Tinna Rós Þorsteinsdóttir

Ég var átta ára þegar ég fékk bók í jólagjöf frá afa og vonbrigði mín voru örugglega sýnileg. Bókin var með nærri engum myndum og jafn þykk og konfektkassinn sem hinn afi minn hafði gefið mér. 

Á annan í jólum var ég aðframkomin af leiðindum. Sjónvarpið var bara fyrir fullorðna fólkið, engar búðir opnar, vinir mínir gátu ekki leikið vegna jólaboða og ekki var hægt að fara út vegna veðurs.
Ég hef eflaust stunið og vælt út í eitt því að mamma mín skipaði mér fyrir að nú ætti ég að setjast í sófann og lesa bókina frá afa.
Kvartandi, með konfektkassann í fanginu og Frumskógardrenginn Njagwe í hönd, byrjaði ég treglega lesturinn. Og þvílíkur lestur!
Ég held að ég hafi ekki borðað kvöldmat og ég man að mamma reyndi að fá mig til að leggja söguna frá mér þegar allir voru farnir að sofa, en ég gat það alls ekki. Ég hætti ekki fyrr en yfir lauk.

Það kætir mig fátt eins mikið og góð skáldsaga. Og það spillir ekki fyrir ef hún inniheldur heimshornaflakk, spennandi ráðgátur eða jafnvel smá galdra og ævintýri.
Ekkert jafnast  á við vel valda jólabók og konfektkassa.

Ég hef safnað barnabókum alla tíð og elska fallegar myndskreyttar bækur. Ég lærði myndlist og ætla einn daginn að verða myndskreytir.
Ég er í draumastarfi sem bókavörður þar sem ég tala um bækur og lestur alla daga.
Það er alltaf áhugavert að sjá hvaða bókum lánþegar skila. Þegar ég geng frá þeim í hillu les ég bakhliðina og þannig finn ég oft næstu bók til að lesa.

Hobbitan hef ég lesið einu sinni á ári síðastliðin 17 ár og mun gera um ókomna tíð.