Tilfinningar eru fyrir aumingja er nýjasta skáldsaga Kamillu Einarsdóttur sem vakti mikla athygli fyrir frumraun sína Kópavogskróniku árið 2018. Sú fyrrnefnda var á dögunum tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Metalband til að sporna við leiðindum

Bókin sem er stutt og mætti líklega flokka sem nóvellu segir frá vinahóp á síðari hluta fertugsaldursins sem ákveður að stofna metalband því þeim er farið að leiðast endalaust tal um dren. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Höllu sem er einhleyp og ekki mikið í skólplögnunum. Hópurinn samanstendur af gömlum vinum úr „öldungadeild“ í FÁ sem fóru í mjög ólíkar áttir eftir stúdentinn en eru í kjarnann afar sterkur og samheldinn hópur. Þeim gengur hálf brösuglega í metalinum, enda fæstir sem kunna neitt á hljóðfæri. Á sama tíma gengur ýmsilegt á í einkalífi þeirra, en lesandinn fær mest innsýn í leit Höllu að ástinni sem gengur ekki eins vel og ætla mætti.

Að fremja landráð fyrir ástina

Ég hafði ekki lesið Kópavogskrónikuna en hafði séð frábæra uppfærslu á verkinu í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í vor og skildist á viðstöddum að mikið væri stuðst við upprunalega textann. Textinn í leikritinu var ferskur og sprenghlægilegur á köflum þó að undirtónninn væri alvarlegur. Svipaðri nálgun er beitt í Tilfinningar eru fyrir aumingja, ég hef sjaldan hlegið jafn mikið upphátt við lestur á íslenskri bók og fundist ég knúin til að lesa upp heilu málsgreinarnar til að skemmta manninum mínum. Gott dæmi er þegar Jóhanna, vinkona Höllu, ákveður að sanna ástin í lífi hennar sé lögreglumaður í Reykjavík.

Þannig gerðist það að hún einsetti sér að fremja landráð. Það er sko alveg svakalega mikill glæpur gagnvart lögum…Það er illa heilli reyndar dálítið flókið að fremja landráð…Það var á þessum tíma sem við fórum öll að hanga svakalega mikið á vinnustofunni minni niðrí bæ…Jóhanna varð alveg sjúk í að hanga þarna því hún var alltaf að reyna að kynnast lögmönnum sem gætu gefið henni ráð um hvernig best væri að fremja landráð. (bls. 57-78)

Sögurnar af leit Höllu að ástinni eru ekki síður spauglegar á köflum. Kamillu tekst þannig á beittann en einnig drepfyndinn hátt að lýsa leitinni að ástinni í Reykjavík í dag. Bókin er jafnframt 100% í tíðarandanum (fyrir utan að covid er ekki nefnt) og gæti verið ágætis heimild frá því hvernig Reykjavík var árið 2021: persónurnar hanga á Skuggabaldri, vinnustofu Kjarvals og drekka kombucha.

Falleg vinátta

Tilfinningar eru fyrir aumingja er hressandi saga sem er mjög auðvelt að lesa á einu kvöldi enda spennandi að sjá hvort metalbandinu takist áætlunarverk sitt: að komast í Vikuna hjá Gísla Marteini. Bókin snýst samt ekkert aðallega um það, heldur um vináttuna. Vinir á fertugsaldri eiga oft lengra samband að baki en flestir sambýlingar og mér finnst svo fallegt hvernig Kamilla lýsir þessu. Það ættu flestir að tengja við þörfina að brjóta upp hversdagsleikann hvort sem það er í vinasambandi eða makasambandi og nálgun Kamillu á þetta viðfangsefni er skemmtilega frumleg. Það gerist ekki ákaflega mikið í sögunni, enda held ég að það sé ekki tilgangur hennar. Bókin er stutt en mér finnst þó höfundurinn opna og loka henni þannig að ekki er þörf á fleiri orðum, persónurnar hafa farið sinn hring í kringum sólina.

 

 

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...