Undir eftir Adolf Smára Unnarsson
Afturámóti

Loksins er komið sumarleikhús. 

 

 

 

 Við Díana Sjöfn fórum galvaskar í Háskólabíó sem hýsir þessa dagana leikhúsið Afturámóti.  Að sögn upphafsmanna er Afturámóti sviðslistahús sem einbeitir sér að því að halda úti rými fyrir listsköpun og sýningar, sem og að framleiða efni. Þá er yfirlýst markmið þeirra að skapa vettvang þar sem ungt listafólk kemur saman og gerir tilraunir innan fagsins. Það er vel. Stofnendurnir eru þeir Höskuldur Jónsson, Ingi Þór Þórhallsson og Kristján Óli Haraldsson. Máni Huginsson er skipulagsstjóri og Karla Kristjánsdóttir sviðsstjóri en þau sjá einnig um framleiðslu.

Undir borginni, undir húðinni

Fyrsta verkið sem við kíktum á í sumarleikhúsi Afturámóti er leikverkið Undir eftir Adolf Smára Unnarsson. Bíótjaldið er þarna á sínum stað, en á sviðinu standa fimm leikarar, fimm hljóðnemar og stólar. Leikararnir hika, þá rekur í vörðurnar, þeir eru að reyna að muna eitthvað en það reynist þeim torvelt. Eða kannski er hikið hræðsla. Fjölnir Gíslason hefur upp raust sína, persóna hans er leikari sem segir áhorfendum frá því hvernig hann hafi alltaf þráð að leika hetjuna.  Þá tekur persóna Berglindar Höllu Elíasdóttur orðið og segir áhorfendum hvers vegna hún ákvað að verða læknir. Björk Guðmundsdóttir leikur þarna viðskiptakonu sem er að farast úr einstaklingshyggju og stressi. Eiginmaður læknisins, leikinn af Jökli Smára,  vill bara fá að slaka á í sínu fríi. Ung stúlka túlkuð af Vigdísi Höllu Birgisdóttur, segir okkur frá ömmu sinni.

Hvernig tengjast þessar persónur innbyrðis? Jú, þau eiga það öll sameiginlegt að hafa verið stödd á neðanjarðarlestarstöð þegar maður lagðist á teinana. Þau reyndu, eða reyndu ekki, að bjarga honum. Þau rifja upp þennan erfiða atburð, en hver man hann eftir sínu nefi.

Samfélagsleg rýni

Í svona ensamble verki er hætt við að fara að hrúga fram staðalmyndum, en Adolfi Smára tekst að komast hjá því. Við fáum í staðinn djúpa persónuköfun í stuttu verki án þess að hefðbundnar leiðir séu farnar. Aðstæður sem eru tragískar eru málaðar upp á sammannlegan en þó kómískan hátt, og við fáum að gera grín að okkur sjálfum með því að spegla okkur í persónunum. Einstaklingshyggja, hvernig komið er fram við heimilislausa, túristar í útlöndum, ferðalög, skot á íslenskt leikhús, framadýrkun og girnd, tungumálakunnátta þeirra sem tóku eina önn í skiptinámi og þykjast enn kunna málið, sambönd sem titra  og hversu grunnt er á grimmd okkar og samúð. Þetta eru allt þemu sem koma fyrir í þessu 70 mínútna verki. Aðferð verksins og framsetning er góð þá bæði er textinn raunsær og afhjúpandi og handritið vel þétt til að birta upp skýra og skemmtilega mynd af fimm  ólíkum einstaklingum. Tungumálaörðugleikar ferðamannanna voru mjög vel framsettir. Bíóskjárinn er notaður skemmtilega til að telja niður mínútur og skapa spennuþrungið andrúmsloft, og hljóðnemar og stólar eru næg leikmynd til að gera efninu góð skil. Þá nýtir Adolf Smári ljós og vídjóverk til að ramma inn verkið með góðum árangri. 

Gucci Gucci Gucci

Búningarnir eru vel útfærðir. Þó að þeir virðist lágstemmdir eru ýmis smáatriði í stíl og klæðnaði sem að undirstrika og fullkomna heildarmynd persónanna. Þá má nefna fatnað læknisins, sem sýnir persónuleika hennar og það hvernig maki hennar er með Gucci belti í stíl sem var augljóslega þar vegna áhrifa kærustunnar miðað við restina af fatavalinu sagði svo ótal margt um samband þeirra. 

Þá eru föt stúlkunnar sem ber vitni fyrir ömmu sína vel gerð því þau virka bæði fyrir feimna unga konu og ömmu gömlu, enda búa þær báðar í líkama leikkonunnar. Föt Fjölnis eru akkúrat fötin fyrir einhvern sem neitar að viðurkenna að hann sé miðaldra og Björk virðist vera í svo óþægilegri dragt að það er óhjákvæmilegt að verða stressaður með henni þar sem hún reynir að ná andanum í gegnum hneppta jakkann.

Skemmtileg framsetning

Undir er í heildina flott og sterkt verk, hæfilega langt, skemmtilegt og rennur vel. Leikarar eru flottir, Björk er virkilega fyndin og salurinn hló mikið að hennar persónu. Enginn leikari ofleikur, eða dettur í staðalmyndahegðun, heldur er að finna dýpt í þeim öllum. Læknishjónin eru eins og vel skrifaður sketch úr gamanþætti sem brýtur upp spennuna. Kannski mætti segja að leikararnir hefðu verið smá stund að komast alveg í gang, en innan örfárra mínútna var orkustigið orðið mjög flott og leikur þeirra grípandi. 

Eitt sem var virkilega áhugaverður snúningur var að láta eina persónuna vera aðila sem kemur inn sem talsmaður vitnis. En það bauð upp á annað lag í frásögninni og sögunni sjálfri af því að unga konan kemur með utanaðkomandi sýn en á sama tíma er hún að leika ömmu sína í aðstæðunum  svo hún hefur tvískipt augu á atburði. Draumsýnin á ömmuna sem hrynur (og minnir svolítið á grein um góðar ömmur í samhengi við útlendingamál) er einnig sterkur kjarni í verkinu, og sýnir sérstaklega vel hversu marglaga manneskjan er, hún er góða amman við litlu stelpuna sína en svo talar hún um húsnæðislaust fólk sem ógeðslegt, og allir glíma við að vernda sjálfan sig eða að standa frekar vörð um hugmyndina um sig sem góða manneskju.

Verkið er siðfræðileg stúdía sem ýtir áhorfendum út í að spyrja sig áleitinna og erfiðra spurninga. Það hvernig persónur segja ósatt, skreyta mynd sína af atburðum, skreyta sig og eru ósammála um atburðarrás er virkilega áhugavert og býður upp á pælingar um hvort að eitthvað af því sem þau segja sé í raun sannleikanum samkvæmt. Hvað gerðist á brautarpallinum? 

SA 

DSJ

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...