Flughræddir lesi á eigin ábyrgð

Gísl eftir Clare Mackintosh

Sálfræðitryllirinn Gísl, eða Hostage á frummálinu, var gefin út sumarið 2021 en kom út sumarið 2022 í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur.

Bókin er sjötta skáldsaga breska rithöfundarins og fyrrverandi lögreglukonunnar Clare Mackintosh. Lestrarklefinn hefur áður fjallað um bók Mackintosh, Eftir endalokin, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2020.

Hremmingar í lofti og á láði

Gísl fjallar um flugfreyjuna Minu og rannsóknarlögreglumanninn Adam og fimm ára dóttur þeirra hjóna, Sophiu. Mina verður hluti af áhöfn í flugi 79 sem er það fyrsta sinnar tegundar – beint flug milli London og Sydney án millilendingar. Á meðan Mina undirbýr sig undir ferðina kemur í ljós að brestir eru í hjónabandinu og dóttir þeirra á við andlega erfiðleika að stríða. 

Mina tekur því feginshendi að fá að skipta um umhverfi, en samviskubitið nagar hana því henni finnst hún vera að skorast undan ábyrgð í persónulega lífinu. Um borð í vélinni fær Mina skilaboð um að til standi að ræna vélinni og að hún eigi að aðstoða. Ef hún reynist ósamvinnufús verður dóttur hennar unnið mein. Á meðan lenda Adam og Sophia í martraðakenndum hremmingum á jörðu niðri. Þessir tveir þræðir fléttast saman í virkilega spennandi sögu sem grípur mann kverkataki frá upphafi og sleppir ekki haldinu fyrr en á síðustu síðu.

Góð persónusköpun og tilfinningaþrungið andrúmsloft

Í sögunni er flakkað á milli fyrstu persónu frásagnar Minu, Adams og nokkurra farþega um borð í flugi 79. Í fyrstu þótti mér svolítið ruglingslegt að fá innsýn í svo marga hugarheima og ekki alveg ljóst hvert markmiðið með því var fyrr en í seinni hluta bókarinnar.

Ég er hrifin af fyrstu persónu frásögnum því það býður upp á möguleikann á óáreiðanlegum sögumanni. Ég var líka ánægð með að höfundur skyldi gefa eiginmanninum Adam rödd því sjaldan veldur einn þá tveir deila og það er auðvelt að taka sjálfkrafa afstöðu með aðalpersónunni Minu.

Sem foreldri fimm ára barns tengdi ég mikið við vangaveltur Minu og Adams um eigið ágæti í foreldrahlutverkinu. Líkt og flestir foreldrar um víða veröld kannast við á einhverjum tímapunkti.  Höfundur hefur gott lag á persónusköpun og lætur lesanda finna til með persónum sínum. Lýsingarnar af angurværri angist hjónanna yfir foreldrahlutverkinu er ágætis mótvægi við spennuþrunginn söguþráðinn um borð í flugi 79. Líklega yrði það jafnvel reyndustu flugmönnum ofviða að lesa heila bók eingöngu um skelfinguna sem fylgir yfirvofandi flugráni eða flugslysi.

Flughræddir haldi áfram með varúð

Höfundi tekst prýðisvel að lýsa hinni kvalafullu skelfingu sem grípur um sig meðal flugfarþega við þær aðstæður sem skapast í bókinni. Ég er nú þegar eins flughrædd og ég get orðið og því beit bókin ekkert á mig hvað það varðar. En ef þú ert að hugsa að þú eigir eitthvað inni, að þú gætir alveg verið flughræddari, þá myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en þessi bók er tekin upp. Við lesturinn stóð ég mig oftar en einu sinni að því að hugsa: Ég er fegin að vera ekki í flugvél. Reyndar hugsa ég það reglulega í mínu daglega lífi í örygginu á jörðu niðri. Eða falska örygginu, því mér skilst að það sé líklegra að deyja í bílslysi en í flugslysi, sem er ein af þessum röksemdarfærslum sem er eins og suð í eyrum flughræddra. Hvað sem því líður þá er Gísl fantagóður tryllir með angurværu ívafi. En kannski ekki sá besti til að taka með í vélina á leið í sumarfríið.

Fleiri spennusögur eftir Clare Mackintosh

Væntanleg nóv 2022

Lestu þetta næst

Guðinn í vélinni

Guðinn í vélinni

Strætóbílstjóri sér ljósið á miðri vakt. Ekki rauða ljósið, eða það græna, heldur sannleikann. Guð...