„Náttúran er eins og hvert annað stórfyrirtæki.“

Bókum Friðgeirs Einarssonar hefur alltaf tekist að skemmta mér konunglega, þá sérstaklega fyrsta skáldsaga hans Formaður húsfélagsins en þessi tvö smásagnasöfn sem hann hefur einnig gefið út eru virkilega fín.

Fyrir þessi jól kemur út hans önnur skáldsaga, Stórfiskar. Friðgeir er líklega best þekktur fyrir störf sín á fjölum leikhússins en leikritið Club Romantica hefur verið sýnt ótal sinnum í Borgarleikhúsinu.

Stórfiskur fjallar um mann sem hefur flust með fjölskyldu sinni til Þýskalands en heldur aftur til Íslands þegar hann fær athyglisvert verkefni upp í hendurnar. Hann þarf að hanna nýtt lógó, eða vörumerki, óvinsæls hvalveiðifyrirtækis. Einnig er einhver óljós verkur sem hrjáir hann og veldur sársauka í báðum höndum. Hann ætlar sér einnig að nýta ferðina til Íslands til að fara til læknis og láta athuga þennan furðuverk.

Hin siðlausa starfsemi

„Um stund dvelst ég í leiðslu hugsunarleysis en er vakinn af sterku ljósi við sjóndeildarhringinn, sem eftir því sem nær dregur þéttist í vært og hvítglitrandi haf. Maður kemst ekki hjá því að píra augun og meðan á sýninni stendur gleymist að undir öllu þessu glysi er köld og dimm veröld, mettuð af grimmd, dauða, sársauka og rotnun. 

Svona lætur náttúran eins og hvert annað stórfyrirtæki, leikur á skynfærin, bregður upp dýrlegum myndum til að bæta ímynd sína og draga um leið dul á sitt sanna innræti, sína siðlausu starfsemi.“

Stóru umfjöllunarefni bókarinnar eru hvaðveiðar og siðferðið tengt þeim. Frans veltir fyrir sér af hverju þessi starfsemi á sér enn stað, hvaðan eftirspurnin komi, hvernig þetta fyrirtæki sem hann á að búa til merki fyrir virkar eiginlega? Frans er djúphugull, veltir hlutum fyrir sér út í óendanleikann og er uppfullur af spurningum um hversdagslegt umhverfi sitt. Hann er skondin persóna og kankvís, það er auðvelt að finna til samlíðunar með greyið manninum. Það er ákveðið tengingarleysi á milli hans og fjölskyldunnar, konunnar hans Raphaelu og dóttur hans, Mónu. Þær lifa sínum lífum sem eru algjörlega á skjön við hans eigin og hvergi í bókinni nær hann almennilegu sambandi við þær. Það er stafað út bókstaflega með því að hann gleymir að hringja í konu sína í tíma og ótíma og þegar hann man þá svarar hún ekki símanum.

Framandgerving hversdagsins

Friðgeir vinnur mikið með smáatriði, alla þessa litlu ómerkilegu hluti í lífi okkar sem við horfum framhjá á hverjum degi en hugsum þó um. Eins og skjáhvíluna á sjónvarpinu og tónlistina sem er spiluð þegar við hringjum í heilsugæsluna. Líf Frans fyllist af óþolandi bjúrókrasíu á tímabili þar sem ritarar senda hann áfram hingað og þangað áður en hann fær að fara til læknis á Íslandi. Háðið liggur undir öllum textanum og þetta er mjög fínlega gert. Friðgeir er mjög naskur á að draga fram þessa litlu hluti hversdagsins og framandgera þá.

Friðgeir er frábær penni, textinn hans flæðir virkilega vel og lýsingarnar eru alltaf raunsannar og ljóslifandi. Söguþráður bókarinnar er hins vegar ekki upp á marga fiska, ef ég má komast þannig að orði. Ég verð því að viðurkenna að ég hefði viljað aðeins meiri þráð, einhverja sterkari spennu í bókina. Þetta er þó það sem Friðgeir hefur verið að vinna með í fyrri bókum, að varpa upp skondnum hversdeginum, kafa ofan í smáatriði mannlegrar tilveru með öllu því sem gerir hana skemmtilega og leiðigjarna líka. Honum hefur þó tekist betur til í fyrri bókum.

Stórfiskur er íhugul og launfyndin skáldsaga. Friðgeir er virkilega fær höfundur og ég hlakka til að lesa hans næstu bók.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...