Sigrún Elíasdóttir lýkur þríleiknum sínum um ferð Alex og Húgó á heimsenda með bókinni Illfyglið. Fyrsta bókin í þríleiknum, Ferðin á heimsenda – Leitin að vorinuvar gefin út haustið 2019 og önnur bókin, Ferðin á heimsenda – Týnda barnið, kom út haustið 2020. Sigmundur B. Þorgeirsson sér um myndlýsingar í bókunum þremur.

Þríleikurinn segir frá æsilegu ferðalagi Alex og Húgó frá Norðurheimi um heimana fjóra – Norðurheim, Vesturheim, Austurheim og Suðurheim. Tilgangur ferðarinnar er að koma á jafnvægi í heiminum öllum. Til dæmis virðist vorið ekki ætla að láta sjá sig í Norðurheimi og er það kveikjan að öllu ferðalaginu.

Hraður söguþráður, mörg skrímsli

Það sem einkennir bækurnar þrjár er gríðarlega hraður söguþráður. Sigrún skrifar beint til barna sem vilja hafa spennu og hasar í hverjum kafla. Þá lifnar við nýtt og magnað skrímsli í hverjum kafla líka og það er skemmtilegt að sjá skrímslið stökkva upp af blaðsíðunni með myndlýsingum Sigmundar. Sigrún er með magnað ímyndunarafl þegar kemur að nýjum skrímslum. Húgó og Alex láta sér þó fátt um finnast og halda sínu striki, sama hvað bjátar á. Þau eru líka með örlög heimsins á herðunum og þurfa að ljúka sinni ferð.

Sigrún endar bókina á ansi góðri fléttu sem ætti að koma lesandanum í opna skjöldu. Bókin endar alls ekki eins og maður hefði búist við og kom mér skemmtilega á óvart.

Þrjár bækur, þrjú ár?

Þar sem hér var um að ræða þriðju bókina á jafn mörgum árum var aðeins farið að fenna yfir spor fyrri bóka. Í Illfyglinu er nokkuð mikið um vísanir í fyrri bækur, en lítið rifjað upp með lesandanum. Fyrir vikið var stundum erfitt að fylgjast með. Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri tilefni til að gefa bækur sem þessar út á einu ári, fremur en að draga það yfir þrjú ár. Biðin eftir næstu bók getur verið löng fyrir börn á aldrinum 9-12 ára.

Þríleikurinn um ferðina á heimsenda er hröð og æsispennandi furðusaga fyrir börn, sem vel er hægt að mæla með. Ævintýraþyrstir lesendur ættu ekki að láta þríleikin fram hjá sér fara.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...