Skáldsaga sem talar beint inn í samtímann

Ég held að hægt sé að fullyrða að beðið hefur verið eftir nýrri bók og fyrstu skáldsögu Fríðu Ísberg með mikilli eftirvæntingu. Sem er kannski ekki að undra, enda hefur hún náð að heilla alla lesendur með smásagnasafninu Kláði eða ljóðabókum sínum Leðurjakkaveður og Slitförin. 

Það er ekki venja að birta tvær umfjallanir á þessari síðu um sömu bókina. Pistill Þorsteins um þessa bók var full tæmandi. En hér eru mín fáu orð, engu að síður, um þessa fyrstu skáldsögu Fríðu Ísberg.

Fyrsta skáldsaga Fríðu í fullri lengd er skáldsagan Merking. Nafnið er hæfilega órætt, maður veit eiginlega ekki hvað maður er að fara að lesa. Kápan segir óskaplega lítið um innihald bókarinnar, nema maður veltir fyrir sér hver sé merking listaverksins á kápunni, sem eitt og sér er mjög skemmtilegt.

Að hafa samkennd eða ekki

Merking er framtíðar skáldsaga í ætt við vísindaskáldsögur sem veltir upp áleitnum spurningum um siðblindu og samfélagslega stjórn á einstaklingum og einstaklingsfrelsi. Það má sjá samlíkingar milli þess sem gerist í bókinni og þeirrar samfélagsumræðu sem hefur spunnist í kringum Kórónaveirufaraldurinn. Spurningin er hvort ríkisvaldið hafi leyfi til að skipa einstaklingum fyrir, sé það í hag samfélagsins.

Lesandinn fylgir eftir fjórum einstaklinum: Eyju, fjárfesti hjá stóru fyrirtæki; Vetri, framhaldsskólakennara; Tristan, reiðum ungum manni og Ólafi Tandra, starfsmanni SÁL og höfundi samkenndarprófsins. Og það er einmitt samkenndarprófið sem allt snýst um. Prófið er byltingarkennd leið til að sálgreina fólk og hjálpa því að takast á við geðræn vandamál. En að hafa sterka samkennd er verðmætt og að hafa enga samkennd eða litla er að sama skapi slæmt. Þegar stofnanir og stjórnmálafólk fara að merkja sig með samkenndarprófinu til að sanna út á við hve góð þau eru vindur það fljótt upp á sig. Þegar lesandi kemur inn í söguna er stutt í kosningar þar sem kosið verður um það hvort merkingin verði sett í lög, að allir skuli þreyta samkenndarprófið.

Metnaðarfull skáldsaga

Fríða skrifar af miklu öryggi. Persónurnar hennar eru heilsteyptar og mjög sannfærandi. Hún nær að toga lesandann á milli sjónarmiða með hverri einustu persónu og maður kemst aldrei að niðurstöðu. Sagan gerist í Reykjavík framtíðarinnar og til að koma því til skila hefur Fríða gefið persónunum hæfilega framandi nöfn, sem þó byggja á íslenskri nafnahefð. Hún hefur líka byggt upp ný hverfi í þessari framandi en þó kunnuglegu Reykjavík.

Ég naut þess að lesa bókina. Hvert einasta smáatriði gengur upp hjá Fríðu. Hún veltir upp spurningum sem eru jafnt þarfar og óþægilegar, erfiðar og snúnar. Hún ögrar lesandanum. En að sama skapi er bókin skemmtilestur sem er auðvelt að lesa. Textinn er unninn af miklum metnaði og persónusköpunin á öðru stigi. Það er mikil nýsköpun í bókinni, eins og sést kannski best á því hvernig Fríða hefur skrifað persónuna Tristan.

Bókin minnir um margt á Eyland eftir Sigríði Hagalín sem og Lovestar eftir Andra Snæ Magnason. Merking er framtíðarsaga (e. speculative fiction), sem talar beint inn í samtímann.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...