Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu.
Stefán Jónsson leikstýrir og hefur náð að ramma söguna og súrrealísk element hennar vel inn með góðri hjálp hönnuðar sviðsmyndar og lýsingar.
Þrautir þrjár
Verkið hefst á heimsókn aðalpersónunnar Ævars til föður síns, Birkis Ævarssonar. Senan er kunnugleg þeim sem eiga ástvini sem hættir eru að hugsa um sig. Í heimsókninni er Ævar minna að hlusta á föður sinn og meira að sinna honum, taka til í íbúðinni og athuga lyfjaboxið. Birkir er augljóslega veikur en þrátt fyrir það keðjureykir hann, hóstar, hugsar illa um sig og er farinn að taka til í geymslunni þó hann hafi ekki heilsu til. Ævar hefur ekki tíma til að stoppa lengi og rýkur af stað, en stuttu síðar deyr faðir hans. Ævar leitar þá aðstoðar útfararstofu Orfeusar þar sem hann hittir óvænt töfrandi satýr sem sendir hann í krefjandi ferðalag. Ævar skal leysa þrjár þrautir og þá getur hann endurheimt föður sinn frá sýslumanni dauðans.
Áhugaverðar persónur
Leikarahópurinn er virkilega sterkur og það er nánast eins og hlutverkin hafi verið skrifuð fyrir þessa tilteknu leikara. Haraldur Ari Stefánsson er í hlutverki Ævars og Pálmi Gestsson í hlutverki föðursins og er samhljómurinn milli þeirra sterkur. Sólveig Arnarsdóttir túlkar síðan hinn mystíska satýr á skemmtilegan hátt. Þá eru það þau Birna Pétursdóttir og Hákon Jóhannesson sem bregða sér í ýmis hlutverk en þau túlka hinar ótrúlegustu persónur sem eiginlega fylgja Ævari í gegnum þrautagönguna. Hæfni þeirra í gamanleik er sérstaklega mikilvæg hér því þau ná að fanga húmorinn einkar fínlega á sama tíma og ógnvænleikann sem þjarmar að Ævari.
Sterk birtingarmynd sorgar
Í verkinu má finna mjög góða og sterka birtingarmynd af sorgarúrvinnslu og augljóst er að Birnir skrifar með ákveðnum skilningi og næmni. Sorgarúrvinnsla getur verið flókið ferðalag sem einkennist af ýmsum erfiðum og torveldum tilfinningum. Eini gallinn í sögunni er kannski sá að úrvinnslan myndi vanalega ekki taka svona stuttan tíma eins og verður hjá Ævari. En burtséð frá því þá er ferðalagið mjög spot on varðandi tilfinningar á borð við afneitun, skömm, samviskubit, hvernig hægt sé að festast í djúpri og dimmri holu sorgarinnar og hvernig að lokum einhvers konar sátt myndast.
Húmor og harmleikur
,,Are you not entertained?“ spyr satýrinn í seinni hluta verksins og þótt furðulegt megi hljóma, miðað við umfjöllunarefnið, að þá er sýningin virkilega góð skemmtun. Enda oft talað um að erfið málefni séu auðmeltanlegust í gegnum hlátur og húmor. Birnir hefur blandað við umfjöllunarefnið ákveðnu háði og samfélagslegri gagnrýni sem nær listilega vel að fléttast inn í þetta þunga og tilfinningalega umfjöllunarefni. Þetta er því margradda eða marglaga verk sem snertir mann djúpt.
Spriklandi handrit
Handritið er virkilega bitgott, það hreinlega spriklar af lífi og samræður renna einkar vel og kjarna mjög mikið í fáum vel völdum orðum. Engu er ofaukið og samfélagsrýnin tónar vel við aðalumfjöllunarefnið. Gagnrýni á hraða samfélagsins, hvernig við viljum stöðugt blanda skriffinsku við hið mannlega og hvernig við forðumst erfið umræðuefni er meðal þess sem Birnir ákveður að pota að áhorfendum á sama tíma og þeir finna samhljóm í flóknu tilfinningaflæði aðalpersónunnar.
Áhrifamikil ljósahönnun og hljóðheimur mikilvægur
Mikið hefur verið lagt í hönnun á hljóði og lýsingu og þau eiga mjög mikilvægu hlutverki að gegna í því að ná þessum súrrealísku og draumkenndu, eða jafnvel martraðakenndu, áhrifum sem einkennir ferðalag Ævars. Það er Ísidór Jökull Bjarnason sem sér um hljóðheiminn og Mirek Kaczmarek og Jóhann Friðrik Ágústsson sem sjá um lýsingu en Mirek er einnig búninga – og sviðsmyndahönnuður verksins. Áhorfendur fá svo sannarlega upplifunina í gegnum öll skilningarvit. Ásgeir Trausti sér svo um tónlistina í verkinu og er lagið í lokin guðdómlega fallegur endir og færir áhorfendum einstaka hlýju eftir erfitt tilfinningarót.
Fegurðin við hið hversdagslega fær mikið rými og hvernig lítil hversdagsleg smáatriði mynda manneskjur og tengsl þeirra á milli. Þetta verk ætti ekki að láta neinn eftir ósnortinn en ég mæli sérstaklega með því fyrir þá sem hafa upplifað sáran missi, þó að fyrri hluti verksins geti verið þeim einstaklingum líka erfiður að vissu leyti.
Sýslumaður dauðans er stórskemmtileg, sár og falleg upplifun.