Fyrsta senan í bókinni Útlagarnir Scarlett og Browne er Scarlett að vakna eftir erfiða nótt. Í kringum hana liggja fjögur lík. Scarlett er með harðsperrur eftir morð næturinnar. Þetta eru fyrstu kynni lesandans af Scarlett; hörkutóli, útlaga, bankaræningja og miskunnarlausum morðingja. Eða kannski ekki beint morðingja, því eins og hún segir í þessari fyrstu senu, þá var þetta allt saman í sjálfsvörn. Scarlett eru ung með dularfulla fortíð. Hún hefur lífsviðurværi af því að flakka um óbyggðir dystópísks framtíðar Englands, þar sem hamfaraflóð hefur tortímt London og náttúran  stökkbreyst. Hún rænir og ruplar samviskulaust. Hún er hinn harði glæpamaður sem svífst einskis, en gengur samt með pyngju um hálsinn sem hún stingur mynt í ef hún blótar. Hún á sér nefnilega mýkri hlið.

Á flótta um óbyggðir Englands (sem reyndar skiptist í sjö ríki í þessu undarlega framtíðarlandi) eftir enn eitt vellukkað bankarán gengur hún fram á rútuflak. Í rútunni finnur hún hinn unga Albert Browne, dularfullan ungling með dökkan hárlubba, í of stórum fötum og með sakleysi sem ekki er hægt að útskýra. Albert er dularfullur svo ekki sé meira sagt. Saman lenda hann og Scarlett í æsilegum ævintýrum þar sem þau berjast gegn varðmönnum, útlögum, náberum og öðrum hryllilegum skrímslum sem ganga laus um óbyggðirnar.

Flóttasaga

Jonathan Stroud sló í gegn erlendis með seríunni sinni um Lockwood & co og Bartimeusar þríleiknum. Hingað til hefur aðeins þríleikurinn og saga Scarlett og Browne verið þýdd yfir á íslensku. Sólveig Sif Hreiðarsdóttir þýddi Scarlett og Browne og tekst með mikilli prýði að koma þessu brotna Englandi til skila til íslenskra lesenda.

Scarlett og Browne er flóttasaga. Bæði eru þau á flótta undan einhverju og í gegnum alla söguna þurfa þau að flýta sér á milli staða og sigrast á ótrúlegustu aðstæðum, stöðugt í lífshættu. Fyrir vikið er stöðug hreyfing í bókinni, hún er spennandi og drífandi. Stroud gefur lesandanum þó af og til pásu til að ná áttum, anda og púsla saman þeim upplýsingum sem eru komnar fram um líf Scarlett og Browne. Þau eru nefnilega mjög margslungnar persónur. Samskipti þeirra á milli eru svo oft á tímum mjög kómísk og skemmtileg, svo á milli lýsinga á ofbeldi og byssubardögum má oft hlæja örlítið.

Eins og allt yfirbragð bókarinnar gefur til kynna er villta-vestrinu blandað inn í söguþráðinn. Scarlett er útlagi eins og útlagarnir í villta-vestrinu, hún beitir byssu eins og fimur byssubrandur, slæst eins og óþokki á skítugri krá og rænir banka eins og Billy the Kid. Í mínum huga gengur hún í leðurbuxum með kúrekahatt, en ég held að svoleiðis hattur sé hvergi nefndur í bókinni. Ekki heldur leðurbuxur ef út í það er farið. Mér fannst skjóta skökku við í byrjun bókarinnar að hafa þessar vísanir í villta-vestrið, en síðan vandist það, enda mætti segja að einu vísanirnar séu bankaránin og sú staðreynd að Scarlett er útlagi.

Von á fleiri bókum

Nokkur þemu í bókinni minntu  mig óþyrmilega á bók Philip Pullman um Villimærina fögruTil dæmis kemur barn við sögu fyrir miðja bók, þau ferðast eftir á og það hefur orðið hamfaraflóð. Trúarhúsið hefur mikil ítök, rétt eins og kirkjan í bókum Pullman. Illmennið í sögunni er kona sem hefur undarleg tök á einni aðalsögupersónunni. Stroud tekur þó þessi þemu og setur sinn vinkil á þau.

Útlagarnir Scarlett og Browne er bók sem tekur lesandann með á villtan flótta inní framandi og brotið England, þar sem skrímsli og forynjur eru á hverju strái og jafnvel þar sem maður á síst von á þeim. Endir bókarinnar gaf sterklega til kynna að hér sé á ferð upphaf að nýrri seríu bóka.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...