Áhöfnin

Anna Margrét Björnsdóttir

Anna Margrét er menntuð á sviði ensku, með bókmenntaáherslu. Hún lauk námi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og starfar í hjáverkum sem sjálfstætt starfandi þýðandi. Þýðingar hennar á tveimur skáldsögum komu út árin 2012 og 2013.

Sem barn var hún afskaplega mikið fyrir bækur, raunar svo mikið að hátíðlegasti dagur ársins var þegar Bókatíðindi komu í hús fyrir jólin. Þau voru lesin spjaldanna á milli og merkt við allar álitlegustu bækurnar, sem komu síðan annað hvort upp úr pökkunum á aðfangadagskvöld eða voru fengnar að láni á bókasafninu um leið og janúar gekk í garð.

Sem fullorðinn bókaormur hefur hún sætt sig við þá lykilstaðreynd lífsins að öll húsgögn eru fyrst og fremst geymslustaðir fyrir bunka af bókum sem stendur til að lesa.

 

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir

Erna hugsar hratt og ferðast hratt. Einu sinni sá hún mjög illa en núna sér hún mjög vel. Hún þolir illa lyktina af ánamöðkum en elskar lyktina af antíkhúsgögnum og dóttur sinni. Hún er með afar þroskaða bragðlauka þótt hún segi sjálf frá og fúlsar bara við illa elduðum mat sem hún veit að á betra skilið; meiri hvítlauk og dass af límónusafa.

Annars elskar hún góðgæti og huggulegheit og finnst voðalega ljúft að detta í eina og eina og helst fleiri en eina bók við hvert tækifæri. Hún elskar sögur og finnst gaman að segja þær. Skemmtilegastar þykja henni lygasögur en það er önnur saga. Pabbi hennar kallar hana verkamann í aldingarði Guðs og hver veit nema hún sé það. Kannski er hún bara allt og ekkert. Hún er allavega ekki alveg búin að taka ákvörðun í lífnu og kannski gerir hún það aldrei. En núna, akkúrat núna; hér og nú er hún búin að bóka ferð með Lestrarklefanum.

Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir

Fanney Hólmfríður ólst upp á sveitabænum Brúnum í Eyjafjarðarsveit ásamt sjö eldri systkinum sínum, kindum, kúm, hænsnum og köttum. Gúmmístígvél, mykja og heyskapur á sumarnóttum eru stór partur af hennar persónuleika – hún er og verður alltaf norðlenskur bóndadurgur inn við beinið með svartan húmor og harðan framburð.

Fjölskylda Fanneyjar er bókhneigð og áttu foreldrar hennar ágætt safn bóka í hansahillum sem þöktu heilan vegg á æskuheimilinu. Þar var í sérstöku uppáhaldi hjá Fanneyju þjóðsagnasafn Ólafs Davíðssonar, Íslenzkar þjóðsögur, en sem krakki las hún bindið sem innihélt draugasögur spjaldanna á milli og fengu bekkjarsystkini hennar hana stundum til að endursegja sér þær með slökkt ljós og dregið fyrir glugga ef færi gafst.

Fanney var eitt þeirra fárra barna sem hafði ánægju af því að læra ljóð utan að í skóla. Á meðan bekkjarfélagar hennar höfðu ekki nógu sterk lýsingarorð yfir hversu leiðinlegt þeim þótti þessi skylda, fagnaði Fanney því leynt með sjálfri sér. Þegar hún fékk barnaljóðabókina Heimskringla eftir Þórarinn Eldjárn í gjöf á sjö ára afmælisdaginn sinn kolféll hún fyrir ljóðlistinni. Bókina les hún enn fyrir börnin sín tvö og hefur ekki síður gaman af en þau.

Fanney er menntuð sem sagnfræðingur og menningarmiðlari og hefur síðastliðið ár stundað nám í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Eftir nær aldarfjórðungs útlegð frá sveitarlífinu má segja að hún sé að nokkru leyti komin í sveitina aftur en hún býr á Álftanesinu ásamt manni sínum og börnum.

 

Katrín Lilja Jónsdóttir

Katrín er sagnfræðingur og blaðakona sem hefur frá unga aldri setið með nefið ofan í bók. Það var henni eðlilegt. Hún trúði því að jafnaldrar hennar hefðu sömu hneigingu til bóka og það var ekki fyrr en á sextánda aldursári sem hún gerði sér grein fyrir að ef til vill var lesturinn ekki eins eðlislægur öðrum í kringum hana.

Eitthvað fékk hana til að velta því fyrir sér hvort það væri eðlilegt að ganga með bækur á sér hvert sem var farið. Hvort það væri eðlilegt að vera með bók innanklæða eða í veskinu öllum stundum. Þegar þessar vangaveltur spruttu upp gekk hún með Góða dátann Svejk innanklæða á skólasetningarathöfn Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Góði dátinn var innbundin bók og fremur óhentug innanklæða.

Yndislestri hrakaði ört næstu árin, samfara meiri lestri á skólabókum. En nú liggur svo við að skólagöngu er lokið og yndislesturinn óðum að hefjast aftur eftir langa dvöl. Katrín les mikið af barna- og ungmennabókum enda er lesið fyrir börnin á hverju kvöldi. Einnig slæðist ein og ein skáldsaga inn á milli.

Katrín er búsett á Akranesi ásamt þremur sonum, tveimur köttum og einum eiginmanni. Hún vinnur sem lausablaðamaður og sinnir eigin verkefnum í frítíma sínum ásamt því að lesa og skrifa um bækur.

 

Lilja Magnúsdóttir

Lilja er Selfyssingur, fjögurra barna móðir og skólavörður skólabókasafnsins í Grundarfirði. Hún hefur alltaf haft þráhyggju fyrir bókum, á erfitt með að leggja bók frá sér sem hún byrjar að lesa og þegar hún var krakki var henni skammtaður tími til lestrar. Hún var 11 ára þegar hún fékk fyrstu ástarsöguna í jólagjöf en það var bókin Systurnar eftir Danielle Steel. Móðir hennar tók bókina og faldi, þar sem henni fannst barnið of ungt til að sökkva sér niður í ástarsögur. Það sem móðir hennar hinsvegar vissi ekki var að Lilja hafði þá þegar laumast til að lesa allar ástarsögur Ingibjargar Sigurðardóttur sem og Dalalíf Guðrúnar frá Lundi sem prýddu bókahillur heimilisins.

Lilja er alæta á bækur, þó ævisögur og spennusögur séu kannski síst í uppáhaldi. Fyrir nokkrum árum vann hún í Bókakaffinu á Selfossi en fékk lítið útborgað um hver mánaðarmót sökum hárra úttekta í fornbókadeild verslunarinnar. Bókahillur heimilisins eru því löngu sprungnar og bókakassarnir í bílskúrnum farnir að breiða úr sér.

Fyrir þremur árum stofnaði Lilja leshóp í Grundarfirði sem nú telur um fimmtán konur og hittast þær mánaðarlega allt árið um kring. Þeirra markmið er ekki aðeins lestur alls kyns bóka heldur hafa þær lagt sitt að mörkum til að efla yndislestur barnanna í samfélaginu í Grundarfirði og gáfu þær grunnskólanum farandbikar sem er afhentur ár hvert þeim bekk sem hefur staðið sig best í lestri undanfarinn vetur.

Halldór Laxness er í sérlegu uppáhaldi hjá Lilju, hún er yfirleitt með bók eftir hann á náttborðinu til að grípa og Íslandsklukkan er sú bók sem hún hefur oftast lesið enn sem komið er.

 

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Ragnhildur er menntuð sem sagnfræðingur og sérhæfir sig í miðöldum. Hún hefur starfað við hitt og þetta og árið 2015 gaf hún út fantasíubókina Koparborgina. Sem barn og unglingur las hún mjög mikið af allskonar bókum og tekst því oft að bregða upp þeirri blekkingarmynd að hún sé afar víðlesin, þó hún hafi í raun fátt lesið síðastliðin 15 árin annað en unglingabækur og glæpasögur. Á meðan hún les á hún það til að gleyma því að persónur bókarinnar séu ekki til í alvörunni og fær því oft jafn sterkar skoðanir á hegðun þeirra, innræti og örlögum eins og þær væru fólk af holdi og blóði.

 

Rebekka Sif Stefánsdóttir

Rebekka Sif er söngkona og bókaormur með meiru. Hún hefur lokið B.A. prófi í almennri bókmenntafræði og stundar nú meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Tónlistin og ritstöfin hafa heillað hana frá því í barnæsku og ákvað hún fimm ára gömul að hún myndi verða söngkona og rithöfundur. Það má segja að hennar fyrsta ljóðabók hafi komið út í tónlistarformi þegar hún gaf út plötuna sína „Wondering“ haustið 2017. Það sem tengir þessar greinar saman eru auðvitað orðin, hvort sem þau eru sungin, lesin eða skrifuð.

Hefðbundinn dagur í lífi Rebekku hefst með smiðjum eða bókmenntafræðilegum námskeiðum uppi í Háskóla, þaðan skýst hún um bæinn til að kenna ungum sem öldnum söng ásamt því að koma fram sjálf af og til. Á kvöldin les hún og skrifar (þegar frestunaráráttan heltekur hana ekki) og svo horfir hún á Netflix þegar syfjan tekur yfir. Goodreads er hennar uppáhalds samfélagsmiðill, en þar er best að setja sér lestarmarkmið fyrir árið og forvitnast um lestur annarra. Í desember má sjá hana glugga í bækur jólabókaflóðsins í Eymundsson á Laugavegi þar sem vinnur yfir hátíðirnar á milli þess sem hún stekkur til að syngja á jólatónleikunum hér og þar.

Sigurþór einarsson

Sigurþór er framhaldsskólakennari í íslensku sem hefur frá unga aldri haft mikið yndi á bóklestri. Hann gleymdi sér oft (og gleymdist) í heilu afmælisveislunum sem barn þar sem hann hafði fundið eina góða innbundna og fannst í lok veislunnar einn úti í horni með bók sem hann ætlaði að fá lánaða með heim til að klára. Hann fékk mikla útrás fyrir bókhneigð sína í gegnum íslenskunám sitt í Háskóla Íslands en þar skrifaði hann bæði Bachelor- og meistararitgerð sína um bókmenntir. Eftir því sem árin færðust yfir varð Sigurþór bókasnobb og les yfirleitt ekki hvað sem er. Lestur hans einskorðast aðallega við fagurbókmenntir og svo sápuóperur sem hafa verið til nægilega lengi til að þær séu flokkaðar sem klassísk verk.

Sæunn Gísladóttir

Sæunn er hagfræðingur og ráðgjafi í þróunarsamvinnu sem hefur alltaf verið mikill lestrarhestur. Um stuttan tíma á unglingsárum nennti hún lítið að lesa bækur en þroskaðist sem betur fer hratt upp úr því.

Hún lauk málabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem mikil áhersla var lögð á góðar bókmenntir og tók á sömu önn yndislestur í bæði íslensku og ensku því henni fannst algjör forréttindi að fá einingar fyrir þetta áhugamál sitt.

Sæunn er alæta á bækur en góðar glæpasögur og skáldsögur sem gerast í veröld sem hún gæti hugsað sér að búa í eru í miklu uppáhaldi. Uppáhalds bókin hennar er venjulega sú sem hún hefur í höndum að hverju sinni en vill ekki að klárist.

Hún elskar að eiga fallegar bækur og er markmið hennar að eiga við ævilok svipað bókasafn og Dýrið í Fríða og dýrið.

Hits: 165