Pennar Lestrarklefans

Anna Margrét Björnsdóttir

Anna Margrét er þýðandi, skúffuskáld og eilífðarstúdent, en hefur lokið grunnnámi í ensku og meistaranámi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hún býr í Mosfellsbæ, ásamt sambýlismanni sínum Elvari og kanínunni Móra. Þegar hún er ekki í vinnunni, að læra eða að lesa, syngur hún með Söngsveitinni Fílharmóníu eða spilar D&D með vinum sínum.

Sem barn var hún afskaplega mikið fyrir bækur, raunar svo mikið að hátíðlegasti dagur ársins var þegar Bókatíðindi komu í hús fyrir jólin. Þau voru lesin spjaldanna á milli og merkt við allar álitlegustu bækurnar. Þær allra álitlegustu fengu 2-3 hök, í eins konar fyrirfram stjörnugjöf.

Anna Margrét er gefin fyrir dystópískar ungmennasögur, furðusögur, glæpasögur og ástarsögur, en það rata allra bóka kvikindi inn í bókahillurnar hennar. Sem fullorðinn bókaormur hefur hún sætt sig við þá lykilstaðreynd lífsins að öll húsgögn eru fyrst og fremst geymslustaðir fyrir stafla af bókum sem stendur til að lesa.

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir

Erna hugsar hratt og ferðast hratt. Einu sinni sá hún mjög illa en núna sér hún mjög vel. Hún þolir illa lyktina af ánamöðkum en elskar lyktina af antíkhúsgögnum og dóttur sinni. Hún er með afar þroskaða bragðlauka þótt hún segi sjálf frá og fúlsar bara við illa elduðum mat sem hún veit að á betra skilið; meiri hvítlauk og dass af límónusafa.

Annars elskar hún góðgæti og huggulegheit og finnst voðalega ljúft að detta í eina og eina og helst fleiri en eina bók við hvert tækifæri. Hún elskar sögur og finnst gaman að segja þær. Skemmtilegastar þykja henni lygasögur en það er önnur saga. Pabbi hennar kallar hana verkamann í aldingarði Guðs og hver veit nema hún sé það. Kannski er hún bara allt og ekkert. Hún er allavega ekki alveg búin að taka ákvörðun í lífnu og kannski gerir hún það aldrei. En núna, akkúrat núna; hér og nú er hún búin að bóka ferð með Lestrarklefanum.

 

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir

Díana Sjöfn er bókmenntafræðingur og menningarfræðingur. Hún er einnig rithöfundur. Árið 2018 gaf hún út ljóðabókina Freyja og árið 2019 skáldsöguna Ólyfjan. Þess á milli er hún verkefna – og viðburðarstjóri í hefðbundinni dagvinnu. Svo finnst henni gaman að lesa bækur, tala um bækur, reyna að fá aðra til að elska bækur jafn mikið og skoða orð og tungumálið. Díana hefur gaman af því að skrifa alls konar og þar á meðal menningargagnrýni.

 

 

 

Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar

Kristjana er fjögurra dætra móðir, eiginkona og fóstra Fúsa sem er áhugaverður, næstum mennskur köttur. Hún er líka bókasafns- og upplýsingafræðingur og starfar sem slíkur á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni þar sem hún safnar allri íslenskri bókaútgáfu í skylduskil. Það starf hefur í för með sér hún hefur ferlega góða afsökun til að liggja yfir og kynna sér þær bækur sem koma út hverju sinni sem gerir þó það að verkum að ferðirnar í bókabúðirnar eru orðnar heldur margar og bókaskápunum heima fyrir fjölgar og fjölgar.

Líf hennar snýst því að mjög miklu leyti um bækur, bæði í leik og starfi. Kristjana hefur alla tíð lesið mikið og tekið bækur fram yfir aðra tómstundaiðju. Að hennar mati er það að setjast niður og hverfa inn í heim bókarinnar eftir strembinn dag á við góða íhugun og slökun. Sumir stunda jóga, sumir hugleiða, Kristjana les.

Þrátt fyrir það hafði hún ekki orðið mikið vör við né kynnst öðrum bókaormum sem lesa mikið og hafa áhuga á að deila upplýsingum um hvaða bækur þeir lesa eða diskútera efni þeirra. Ekki fyrr en fyrir um tveim árum þegar hún byrjaði af rælni að deila því sem hún les á Instagram aðgangi sínum @janahjorvarreads. Þá fann hún aðra bókaorma og hefur kynnst hinu íslenska og erlenda “bookstagram” sem er hreint frábært fyrirbæri sem enginn bókaormur ætti að láta framhjá sér fara. Þó ber að vara við að við slíkt gæti leslistinn lengst allverulega.

Það eru helst rómansbækur, skvísubækur og íslenskar bókmenntir, nýjar og gamlar og af öllum tegundum sem lenda í lestrarbunkanum en einnig annað efni sem heillar hverju sinni.

 

 

Katrín Lilja Jónsdóttir

Katrín er ritstjóri Lestrarklefans, blaðakona og sagnfræðingur sem hefur frá unga aldri setið með nefið ofan í bók. Það var henni eðlilegt. Hún trúði því að jafnaldrar hennar hefðu sömu hneigingu til bóka og það var ekki fyrr en á sextánda aldursári sem hún gerði sér grein fyrir að ef til vill var lesturinn ekki eins eðlislægur öðrum í kringum hana.

Eitthvað fékk hana til að velta því fyrir sér hvort það væri eðlilegt að ganga með bækur á sér hvert sem var farið. Hvort það væri eðlilegt að vera með bók innanklæða eða í veskinu öllum stundum. Þegar þessar vangaveltur spruttu upp gekk hún með Góða dátann Svejk innanklæða á skólasetningarathöfn Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Góði dátinn var innbundin bók og fremur óhentug innanklæða.

Yndislestri hrakaði ört næstu árin, samfara meiri lestri á skólabókum. En nú liggur svo við að skólagöngu er lokið og yndislesturinn óðum að hefjast aftur eftir langa dvöl. Katrín les mikið af barna- og ungmennabókum enda er lesið fyrir börnin á hverju kvöldi. Einnig slæðist ein og ein skáldsaga inn á milli.

Katrín er búsett á Akranesi ásamt þremur sonum, tveimur köttum og einum eiginmanni. Hún vinnur sem verslunarstjóri í Pennanum Eymundsson á Akranesi og sinnir eigin verkefnum í frítíma sínum ásamt því að lesa og skrifa um bækur.

katrinlilja [hjá] lestrarklefinn.is

Kristín Björg Sigurvinsdóttir

Kristín Björg útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2018. Hún er mikill bókaormur og hefur verið nánast alla tíð. Fyrir tíu ára aldurinn heillaði lestur hana reyndar lítið en eins og margir lestrarhestar vita þá þurfti bara réttu bókina til að kveikja áhugann. Síðan það gerðist hefur hún verið með nefið á bólakafi ofan í bókum, bókstaflega. Þegar hún fær nýjar bækur í hendurnar veit hún fátt betra en að opna þær, fletta og anda að sér góða bóka ilminum áður en lesturinn hefst.

Spennandi ævintýrabækur og vísindaskáldsögur eru í miklu uppáhaldi hjá henni en hún les einnig talsvert af barna- og ungmennabókum. Kristín ákvað nýlega að láta drauminn um að skrifa bækur rætast og fyrsta skáldsaga hennar kemur út árið 2020. Kristín Björg býr í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt eiginmanni sínum og syni og bonsai trénu Hreggviði.

Lilja Magnúsdóttir

Lilja er Selfyssingur, fjögurra barna móðir og skólavörður skólabókasafnsins í Grundarfirði. Hún hefur alltaf haft þráhyggju fyrir bókum, á erfitt með að leggja bók frá sér sem hún byrjar að lesa og þegar hún var krakki var henni skammtaður tími til lestrar. Hún var 11 ára þegar hún fékk fyrstu ástarsöguna í jólagjöf en það var bókin Systurnar eftir Danielle Steel. Móðir hennar tók bókina og faldi, þar sem henni fannst barnið of ungt til að sökkva sér niður í ástarsögur. Það sem móðir hennar hinsvegar vissi ekki var að Lilja hafði þá þegar laumast til að lesa allar ástarsögur Ingibjargar Sigurðardóttur sem og Dalalíf Guðrúnar frá Lundi sem prýddu bókahillur heimilisins.

Lilja er alæta á bækur, þó ævisögur og spennusögur séu kannski síst í uppáhaldi. Fyrir nokkrum árum vann hún í Bókakaffinu á Selfossi en fékk lítið útborgað um hver mánaðarmót sökum hárra úttekta í fornbókadeild verslunarinnar. Bókahillur heimilisins eru því löngu sprungnar og bókakassarnir í bílskúrnum farnir að breiða úr sér.

Fyrir þremur árum stofnaði Lilja leshóp í Grundarfirði sem nú telur um fimmtán konur og hittast þær mánaðarlega allt árið um kring. Þeirra markmið er ekki aðeins lestur alls kyns bóka heldur hafa þær lagt sitt að mörkum til að efla yndislestur barnanna í samfélaginu í Grundarfirði og gáfu þær grunnskólanum farandbikar sem er afhentur ár hvert þeim bekk sem hefur staðið sig best í lestri undanfarinn vetur.

Halldór Laxness er í sérlegu uppáhaldi hjá Lilju, hún er yfirleitt með bók eftir hann á náttborðinu til að grípa og Íslandsklukkan er sú bók sem hún hefur oftast lesið enn sem komið er.

 

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Ragnhildur er menntuð sem sagnfræðingur og sérhæfir sig í miðöldum. Hún hefur starfað við hitt og þetta og skrifað tvær fantasíubækur, Koparborgina (2015) og Villueyjar (2019). Sem barn og unglingur las hún mjög mikið af allskonar bókum og tekst því oft að bregða upp þeirri blekkingarmynd að hún sé afar víðlesin, þó hún hafi í raun fátt lesið síðastliðin 15 árin annað en unglingabækur og glæpasögur. Á meðan hún les á hún það til að gleyma því að persónur bókarinnar séu ekki til í alvörunni og fær því oft jafn sterkar skoðanir á hegðun þeirra, innræti og örlögum eins og þær væru fólk af holdi og blóði.

 

Rebekka Sif Stefánsdóttir

Rebekka Sif er söngkona, bókaormur með meiru og aðstoðarritstjóri Lestrarklefans. Hún hefur lokið B.A. prófi í almennri bókmenntafræði og stundar nú meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Tónlistin og ritstöfin hafa heillað hana frá því í barnæsku og ákvað hún fimm ára gömul að hún myndi verða söngkona og rithöfundur. Það má segja að hennar fyrsta ljóðabók hafi komið út í tónlistarformi þegar hún gaf út plötuna sína „Wondering“ haustið 2017. Það sem tengir þessar greinar saman eru auðvitað orðin, hvort sem þau eru sungin, lesin eða skrifuð.

Hefðbundinn dagur í lífi Rebekku hefst með smiðjum eða bókmenntafræðilegum námskeiðum uppi í Háskóla, þaðan skýst hún um bæinn til að kenna ungum sem öldnum söng ásamt því að koma fram sjálf af og til. Á kvöldin les hún og skrifar (þegar frestunaráráttan heltekur hana ekki) og svo horfir hún á Netflix þegar syfjan tekur yfir. Goodreads er hennar uppáhalds samfélagsmiðill, en þar er best að setja sér lestarmarkmið fyrir árið og forvitnast um lestur annarra. Í desember má sjá hana glugga í bækur jólabókaflóðsins í Eymundsson á Laugavegi þar sem vinnur yfir hátíðirnar á milli þess sem hún stekkur til að syngja á jólatónleikunum hér og þar.

Rebekka hefur yfirumsjón með Rithorni Lestrarklefans.

rebekkasif [hjá] lestrarklefinn.is

Sigurþór Einarsson

Sigurþór er framhaldsskólakennari í íslensku sem hefur frá unga aldri haft mikið yndi á bóklestri. Hann gleymdi sér oft (og gleymdist) í heilu afmælisveislunum sem barn þar sem hann hafði fundið eina góða innbundna og fannst í lok veislunnar einn úti í horni með bók sem hann ætlaði að fá lánaða með heim til að klára. Hann fékk mikla útrás fyrir bókhneigð sína í gegnum íslenskunám sitt í Háskóla Íslands en þar skrifaði hann bæði Bachelor- og meistararitgerð sína um bókmenntir. Eftir því sem árin færðust yfir varð Sigurþór bókasnobb og les yfirleitt ekki hvað sem er. Lestur hans einskorðast aðallega við fagurbókmenntir og svo sápuóperur sem hafa verið til nægilega lengi til að þær séu flokkaðar sem klassísk verk.

 

Sjöfn Hauksdóttir er ljóðskáld og myndlistamaður. Hún er með B.A. og M.A. gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og hefur sérstakt dálæti á leikritum, spennusögum og bandarískum fagurbókmenntum. Hún elskar samtvinnun mismunabreyta, strúktúralískan marxisma og síðnýlendufræði. Fyrsta ljóðabók Sjafnar kom út árið 2018 hjá Kallíópu og ber heitið Ceci n’est pas une ljóðabók. Vorið 2020 kom út önnur ljóðabók hennar, Úthverfa blús.

 

 

Sæunn Gísladóttir

Sæunn er hagfræðingur og ráðgjafi í þróunarsamvinnu sem hefur alltaf verið mikill lestrarhestur. Um stuttan tíma á unglingsárum nennti hún lítið að lesa bækur en þroskaðist sem betur fer hratt upp úr því.

Hún lauk málabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem mikil áhersla var lögð á góðar bókmenntir og tók á sömu önn yndislestur í bæði íslensku og ensku því henni fannst algjör forréttindi að fá einingar fyrir þetta áhugamál sitt.

Sæunn er alæta á bækur en góðar glæpasögur og skáldsögur sem gerast í veröld sem hún gæti hugsað sér að búa í eru í miklu uppáhaldi. Uppáhalds bókin hennar er venjulega sú sem hún hefur í höndum að hverju sinni en vill ekki að klárist.

Hún elskar að eiga fallegar bækur og er markmið hennar að eiga við ævilok svipað bókasafn og Dýrið í Fríða og dýrið.

 

Victoria Bakshina

Victoria er menntaður tungumálakennari og málvísindafræðingur frá Rússlandi. Hún er einnig eilífðarstúdent og tungumálanörd sem reynir nú að ljúka MA í þýðingafræði og kínversku.

Lífið og bækurnar hjá henni haldast í hendur. Mamma kenndi Victoriu að lesa þegar hún var aðeins þriggja ára og maður gat ekki spáð fyrir um hversu mikil áhrif bækur myndu hafa í lífi hennar. Yfirgaf hún leikskólann og kom aldrei aftur? Já, vegna þess að leikskólakennarinn bannaði henni að lesa og neyddi hana til að fara að sofa. Jæja, hún hafði þá allan tímann í lestrarkróknum sínum í foreldravinnunni þangað til það var kominn tími til að fara í skólann.

Ástæðan fyrir því að hún var barin illa í fyrsta skipti? Vegna þess að einhver óþekkur strákur gagnrýndi alfræðiorðabókina hennar um skordýr sem hún dáðist að þegar hún var átta ára.

Victoria les á tæplega tylft tungumála og henni finnst gaman að lesa dystópíur og ljóð, líka bækur sem fjalla um óþægileg málefni eins og áföll og dauða. Hún finnur fyrir sérstakri tengingu við íslenskar bókmenntir þar sem þær endurvöktu ástríðu hennar að lesa eftir að hún hætti næstum því að eilífu eftir að faðir hennar lést árið 2016.

Þegar hún er ekki að kenna rússnesku í háskólanum eða íslensku í tungumálaskóla, eða þýða fyrir Stúdentablaðið, eða skrifa umsagnir um íslenskar skáldsögur eða kvikmyndir fyrir rússneska útgefendur, eða ná tökum á nýju tungumáli, finnst henni gaman að borða góðan mat eða skella sér í handavinnu, eins og að krosssauma, með bestu vinum sínum. Hún býr í Vesturbæ með svartasta ketti í heimi, Myrkva.

Þorsteinn Vilhjálmsson

Þorsteinn er fornfræðingur sem þýðir að hann kann bæði latínu og grísku. Hann les þó töluvert meira af bókum á núlifandi tungumálum. Hann býr svo illa að vera giftur Ragnhildi, sem einnig skrifar fyrir Lestrarklefann og hefur leitt hann út á þessa vafasömu braut í lífinu. Árið 2018 gaf hann út bókina Hundakæti. Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881-1884. Þorsteinn velur sér gjarnan þungar bækur með fræðilegu ívafi. Ótrúlegt en satt klárar hann ekki nema lítinn hluta þeirra bóka sem hann byrjar á.

Hits: 487