldið var þrungið hrárri stemmingu sem var blandað slori, rafmagnaðri orku, taktföstum fótahreyfingum og tárvotri grímu.

 

Níu líf er sýnt í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar, en hann er einnig höfundur að verkinu. Verkið er söngleikur og byggist á ævi og lagaskrifum tónlistarmannsins Bubba Morthens. Lög Bubba óma í gegnum verkið og veita verkinu þessa sterku og vel þekktu sögurödd. Allir Íslendingar ættu að þekkja lögin hans Bubba, þekkja manninn jafnvel, allavega eins og hann birtist okkur út á við. 

Eins og segir í lýsingu um verkið að þá er Bubbi samofinn íslensku samfélagi en sýningin veitir líka smá innsýn inn í tímabil Íslandssögunnar. Þekktar íslenskar persónur skjóta upp höfðinu hér á þar, inn á milli, og gefa áhorfendum hugmynd um tímabil og stöðu Bubba, en á sama tíma eru þær notaðar til að létta undir verkinu. Þær koma með grínþætti inn í heildarsöguna. Undirliggjandi húmor er í gegnum allt verkið en það er einnig átakanlegt og sorglegt. Þetta er með öðrum orðum mjög góð heildarmynd af mannlegri tilvist. Með öllum sínum litbrigðum. 

 

Allir okkar Bubbar

Bubbi er hér klofinn í níu hluta en það er níu ólíkir leikarar sem tjá og móta sinn einstaka Bubba. Hver fær sitt tímabil. Sitt lífsviðhorf. En það er svo innilega falleg túlkun, því hún gefur til kynna þennan merkilega hluta af lífi. Hvernig við erum öll margar persónur, jafnvel nokkrar stereótýpur. Síbreytileg eftir tímabilum, aðstæðum og umhverfi. Við getum kannski ekki öll státað af því að eiga svona margar persónur eins og Bubbi, en ég held að flestir geti tengt við þetta. Við erum marglaga, flæðandi. 

 

Hver og einn Bubbi hefur sína orku, sinn sjarma. Ég verð að hrósa leikstjóra fyrir að taka þá listrænu ákvörðun að vera ekkert að líkja sérstaklega eftir Bubba í útliti, engar skallahúfur eða farðanir. Hver og einn Bubbi er sinn eigin Bubbi, samblanda af Bubba sjálfum og leikaranum sem túlkar hann. Og það er dásamlegt hvernig Bubbarnir vinna og eiga saman. Hér tala Bubbarnir níu við hvorn annan, enda samofnir tilveru hvors annars svo það liggur auðvitað beinast við að þeir séu í samtali allan tímann. Bubbarnir hugga hvorn annan, skamma hvorn annan, þagga niður í hvor öðrum og jafnvel stíga á hvorn annan. Það er gríðarlega sterk mynd sem er dregin upp þarna af einstaklingi, af lífshlaupi. Einstaklingurinn bælir niður parta af sjálfum sér og hughreystir sitt fyrra sjálf. Litli Bubbi er stóru Bubbarnir og öfugt. Sumir Bubbarnir eru frekari en aðrir, ryðjast fram, ryðja sér rúms. Aðrir eiga sér mýkri hliðar, vilja aðstoða og styðja. 

 

Egó á toppnum

Þarna trónir samt Egó Bubbi á toppnum og er augljóslega leiðtogi hópsins. Það er Halldóra Geirharðsdóttir leikkona sem túlkar Egó Bubba og gerir það listilega vel. Hún er segulmögnuð. Hún krefst svo mikillar athygli og það er svo mikil orka í henni að hún er eins og sprengjustjarna. Og það er erfitt að komast hjá því að það rofi til í hjartanu þegar hún sjálf brotnar niður sem Bubbi á vonarvöl, kominn á botninn. Þjakaður af sorg. Gríma áhorfenda orðin ögn vot af tárum. Ég verð einnig að hrósa sérstaklega Birni Stefánssyni fyrir sína túlkun á Utangarðs Bubba. Hann er auðvitað fullkominn í þetta hlutverk því hans eigin persóna rímar vel við – og það er alltaf örlítið skemmtilegra að vera smá pönk. 

 

Allir Bubbarnir stóðu sig þó með prýði. Það var virkilega gaman að sjá ólíka leikara í hlutverkunum og einnig að sjá Bubba túlkaðan af bæði konum og körlum. Mér varð líka hugsað til orða Brynhildar leikhússtjóra í Klassíkinni á Rúv, hvernig Ísland væri í svolítilli sérstöðu þegar kemur að söngleikjum. Hversu sérstakt það er að það séu leikaramenntaðir leikarar sem taki aðalsviðið í söngleikjum sem þessum. Ekki tónlistarmenntaðir. Og hvernig það ljáði hinu íslenska söngleikhúsinu alveg einstakan blæ. Söngurinn hrár en túlkunin og leikurinn firnasterkur. Ekki samt misskilja, allir með gríðarlega sterka rödd og útgeislun í söng.

 

Hráleiki og alltumlykjandi leikhús

Það er líka þetta með hráleikann. Hann rímar vel við Bubba sjálfan. Og leikmyndin endurspeglar nákvæmlega það. Leikmyndin er stór í sniðum en samt hrá og ekki ýkja íburðarmikil. En það virkar. Það fyrsta sem ég hugsaði var alltumlykjandi leikhús. Leikmyndin í höndum Ilmar Stefánsdóttur er einföld en síbreytileg. Ilmur nýtir myndbandstækni til að varpa myndum upp á tjaldið og það vakti athygli mína hversu langt myndvörpunin náði, í kringum áhorfendaskarann. Leikararnir halda síðan áfram með þetta alltumlykjandi leikhús. Það gera þeir ýmist með því að hlaupa út um inngang áhorfendanna, stökkva í áhorfendaskarann eða sveifla sér í loftinu. Þetta er með öðrum orðum nokkuð mikið pönk. Ef ég ætti að finna einhvern galla á að þá varð ég stundum smá leið að fá ekki að standa upp og haga mér eins og á almennilegum tónleikum, dansa og hrista hárið. 

 

En að syngja fékk ég. Og það gerði upplifunina alveg extra. Enda varla hægt að sitja þögul á meðan Stál og hnífur eða Ísbjarnarblús er spilað. Ég er vissulega aðdáandi lagasmíða Bubba svo það hefur mögulega áhrif á upplifunina en ég held að jafnvel þó þú fílir ekki Bubba að þá er þetta sammannleg saga – þetta er saga um að lifa sjálfan sig af. Eins og Bubbi númer níu segir í verkinu sjálfu. Þetta er auðvitað algjör óður til Bubba, með öllum löstum. En ef áhorfandi er tilbúinn til að fagna því og syngja með, er upplifunin tryggð. 

 

Svo yfir allt þá er sýningin skemmtileg og hressandi. En hún stendur algjörlega á sterkum fótum leikhópsins. Það er í raun kraftmikill leikurinn sem að keyrir sýninguna áfram. Handritið er ekki jafn sterkt, ég var til dæmis ekki að tengja við ástarsögurnar þrjár, og kannski einmitt vegna þessa – að þær eru þrjár. Túlkunin á ní-skiptu lífi Bubba er líka mikilvægur og skemmtilegur þráður – að láta Bubbana vera í þessu samtali sem ég nefndi áður. 

 

Já, loksins, loksins. Og hvílík veisla, hvílíkt partý, hvílík orka. 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...