Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir

Fanney Hólmfríður ólst upp á sveitabænum Brúnum í Eyjafjarðarsveit ásamt sjö eldri systkinum sínum, kindum, kúm, hænsnum og köttum. Gúmmístígvél, mykja og heyskapur á sumarnóttum eru stór partur af hennar persónuleika – hún er og verður alltaf norðlenskur bóndadurgur inn við beinið með svartan húmor og harðan framburð.

Fjölskylda Fanneyjar er bókhneigð og áttu foreldrar hennar ágætt safn bóka í hansahillum sem þöktu heilan vegg á æskuheimilinu. Þar var í sérstöku uppáhaldi hjá Fanneyju þjóðsagnasafn Ólafs Davíðssonar, Íslenzkar þjóðsögur, en sem krakki las hún bindið sem innihélt draugasögur spjaldanna á milli og fengu bekkjarsystkini hennar hana stundum til að endursegja sér þær með slökkt ljós og dregið fyrir glugga ef færi gafst.

Fanney var eitt þeirra fárra barna sem hafði ánægju af því að læra ljóð utan að í skóla. Á meðan bekkjarfélagar hennar höfðu ekki nógu sterk lýsingarorð yfir hversu leiðinlegt þeim þótti þessi skylda, fagnaði Fanney því leynt með sjálfri sér. Þegar hún fékk barnaljóðabókina Heimskringla eftir Þórarinn Eldjárn í gjöf á sjö ára afmælisdaginn sinn kolféll hún fyrir ljóðlistinni. Bókina les hún enn fyrir börnin sín tvö og hefur ekki síður gaman af en þau.

Fanney er menntuð sem sagnfræðingur og menningarmiðlari og hefur síðastliðið ár stundað nám í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Eftir nær aldarfjórðungs útlegð frá sveitarlífinu má segja að hún sé að nokkru leyti komin í sveitina aftur en hún býr á Álftanesinu ásamt manni sínum og börnum.