Gerður Kristný heldur áfram með söguna af Iðunni og afa pönk í ár. Sagan af þeim afafeðginum hófst í fyrra með bókinni Iðunn og afi pönk. Nú heldur sagan áfram þar sem frá var horfið í Meira pönk, meiri hamingja.

Brigsl á tónleikum

Komið er fram í lok júlí og útihátíðir eru á döfunni. Að sjálfsögði langar hina líflegu Iðunni að fara á útihátíð. Útihátíðin í Krækiberjadrekahalagili er sú allra flottasta! Þar er meira að segja hljómsveitakeppni sem Iðunni finnst nauðsynlegt að pönksveitin Brigsl taki þátt í.

Foreldrar Iðunnar eru henni þó ekki sammála um mikilvægi útihátíða og afi pönk er eitthvað tregur til að fara með henni líka. Iðunn þarf að búa til sína eigin útihátíð í garðinum. Sú hátíð endar með ósköpum, eins og oft vill verða með úthátíðir. María Sara, besta vinkona Iðunnar, sprangar inn um stofuglugga og sófi nágrannanna brennur. Afi Iðunnar er svo afskaplega dularfullur um sína reynslu af útihátíðum.

Bannaður á útihátíð

Níu ára álitsgjafi Lestrarklefans las Iðunn og afi pönk skömmu áður Meira pönk, meiri hamingja kom út. Hann var mjög hrifinn af Iðunni og uppátækjum hennar. Það var því mikil gleði þegar seinni bókin kom út. Hann kvartaði þó undan því að aðeins of mikið væri rætt um pönk í bókinni en hann skyldi þó að okkur vantar klárlega meira pönk í líf okkar. Í pönkinu býr hamingjan víst. Annars fékk Meira pönk, meiri hamingja toppeinkunn hjá hinum unga lesanda. Hann sagði hana vera “fína og ágæta” en skemmtilegast var að sjálfsögðu þegar Iðunn og María Sara fengu að fara á útihátíðina í Krækiberjadrekahalagili. Álitsgjafinn sagði svo rúsínuna í pylsuendanum hafa verið ástæðuna fyrir áragömlu banni afans á téða útihátíð. Ástæðan er mjög fyndin og frá henni var sagt hlæjandi.

Halldór Baldursson myndlýsir bókina, staðreynd sem ekki fór framhjá álitsgjafa Lestrarklefans sem flettir reglulega í gegnum aðrar bækur sem hann hefur myndlýst. Hann lýsir yfir velþóknun með starf Halldórs og vill helst lesa fleiri bækur sem eru myndlýstar af honum. Honum fannst teikningar Halldórs flottar og stundum fyndnar. Sjálfri fannst mér teikningar hans kímnar og skemmtilegar og náðu að fanga hvatvísi Iðunnar og uppátæki hennar og Maríu Söru á skemmtilegan hátt.

Gefið okkur meira pönk!

Gerður Kristný skrifar þessa sögu af lipurð og léttleika með dassi af húmor. Það er nokkuð um það að hún snúi við kynjahlutverkum í bókinni. Til dæmis kemur slökkviliðskona fyrst á vettvang þegar kveikt er í sófanum. Svo var skemmtilegt að sjá að trommari í pönksveit notar hjólastól. Það er gaman að sjá vídd í persónugalleríi í barnabók sem þessari.

Meira pönk, meiri hamingja er fjörleg hversdagssaga um hina hvatvísu og glaðværu Iðunni. Bókin hentar vel fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Boðskapur bókarinnar er einfaldur: Okkur vantar meira pönk í líf okkar. Hér er því myndband með Purrki Pillnikk sem kemur við sögu í bókinni.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...