Uppáhalds bækurnar okkar árið 2021

Árið 2021 var sérkennilegt ár. Það hófst á mikilli bjartsýni um endurhvarf til tímans fyrir veiruna í kjölfar bólusetninga landsmanna, en svo brást sú trú. Við í áhöfn Lestrarklefans upplifðum þó ýmislegt, bæði af hinu góða og slæma, á árinu og eins og alltaf lásum við bækur. Sum okkar lásu raunar fleiri bækur en vanalega þökk sé sóttkví, smitgát og fleiri COVID áhrifum á líf okkar. Við höfum nú tekið saman lista af uppáhalds bókunum sem við lásum á liðnu ári. Bækurnar komu ekki allar út á árinu en við lásum þær í fyrsta sinn þá. Við þökkum samfylgdina árið 2021 og vonum að listinn nýtist lestrarhestum landsins vel, sérstaklega þeim sem eru nýbúnir að strengja Goodreads lestrarheit fyrir nýja árið!

Uppáhalds bækur Sæunnar

Árið 2021 einkenndist klárlega af meðgöngu minni sem hafði mikil áhrif á lesturinn minn, sjá meira um meðgöngulestur okkar á Lestrarklefanum hér. Ég var ekki með sömu einbeitingu og oft áður í lestri og því standa þær bækur upp úr sem héldu mér við efnið. Af þeim sem ég las nýlega get ég bent á bráðfyndnu bók Kamillu Einarsdóttur Tilfinningar eru fyrir aumingja, og hina stórsniðugu spennusögu Evu Bjargar Ægisdóttur Þú sérð mig ekki. Þetta er fjórða bók Evu Bjargar og mér finnst hún verða betri höfundur með hverri bók. Í þetta sinn kemur ekki fram hver var myrtur fyrr en undir lok bókarinnar sem er virkilega sniðug nálgun á krimma. Hún sameinar fullkomlega Agöthu Christie Who Dunnit í lokuðu herbergi aðferðina við skandinavíska stemningu í myrkri og óveðri. Íslenska sveitarómantíkin heillaði mig einnig mikið í fyrstu skáldsögu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur Kynslóð. Af erlendum bókum ber hæst The Seven Husbands of Evelyn Hugo eftir Taylor Jenkins Reid sem kom út árið 2017 en ég las í haust, þessi bók er um Hollywood gullaldarinnar og erfitt er að leggja hana frá sér. Svört Perla eftir Lizu Marklund var einnig æsispennandi hringferð um hnöttinn.

Uppáhalds bækur Jönu

Lestrarárið 2021 var aðeins öðruvísi en fyrri ár hjá mér. Fyrir það fyrsta setti ég persónulegt met í fjölda lesinna bóka en ég las 91 bók á árinu. Einnig var fjölbreytni bókanna óvenju mikil þetta árið, ég las til dæmis fleiri ljóðabækur en ég hef nokkurn tíman gert áður. En hvað er góð bók, hvernig verður góð bók uppáhalds hjá mér? Kröfurnar eru ekki meiri en það að efni bókarinnar sé áhugavert og að hún haldi mér við efnið, að það verði ekki verkefni að klára hana. Ég las nokkrar slíkar bækur á árinu, íslenskar og erlendar og má þar fyrst nefna bókina Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur. Sagan gerist í ónefndu þorpi í upphafi 20. aldar og er Gratíana, aðalsöguhetjan virkilega áhugaverður karakter, hún er femínísk og kröftug. Ég er ein af þeim sem vonast eftir framhaldi af þessari bók. Af þeim bókum sem ég hef lesið og tilheyra jólabókaflóðinu í ár bera þrjár bækur af, Læknirinn í Englaverksmiðjunni eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur, Sigurverkið eftir Arnald Indriðason og Konan hans Sverris eftir Valgerði Ólafsdóttur. Mér þykir það hreint ótrúlegt að Konan hans Sverris skuli vera fyrsta bók höfundar. Þegar kemur að erlendu bókunum gæti ég talið upp þær sem voru allra uppáhalds en ég ætla frekar að telja upp það sem ég tel vera mitt helsta lestrarafrek í ár. Í ár lét ég loks verða af því að lesa þriggja binda verk Sigridar Undset um hana Kristínu Lafranzdóttur í íslenskri þýðingu Helga Hjörvars og Arnheiðar Sigurðardóttur. Bækurnar, Kransinn, Húsfrúin og Krossinn eru í heild um rétt rúmlega 1200 blaðsíður og þunglesnar. Sagan er áhugaverð og góð en afrekið er það að hafa lesið bindin í einum rykk.

Uppáhalds bækur Victoriu

Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur – Þetta er vandað og mælskt ljóðasafn um mjög innilegt en flókið samband manneskunnar við tungumál sem er hægt og rólega að missa það.

Sár eftir Oksönu Vasyakina – Þetta er rússneska útgáfan af Rear Window nema í bókmenntaformi. Ótrúlega hreinskilin og mjög vel skrifuð. Kröftug krufning höfundar á sjálfri sér og sambandi hennar við móður sína, manni finnst stundum eins og hann sé að kíkja inn um glugga eða kíki. Um erfiðan móðurdauða, um æsku sem ekki er upplýst af ljósi kærleikans, um erfiða leið til að samþykkja sjálfan þig og finna eigið tungumál, hvernig þú munt tala við heiminn, hvernig þú munt geta sagt allt án þess að saka eða móðga neinn.

Rumple Buttercup : A Story of Bananas, Belonging, and Being Yourself eftir Matthew Gray Gubler – Matthew Gray Gubler er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Doctor Spencer Reid í langvarandi þáttaröð Criminal Minds (og ég skal viðurkenna að ég er harður aðdáandi og hann var einn af fyrstu leikaraskotum mínum). En hann er líka málari og frábær sögumaður sem sameinaði hæfileikum sínum í þessari bók sem er 100 prósent handskrifuð og myndskreytt af honum (meira að segja ISBN og barkóði). Sagan verður elskuð af smáum og stórum vegna þess að við öll í heiminum viljum læra hvernig maður verður samþykktur: af sjálfum sér og samfélaginu. Og maður mun örugglega fá að vita ef hann fylgir sætu skrímsli Rumple.

Oksana, behave! eftir Mariu Kuznetsova – Jómfrúarsaga þessa efnilega höfundar gefur áhugaverða innsýn í líf innflytjenda. Það er náið horft á fjölskyldu í gegnum kynslóðir í gegnum augu Oksana, úkraínsks innflytjanda í Flórída. Oksana er heillandi karakter. Hún er mjög gölluð (eins og við erum öll) og gerir fullt af mistökum sem særa fólk virkilega, en hún er fyndin og elskar fjölskylduna sína. Baba og mamman eru líka frábærar persónur með persónuleika stærri en lífið. Þér mun ekki leiðast á þessari ferð sjálfsuppgötvunar, kynslóðaáfalla og ótta við að tilheyra ekki.

Bjarmalönd eftir Val Gunnarsson – Ójafnt en ævintýralegt ferðalag um fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna á 30 árum. Sögulega fróðleg bók, en ekki dæmandi, krydduð húmor og full af áhugaverðri innsýn inn í heim landanna þar sem það bjarmar að degi.

Atemschaukel eftir Hertu Müller – Þetta er skáldsaga -minning tileinkuð örlögum rúmenskra Þjóðverja eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Hún er djúp og sálarrík könnun á lífi þeirra sem eru skilin eftir til að lifa á jaðrinum, um nauðsyn þess að finna sinn stað, tungumál sitt. Ljóðræn og heiðarleg saga af hinum svívirtu.

Stelpur og stofnanir eftir Daryu Serenko – Darya er ein af konunum sem ég dáist að og ber mikla virðingu fyrir: hún er baráttukona fyrir kvenréttindum í Rússlandi sem neitar að láta sig þagga niður jafnvel eftir hótanir um morð. Hún er skáld, rithöfundur, listar- og bókmenntakennari og stofnandi tugi verkefna fyrir konur. Þessi bók minnir mig á Invisible Women eftir Caroline Criado Perez sem Sæunn okkar þýddi nýlega á íslensku. Þetta er frásögn um kerfi menningarstofnana í Rússlandi sem hata konur í raun og veru og virða þær að vettugi og gleyma því að þetta kerfi er í eðli sínu byggt á verkum kvenna sem eru meirihluti starfsmanna menningarstofnana. Þversögn sem er rannsökuð á snjallan og tilfinningarríkan hátt með mögnuðum myndskreytingum eftir Kseniu Charyeva.

Uppáhalds bækur Díönu

Ég hef verið að reyna rifja upp hvað ég las á árinu en man ekki lengra en tvo mánuði aftur í tímann. Ég tók eiginlega meðvitaða ákvörðun um að skrá ekki lesturinn minn niður á Goodreads né neinstaðar annarsstaðar og ég mæli heilshugar með því inn á milli. Ég man ekki hvernig Bergur Ebbi orðaði það í bók sinni Stofuhita, þetta með hvernig við erum hætt að gera hluti nema skrásetja þá. Hvernig ekki er hægt að fara út að ganga eða hlaupa nema hafa snjallúr sem mælir árangur, ekki hægt að lesa nema hafa á því tölu í ákveðnu forriti, eða á samfélagsmiðlum. Þetta er umhugsunarvert, hvaðan kemur þörfin? En ég einmitt hlustaði á Stofuhita á Storytel á árinu í göngutúrum mínum. Og fær hún mín bestu meðmæli. Í henni eru virkilega áhugaverðar pælingar um samtímann settar fram á skemmtilegan og klókan hátt. Ég las minna en ég hef gert venjulega en ég var á árinu á þeim tímamótum að venjast nýju mynstri í mínu lífi. Dóttir mín er núna orðin eins árs gömul, en mestan hluta ársins eyddi ég í fæðingarorlofi. Ég hef því fengið að kynnast nýrri bókmenntagrein á árinu, bókmenntum ungbarna. Og í þeim flokki vil ég helst nefna bækurnar Morgunverkin og Háttatími eftir Lawrence Schimel og Elīna Braslina. Virkilega fallega myndskreyttar bækur, vandaðar og skemmtilega rímaðar. Foreldrar verða ekki þreyttir á lestrinum, þetta er svona í anda Dr. Seuss og ekki verra að þær sýna einnig fjölbreytt fjölskyldumynstur, sem er ekki nógu algengt í barnabókum.

En þegar tækifæri gafst til að lesa fyrir mig sjálfa vildi ég helst bara lesa bækur sem kveiktu áhuga minn strax. Einhverjar bækur fengu að falla í valinn eftir nokkra kafla, en mitt helsta ráð í lestri er að klippa algjörlega á þá meðvirkni að halda að man þurfi að klára einhverja bók, eða þurfi að lesa einhverja bók. Ef hún kveikir ekki í þér, finndu þér aðra. Nóg er til af efni! Ég þurfti að minna mig á þetta tvisvar sinnum á árinu. En nýjasta bók Sofi Oksanen, Hundagerðið, er mér minnistæð en hún var bæði spennandi og ljúfsár. Hundagerðið er ádeila á stéttaskiptingu og fjallar um líf tveggja kvenna sem byrja að braska í sölu á eigin líkama, eða nánar tiltekið í eggjum sínum eða jafnvel legi, fyrir fólk sem býður fúlgur fjár fyrir drauminn um barn. Þær ljóðabækur sem höfðu áhrif á hug og hjarta á árinu eru meðal annars Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur, Álfheimar eftir Brynjar Jóhannesson og Næturborgir eftir Jakub Stachowiak. En langbesta bókin sem ég las á árinu er tvímælalaust Merking eftir Fríðu Ísberg. Verkið er snjallt, ígrundað, áreynslulaust og kjarkmikið. Gríðarlega flott flétta og margar pælingar á bak við samfélagið, tungumálið, samskipti og siðferði. En það eru margar bækur á leslistanum mínum núna og sem mig langar til að lesa, sérstaklega af þeim sem komu út á seinnihluta ársins.

Uppáhalds bækur Katrínar Lilju

Það er ekki auðvelt að að velja nokkrar bækur af þeim yfir 70 sem ég las á árinu (ólíkt Díönu er ég nefnilega með æði fyrir því að skrá allt niður). Fyrir mér þarf bók sem fær þann titil að lenda í uppáhaldssæti að sitja í huga mínum eftir lesturinn. Og þegar ég renndi í gegnum listann yfir lesnar bækur á árinu voru að sjálfsögðu einhverjar bækur sem ég mundi vel eftir að hafa lesið. Má þar nefna unglingabókina Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel. Ég var sérstaklega hrifin af Dæs eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Þegar ég fletti í gegnum hana í vor hló ég að sóttkvíum og örvæntingu fortíðarinnar. Svo erum við komin á þennan stað aftur. Bókin er samt ennþá frábær, hún hristir upp í manni og fær mann til að sjá hið spaugilega við aðstæðurnar. Ég var, líkt og Sæunn, mjög hrifin af Þú sérð mig ekki eftir Evu Björgu. Einnig langar mig að nefna Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason. Þar er á ferðinni virkilega frábær barnabók.  En sú bók sem hefur sótt mest á huga minn er frásögn Höllu Birgisdóttur í bókinni Tók ég eftir því þá eða tók eg eftir því eftir á. Bókin er reynslusaga höfundar af alvarlegu geðrofi. Frásögnin er hrein og bein og stundum óþægileg. Með lestrinum fékk ég ómetanlega innsýn í huga manneskju í geðrofi. Þetta er bók sem hreinlega datt í hendurnar á mér og ég hafði eiginlega ekki hugsað mér að lesa, en strax á fyrstu síðu hafði bókin náð mér og áður en ég vissi af hafði ég klárað hana. Næstu vikur mun svo taka við svolítil lestrarlægð hjá mér og leslistinn lengist. En til allrar hamingju ganga lægðirnar yfir.

Uppáhalds bækur Rebekku Sifjar

Þrátt fyrir ár sem einkenndist af svefnlausum nóttum og undurfögrum brosum ungbarns, náði ég samt að lesa 80 bækur. Sem er alveg slatti. Það er því erfitt að velja nokkrar bækur til að draga fram í þessum fína pistli þannig ég mun nefna fleiri en eina og fleiri en tvær. Ég vil byrja á því að nefna smásögur Chimamanda Ngozi Adichie, í safninu Það sem hangir um hálsinn, sem höfðu virkilega mikil áhrif á mig og veittu mér innsýn inn í veröld og líðan margslungra persóna sem áttu það sameiginlegt að eiga uppruna sinn að rekja til Nígeríu. Bækur sem standa upp úr í huga mér úr nýloknu flóði eru Guð leitar að Salóme eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur og Konan hans Sverris eftir Valgerði Ólafsdóttur. Sú fyrrnefnda var ævintýraleg og fyllti mig af nostalgíu og hlýju. Sú seinni var raunsönn og beinskeytt lýsing á andlegu heimilisofbeldi sem hafði mikil áhrif á mig. Ég verð einnig að nefna Olíu eftir Svikaskáld, en sú bók kom skemmtilega á óvart. Af ljóðabókum sem stóðu upp úr verð ég að nefna Umframframleiðsla, Loddaralíðan, Kona lítur við og Tanntaka. Allar eru þær ólíkar en virkilega flottar eftir ung og upprennandi skáld. Ungmennabók ársins að mínu mati er Lygatréð sem ég las í sumar og kolféll fyrir, femínísk, yfirnáttúruleg og vel skrifuð. Erfiðasta lesning ársins var án efa Vanessa, mín myrka sem ég barðist í gegnum en lýsingar af barnaníð og tælingarferli (e. grooming) vöktu mikinn óhugnað í huga mínum. Að lokum var barnabók ársins Nornasaga: Þréttandinn sem er æsispennandi og skemmtileg frásögn úr goðheimum.

Uppáhalds bækur Ragnhildar

Það er að vissu leyti erfitt að leggja mat á hvað var skemmtilegast á árinu án þess að detta út í langar ritgerðir svo ég ætla að láta mér nægja að nefna þessar þrjár bækur, tvær þeirra fantasíur og eina sögulega skáldsögu, en allar eru þær eftir breska höfunda þó ég hafi lesið eina þeirra í íslenskri þýðingu.

Mythago Wood eftir Robert Holdstock. Stundum líður mér eins og allar fantasíur séu eins, sem er dálítið kaldhæðnislegt því það sem dregur marga lesendur að fantasíum til að byrja með er jú leitin að einhverju öðruvísi. Þessari bók tókst hins vegar að koma mér á óvart, þó hún hafi verið skrifuð þremur árum áður en ég fæddist, og hún fellur ekki í flokk neinna furðusagna sem ég hafði áður lesið.

Piranesi eftir Susanna Clarke. Hvað get ég sagt, ég elska Jonathan Strange & Mr. Norrell út af lífinu og það að höfundinum hafi samt tekist að heilla mig með stuttri bók sem á fátt sameiginlegt með þeim mikla doðranti er afrek út af fyrir sig. (Því við fantasíulesendur erum líka vanafast fólk)

Á hjara veraldar eftir Geraldine McCaugheran. Unglingabók og söguleg skáldsaga frá 18. öld, blanda sem ég hefði ekki getað látið mig dreyma um í mínum villtustu/skrítnustu lestrardraumum! Ótrúlega góð bók og spennandi en jafnframt ein sú sorglegasta sem ég hef lesið.

Uppáhalds bækur Lilju

Árið 2020 las ég bókina Móðir eftir Alejandro Palomas og var varla búin að leggja hana frá mér þegar ég var búin að ná mér í eintak af framhaldinu Hundur. Það var því mikil hamingja þegar síðasta bókin í þessum þríleik, Ást mætti í hús síðasta sumar. Ég verð að segja að ég er alveg heilluð af þessum bókaflokki en get þó ekki alveg fest fingur á hvað það nákvæmlega er sem heillar mig. Persónusköpunin að vísu frábær, samtölin full af húmor en líka beiskleika. En kannski mest af öllu kann ég að meta þessa einlægni og samúð með mannlegum breyskleika, tilfinningum og vanmætti sögupersónanna gagnvart óvægu lífinu. Og í þessum lokakafla leysast þræðirnir lipulega og sannfærandi.

Fleiri bækur langar mig að nefna, Kynslóð eftir Hörpu Rún en þar fær sveitalífið raunsæja mynd enda höfundur þar öllum hnútum kunnugur, Allir fuglar fljúga í ljósið er eftir Auði Jónsdóttur og var kærkomin eftir síðustu tvær bækur sem á undan komu en þær heilluðu mig ekki. Þessi nýjasta eftir Auði er hinsvegar snilldar vel skrifuð og ögrandi, vekur til umhugsunar og lætur lesandann ekki friði. Þessi bók er með þeim betri sem ég hef lesið eftir þennan höfund. Barnabók Sigrúnar Eldjárn, Rauð viðvörun, jólin eru á leiðinni er yndisleg aðventubók með mikinn og góðan boðskap og sú bók ætti að vera lesin á öllum barnaheimilum fyrir jólin. Að lokum langar mig að minnast Merkingu eftir Fríðu Ísberg, Vanessa mín myrka og Stikilsberja-Finn en ég náði að endurnýja kynni mín af þeirri klassísku sögu í lok ársins og hún hefur elst afskaplega vel.

Uppáhalds bækur Önnu Margrétar

Ég hef ekki beint verið þekkt fyrir að stökkva fyrst allra á vagninn þegar kemur að nýjungum, hvort sem um er að ræða tækninýjungar, samfélagsmiðla, sjónvarpsefni eða bækur. Þrátt fyrir mikinn áhuga á bókum og dálæti á öllu sem heitir skipulag, þá byrjaði ég t.d. ekki að halda utan um lesturinn af neinu ráði fyrr en á því herrans ári 2020, þegar ég tók Goodreads aðganginn minn loksins almennilega í notkun.

Á þessu fyrsta ári tók ég strax eftir því að ég var svo gott sem alfarið búin að skipta yfir í ensku, og því einsetti ég mér að árið 2021 myndi ég vera duglegri að lesa íslenskar bækur og þýðingar. Ég náði markmiðinu og gott betur og það gleður mig mikið að segja frá því að eftirminnilegasta bók ársins hjá mér var bókin Eikonomics eftir hagfræðinginn Eirík Ásþór Ragnarsson. Bókin er hnitmiðuð, skemmtileg og fræðandi og ég las hana bókstaflega spjaldanna á milli.

Önnur eftirminnileg bók ársins var bókin Ethan Frome eftir Edith Wharton í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Ég vissi fyrirfram að ég væri með konfektmola í höndunum, en var ekki alveg undir það búin hvað ég myndi njóta bókarinnar mikið og hversu falleg mér myndi finnast hún, með hliðsjón af því hversu mikil harmasaga bókin er. Ég get eindregið mælt með henni. Í sömu viku sporðrenndi ég líka Aprílsólarkulda Elísabetar Jökulsdóttur og tek undir með Sæunni sem segir í umfjöllun sinni um bókina að hún sé einstök.

Að endingu langar mig til að nefna seríu sem er einmitt gott dæmi um það sem ég nefndi hér að ofan með vagninn. Snemma á árinu datt ég á bólakaf í A Court of… seríuna eftir Söruh J. Maas (oft kölluð ACOTAR, eftir fyrstu bókinni, A Court of Thorns and Roses). Ég hafði séð bækurnar mærðar á bókagramminu, en verð að viðurkenna að ég hafði engar gríðarlegar væntingar til þeirra, umfram skemmtanagildi. Þær reyndust hins vegar prýðis afþreying, sögupersónurnar þrívíðar og sagnaheimurinn vel mótaður. Þetta er sería sem ég sé fyrir mér að ég eigi eftir að endurlesa nokkrum sinnum og er raunar strax byrjuð á umferð númer tvö.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...