Kokkáll, kjáni eða eitthvað annað?

Dóri DNA er skáldanafn Halldórs Laxnesss Halldórssonar og Kokkáll er hans fyrsta skáldsaga. Dóri er þekktur uppistandari, grínisti og var viðloðandi hljómsveitina XXX Rottveilerhundar. Bókin Kokkáll kom út hjá bókaútgáfunni Bjarti árið 2019 og vakti ekkert sérstakan áhuga hjá mér. Það var ekki fyrr en ég sá leikrit Dóra í Borgarleikhúsinu síðastliðið haust sem ég kveikti á þessum höfundi. Leikritið Þétting hryggðar var afar áhugavert og ég endaði á að sjá það tvisvar. Því náði ég mér í þessa bók, las og varð ekki fyrir vonbrigðum. Kokkáll er saga Reykvíkingsins Arnar, sem á erfitt með að fóta sig í tilveru sterkara kynsins, karlmannsins. Hann ber þess merki að hafa átt erfitt uppdráttar í æsku, faðir hans afplánaði dóm í fangelsi fyrir fjárdrátt og móðirin var veikgeðja og sinnulaus gagnvart drengnum, föst í dramatísku slúðri um hina og þessa sem glímdu við ólæknandi sjúkdóma og hörmungar. Besti vinur Arnar eru svo besserwisserinn og prisippmaðurinn Hallur sem er skjólið hans og Andrea sem er með Downs heilkenni en þetta þríeyki heldur saman þegar gefur á bátinn og má segja að Andrea sé sú sem veitir þeim aðhald og skjól.

Karlmennskan

Örn er veikgeðja og ósjálfstæður einstaklingur sem fer í gegnum lífið með enska mottóið „fake it till you make it“.  Vinnan sem hann skilar af sér á auglýsingastofunni sem hann vinnur hjá er afskaplega yfirborðskennd og Arnar í raun gerir þar eins lítið og hann mögulega kemst upp með. Ást hans til kærustunnar Hildar er álíka yfirborðskennd, hann telur sér hálfpartinn trú um að hún hafi tekið niður fyrir sig með því að leggja lag sitt við hann og ímyndar sér að hún vilji í raun einhvern annan en hann, hann sé ekki nógu góður, nógu sætur, nógu klár.  Úr verður furðuleg flétta þar sem kynferðislegt ofbeldi,  sukk og svínarí tekur völdin en yfir öllu gnæfir Hallur með sinn vandlætingasvip og svo Andrea með sitt sakleysi og tiltrú á þessa tvo vini sem aldrei eiga að bregðast.  Söguþráðurinn verður ekki rakinn frekar hér en sagan er uppfull af allskonar vinklum sem sumir raðast saman og meðan aðrir rekast á.

Sagan er ádeila á karlmennsku, karlmennskuímynd og þennan blessaða nútíma þar sem allt snýst um rafræn samskipti en ekki samtöl fólks í millum. Fólkið í bókinni talar takmarkað saman en gefur sér aftur á móti að það viti hvað annað fólk vill og hvað því finnst. Og Örn gengur ansi langt í að leggja saman tvo og tvo í sambandinu við Hildi og fær út úr því dæmi stjarnfræðilega háa tölu. Hann fer fram í eigingirni og sjálfsvorkunn, svo að aðrir líða fyrir svo sem eins og Andrea sem hann hengir sig á og misnotar sér vinskap þeirra til að sér sjálfum líði betur.

Hressileg, sláandi og hreinskilin

Bókin er fanta vel skrifuð, húmorinn er allsráðandi, persónurnar trúverðugar og veruleikinn sömuleiðis, í samhengi við MeToo byltinguna er þetta sláandi lesning. Spurningin liggur yfir vötnun „hvernig er ætlast til að karlmenn séu og hvað vilja þessar konur eiginlega“ Og Örn velkist um í þessum spurningum.  Það eina sem dregur þessa bók niður er ofgnótt af boxum sem Dóri tikkar inn í. Fordómar, samkynhneigð, rasims svo eitthvað sé talið,  svo að úr verður hálfgerður grautur þar sem engu er gerð almennileg skil heldur aðeins rétt kafað í. En að því sögðu er sagan hressileg, sláandi og hreinskilin og það strax frá fyrstu blaðsíðu. Og upp úr stendur þessi staðreynd að samskipti gegnum miðla og samskiptaforrit geta aldrei komið í stað þess að eiga einlægar samræður um lífið og tilveruna. Og samband Hildar og Arnar er einmitt þannig, byggt á misskilningi og skorti á samskiptum, tveir ólíkir einstaklingar sem hafa ekki hugmynd um hver þau eru og til hvers er ætlast af þeim.  Karlmennskan er, þegar upp er staðið, rauði þráðurinn – eða hvernig karlmennskan getur verið eitruð í sinni verstu mynd og hvernig hlutirnir geta farið á versta veg þegar við hættum að geta talað saman.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...