“Skýið var kolsvart… Svo kom steypiregn…”

„Kjarnorkuváin eyðilagði æsku mína“ segir þýðandinn Gunnar Þorri Pétursson í viðtali við Kristján Guðjónsson á Rúv. Kjarnorkuváin var líka altumlykjandi í minni bernsku.  Ég var þrettán ára árið 1986 og man í apríl þegar Evrópa og heimurinn allur fór á hvolf.  Fréttir voru sagðar af hinu hræðilega slysi í kjarnorkuverinu í Tsjernobyl í Úkraínu sem þá var hluti af gömlu Sovétríkjunum.  Fjölmiðlum hér heima bar í fyrstu ekki saman um tilurð slyssins og alvarleika. Morgunblaðið flutti fréttir af því tveimur dögum síðar en þar kom fram að vesturlöndum gekk illa að fá upplýsingar frá Moskvu, Sovétmenn vildu lítið gefa upp og sögðu sambærileg slys hafa átt sér stað víða annarsstaðar um heiminn. Þjóðviljinn fjallaði líka um slysið en mikill blæðbrigðamunur var á þessum fréttaflutningi, Þjóðviljinn hallur undir sósíalisma og vinstisinnaður á meðan Morgunblaðið var algjörlega á hinum endanum. Engu að síður kom hægt og bítandi í ljós að um hörmungarslys var að ræða sem myndi hafa afleiðingar um ófyrirsjáanlega framtíð.

Horfið ekki í ljósið

Ég, sem er fædd 1973, næ í skottið á kaldastríðstímabilinu. Sem krakki las ég leiðbeiningar um viðbrögð við kjarnorkuvá í símaskránni, myndrænar leiðbeiningar sem kenndu að ekki ætti að horfa í ljósið og helst ætti að skríða undir borð ef ég man rétt. Árið 1967 gáfu Almannavarnir ríkisins út leiðbeiningar þar sem fjallað var um varnir og viðbúnað við kjarnorkuvá. Þessi bæklingur var til á mínu æskuheimili, meðal annars var þar þessi klausa:

Lítið undan og verjið augun sem allra bezt. HORFIÐ EKKI Í LJÓSIÐ. Kvikni í fötum yðar skuluð þér reyna að slökkva eldinn með því að velta yður á þann líkamshluta, sem er í hættu. Liggið kyrr, unz höggbylgjan hefur gengið yfir. Leitið síðan strax betra skýlis.

Þvílíkt djók! Við krakkarnir æfðum þetta oft. Stjörnustríðsáætlun Reagans var ljómuð einhverjum Star wars fíling og tilfinningin sem þrettán ára krakki hafði var sú að það væri eiginlega ekki spurning um hvort, heldur hvenær sprengjan myndi falla. Mikið var talað um herstöðina í Keflavík og Alþýðubandalagið ásamt Samtökum herstöðvarandstæðinga hamraði á þeirri ógn sem fólst í því að hafa hér amerískan her. Ef Sovétmenn færu í stríð yrði flugvöllurinn hér ákjósanlegt skotmark.  Í barninu mér blundaði ótti um að einn daginn myndum við öll deyja. Ég horfði á fréttir, fréttir af spennu milli austurs og vesturs og ég reyndi að lesa í fréttaþulinn hvort ástæða væri til að óttast en fréttirnar sem slíkar skildi ég illa eða ekki.

Daginn sem fréttir bárust af slysinu í Tsjernobyl lét mamma  disk út á tröppur til að  athuga hvort eitthvað myndi falla á hann, einhver geislun sem væri þá sýnileg, eins og þegar aska fellur vegna eldgoss. Síðan leið tíminn og slysið féll í gleymsku, kalda stríðið leið undir lok en ég  fékk á fullorðins árum einhvern óljósan áhuga á þessu og langaði að vita hvernig þetta hefði þróast, hver útkoman hefði verið á þessu svæði og hvernig staðan væri í dag. En svo furðulegt sem það var þá var afskaplega lítið hægt að fræðast. Og þær upplýsingar sem ég fann voru óljósar og mismunandi.  Þar til einn daginn, fyrir nokkrum vikum, að áskriftarbók úr bókaklúbb Angústúru datt inn um lúguna hjá mér. Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll eftir Svetlönu Aleksíevitsj.

Loksins á íslensku

Svetlana Aleksíevitsj er frá Hvíta-Rússlandi, fædd 1948 og hefur skrifað bækur um þjáningar þeirra sem lifðu af merkilega og örlagaríka tíma í Sovétríkjunum. Hún hefur lagt áherslu á tilfinningalega upplifun fólks frekar en staðreyndir sögunnar og 2015 fékk hún bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir „margradda skrif, minnisvarða um þjáningar og hugrekki á okkar tímum“.  Að auki hefur hún hlotið margvísleg önnur verðlaun fyrir bækur sínar. Svetlana flúði Rússland árið 2000 en snéri til baka tólf árum seinna og er enn að skrifa. Þess má einnig geta að Gunnar Þorri hlaut íslensku þýðingaverðlaunin 2022 fyrir Tsjernobyl-bænina. Þýðing Gunnars er afburðagóð og ekki að undra að hann hafi hlotið þýðingaverðlaun fyrir hana. Neðanmálsgreinarnar gefa lesandanum svo enn meiri innsýn í sovéska menningu og hugarheim.

Tsjernobyl-bænin kom út á frummálinu ellefu árum eftir slysið og er margslungin bók, bók margra radda eins og einkennir bækur Svetlönu. Ekki bara er varpar hún mikilvægu ljósi á þennan hryllilega atburð heldur er hún líka skrifuð af Sovéskri konu sem upplifði og man.  Stuttar frásagnir fólks sem sumt er að opinbera hluti er hafa verið grafnir í minni og ótta í um tíu ár. Eiginkonur hreinsunarmanna sem voru sendir í opinn dauðann, sögur mæðra, feðra, barna, embættismanna, vísindamanna, allir fá sitt pláss, saga hvers og eins er átakanleg, harmræn en fyrst og fremst einlæg.  Sorg og reiði voma yfir þessum frásögnum en líka stolt, stolt þeirra sem tóku þátt í hreinsun í þeirri trú að þeirra væri skyldan, stolt þeirra sem áttu ástvin sem fórnaði sér fyrir föðurlandið og flokkinn. Menn og konur brugðist við þegar kallið kom og jafnvel áður en kallið kom. „Á mínu borði lágu tugir beiðna „ég bið um að vera sendur til Tsjernobyl“ Að hlýða kalli hjartans“.  Hjá sumum glóði flokkskírteinið í vasanum, flokkskírteini kommúnistaflokksins og var jafnvel meiri ógn en geislavirkur úrgangur á slysstað.  Fólk var keypt til að deyja með loforðum um rúblur, veraldleg gæði og það sem mest var um vert, aðdáun þeirra sem stjórnuðu kommúnistaflokknum, skjalfestar viðurkenningar og medalíur, sem vitnuðu um afrek í þágu fósturjarðarinnar og flokksins. Aðrir fóru til starfa í þeirri trú að þeir væru að fara að gera eitthvað allt annað á allt öðrum stað. Fólk fór og taldi sig eiga að starfa tímabundið í nokkrar vikur en fengu ekki að snúa aftur til síns heima fyrr en mörgum mánuðum seinna „Aftur á móti var sumar í lofti og þeir höfðu lofað því að sleppa okkur lausum innan tuttugu og fimm daga. „Látið ekki svona strákar, – hló herforinginn, sem kom með okkur á staðinn. – Tuttugu og fimm dagar!? Ykkur verður í fyrsta lagi sleppt eftir hálft ár.“  Og allir þurftu að þegja „Áður en við fórum aftur heim voru allir leiddir fyrir KGB-mann sem bað okkur lengstra orða að tala aldrei við nokkurn mann um það sem við höfðum séð“.

Fjölda mannslífa fórnað

Margir töldu slysið í Tsjernobyl marka endalok Perestrojku, stjórnmálastefnu Gorbachev, tiltrú á kommúnismann fjaraði út og eftir sat fólk sem vissi ekki á hvað það  ætti að trúa í staðinn. Slysið markaði upphaf að endi Sovét en auðvitað vissi það enginn þá. Þúsundir manna og kvenna féllu í starfi sínu við kjarnorkuverið, „Og hvað um hermennina sem unnu á þaki kjarnakljúfsins? Allt í allt voru tvö hundruð og tíu herdeildir sendar á staðinn, um þrjú hundur og fjörtíu þúsund hermenn“.   Þúsundir manna og kvenna féllu vegna afleiðinga geislavirkninnar, börn fæddust andvana eða vansköpuð „Þegar hún fæddist…Þetta var ekki barn heldur lifandi poki, allsstaðar saumað fyrir; hvergi op eða rifa, aðeins opin augu.“  Áhrif slyssins á lífríkið var meiri en nokkurn mann hefði getað grunað. Margar sögurnar lýsa hræðslu vegna upplýsingaskorts, vísindamenn lýsa vanmætti sínum í baráttu við kerfi sem ekki vildi skilja né sjá orsök og afleiðingar. Margir hlupu á þann vagn að öðrum væri um að kenna, CIA, hryðjuverk vestrænna ríkja o.s.frv.

Fólk sem bjó á þessum stað var flutt burt en fjöldi snéri aftur um leið og hægt var og jafnvel áður. Það upplifði sig útskúfað annars staðar, börnum var strítt og þá var skárra að búa við geislunina og finna sig sem hluta af hóp en vera útskúfað úr samfélagi fólks. Borgin Prípjat, sem var borgin sem hýsti þá sem unnu við verið, hún er talin í dag vera tóm og óbyggjandi þó sumstaðar leynist einn og einn íbúi sem neitaði að yfirgefa staðinn. Talið er að það líði mörg þúsund ár þar til jarðvegurinn hefur losað sig við geislavirknina. „Geislavirkar kjarnategundirnar sem dreifðust um landið munu áfram vera til eftir fimmtíu, hundrað, tvö þúsund ár… Jafnvel enn lengur…“  Enn hefur enginn lýst yfir ábyrgð, menn voru jú dæmdir, starfsmenn versins, fyrir handvömm við stjórnun versins og röng viðbrögð á neyðarstundu en stjórnvöld í Sovétríkjunum lýstu ekki yfir sinni ábyrgð á því sem á eftir kom.

Erfið en þörf lesning

Lestur þessarrar bókar er sársaukafull, ekkí síst vegna þess sem nú herjar á heimsbyggðina í formi stríðsátaka. En þó glittir sumstaðar í svartan húmorinn og margt er á köflum grátbroslegt og beinlínis fyndið. Og stundum er hægt að sjá fegurðina í því sem er dauðans alvara. Bláminn sem ber við himinn þegar kjarnorkuver logar er í senn heillandi og ógnvænlegur. „Okkur grunaði ekki að dauðinn gæti verið svona fallegur“.

Kjarnorkuvopn gegna lykilhlutverki í samskiptum stórvelda og þegar þessar línur eru skrifaðar er Rússlandsforseti nýbúinn, í innrás sinni í Úkraínu, að ná yfirráðum yfir kjarnorkuverinu í Tsjernobyl og er einnig búinn að setja kjarnorkusveitir Rússa í viðbragðsstöðu.  Það er þyngra en tárum taki að veröldin skuli uppfull af einstaklingum sem setja eigin hagsmuni ofar lífinu. Tsjernobyl-bænin er bæn fólks sem fórnaði öllu, fortíð, nútíð og framtíð, bæði sinni eigin sem og afkomenda sinna. Og biðlar til umheimsins að bænheyra það og velja frið umfram allt. Það er svo sannarlega óskandi að mannkynið geti horft til framtíðar án þess að hafa þessi kjarnavopn hangandi yfir sér. Fólkið sem lifði, starfaði og dó vegna vinnu við kjarnorkuverið í Tsjernobyl á það inni hjá okkur að við tökum mark á því sem þau gengu í gegnum og að við sjáum til þess að sagan endurtaki sig ekki, hvort sem það yrði af mannavöldum eða vegna slyss. Bók Svetlönu Aleksíevítsj eigum við öll að lesa, við skuldum þessu fólki það, því eins og höfundur segir orðrétt á einum stað: „-Þetta er ekki bók um Tsjernobyl heldur heiminn sem Tsjernobyl gat af sér.”

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...