Það verður varla verra, eða hvað?

Síðustu vikur hafa raftæki átt alla athygli mína. Ég hangi í símanum, hálf kvíðin yfir framgangi veirunnar, of eirðarlaus til að taka upp bók eða gera nokkuð annað. En samfélagsmiðlar eru stundum uppspretta hugmynda og Bókasafn Vestmanneyja á heiðurinn að hugmynd dagsins.

Titill færslunnar er fenginn frá þeim, en í áhersluhilluna hafa þau stillt upp dystópíubókum.

Í upphafi faraldursins birtum við samansafn bóka sem fjalla um veirufaraldur. Ég held að við séum öll komin yfir það að vilja lesa um veirufaraldra. En dystópíurnar minna okkur á að, jú vissulega, ástandið gæti verið mun verra. Svo hér eru fjórar af mínum uppáhalds dystópíum.

Merking eftir Fríðu Ísberg

Merking er framtíðarskáldsaga, eða vísindaskáldsaga, sem veltir upp áleitnum spurningum um siðblindu og samfélagslega stjórn á einstaklingum og einstaklingsfrelsi. Það má sjá samlíkingar milli þess sem gerist í bókinni og þeirrar samfélagsumræðu sem hefur spunnist í kringum Kórónaveirufaraldurinn. Spurningin er hvort ríkisvaldið hafi leyfi til að skipa einstaklingum fyrir, sé það í hag samfélagsins. Sagan er vægast sagt marglaga, til dæmis hvað varðar framsetningu tungumálsins.

 

Eyland eftir Sigríði Hagalín

Við þekkum öll Eyland núna, er það ekki? Ég þreytist alla vega ekki á að mæla með henni. Í Eylandi er Ísland dystópískt land, einangrað úti í ballarhafi án allra aðfanga frá öðrum löndum. Spurningarnar eru: Er Ísland sjálfbært? og hvað gerist þegar fjölmiðlar ganga erinda valdsins? Frásögn Sigríðar er lituð af starfi hennar sem fréttamaður til margra ára, stöku fréttir slæðast inn í frásögnina. Bókin er nokkuð raunsönn lýsing, tel ég, á því sem myndi gerast ef Ísland yrði einangrað frá umheiminum.

 

Kepler 62

Bækurnar sex um ferðalagið til Kepler 62 verður alltaf í uppáhaldi hjá mér. Bækurnar eru dularfullar, spennandi, frábærlega myndlýstar, grípandi og skemmtilegar. Ég óska einskis heitar en að næsta sería þeirra komi út á íslensku. Að sama skapi óska ég þess að foreldrar kaupi seríuna fyrir börnin sín, svo það verði arðbært fyrir útgefandann að gefa út næstu seríu. Hér eru á ferðinni bækur sem fá krakka til að lesa!

 

 

Station Eleven eftir Emily St. John Mandel

Aðal sögusvið Station Eleven er hjá The Traveling Symphony, hóp af fólki sem leggur sig fram við að viðhalda menningu og listum í föllnum heimi. Þau flakka á milli staða og flytja verk Shakespeare fyrir þá sem eftir eru. Líf þeirra er hversdagslegt; þau leita að vatni og niðursuðudósum í yfirgefnum húsum og láta sér leiðast á milli æfinga. Þótt bókin sé róleg og uppfull af draumkenndum lýsingum þá má sjá í gegnum textann að það er allt annað en auðvelt að lifa í heimi fallinnar siðmenningar. Baráttan er hörð og hætturnar margar. Nýlega hefur bókin verið aðlöguð að sjónvarpi, svo hámhorf er æskilegt eftir hámlestur.

Ef þú vilt lesa eitthvað allt annað, eitthvað rólegt og fallegt, þá minni ég á annan lista úr fyrri bylgju.

Kveðjur til bókasafnsins í Vestmannaeyjum!

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...