Ritstjóri Lestrarklefans

Katrín er sagnfræðingur og blaðakona sem hefur frá unga aldri setið með nefið ofan í bók. Það var henni eðlislægt. Hún trúði því að jafnaldrar hennar hefðu sömu hneigingu til bóka og það var ekki fyrr en á sextánda aldursári sem hún gerði sér grein fyrir að ef til vill var lesturinn ekki eins eðlislægur öðrum í kringum hana.

Þá vöknuðu spurningar um það hvort það þætti eðlilegt að ganga með bækur á sér hvert sem var farið. Hvort það væri eðlilegt að vera með bók innanklæða eða í veskinu öllum stundum? Þegar þessar vangaveltur spruttu upp gekk hún með Góða dátann Svejk innanklæða á skólasetningarathöfn Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Góði dátinn var innbundin bók og fremur óhentug innanklæða.

Yndislestri hrakaði ört næstu árin, samfara meiri lestri á skólabókum. En nú er skólagöngu loksins lokið og yndislesturinn óðum að hefjast aftur eftir langa dvöl. Katrín les mikið af barna- og ungmennabókum enda er lesið fyrir börnin á hverju kvöldi. Einnig slæðist ein og ein skáldsaga inn á milli.

Katrín er búsett á Akranesi ásamt þremur sonum, tveimur köttum og einum eiginmanni. Hún vinnur sem lausablaðamaður og sinnir eigin verkefnum í frítíma sínum ásamt því að lesa og skrifa um bækur.

katrinlilja [hjá] lestrarklefinn.is

 

Aðstoðarritstjóri Lestrarklefans

Rebekka Sif Stefánsdóttirer söngkona, bókaormur með meiru og aðstoðarritstjóri Lestrarklefans. Hún hefur lokið B.A. prófi í almennri bókmenntafræði og stundar nú meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Tónlistin og ritstöfin hafa heillað hana frá því í barnæsku og ákvað hún fimm ára gömul að hún myndi verða söngkona og rithöfundur. Það má segja að hennar fyrsta ljóðabók hafi komið út í tónlistarformi þegar hún gaf út plötuna sína „Wondering“ haustið 2017. Það sem tengir þessar greinar saman eru auðvitað orðin, hvort sem þau eru sungin, lesin eða skrifuð.

Hefðbundinn dagur í lífi Rebekku hefst með smiðjum eða bókmenntafræðilegum námskeiðum uppi í Háskóla, þaðan skýst hún um bæinn til að kenna ungum sem öldnum söng ásamt því að koma fram sjálf af og til. Á kvöldin les hún og skrifar (þegar frestunaráráttan heltekur hana ekki) og svo horfir hún á Netflix þegar syfjan tekur yfir. Goodreads er hennar uppáhalds samfélagsmiðill, en þar er best að setja sér lestarmarkmið fyrir árið og forvitnast um lestur annarra. Í desember má sjá hana glugga í bækur jólabókaflóðsins í Eymundsson á Laugavegi þar sem vinnur yfir hátíðirnar á milli þess sem hún stekkur til að syngja á jólatónleikunum hér og þar.

rebekkasif [hjá] lestrarklefinn.is

Hits: 626