Á bókakápu segir:
Eldri hjón eru áhyggjufull vegna dótturdóttur sinnar. Þau vita að hún hefur verið að smygla fíkniefnum og nú er hún týnd svo þau leita til Konráðs, fyrrverandi lögreglumanns, sem þau þekkja af afspurn. Konráð er með hugann við annað og stöðugt að grufla í örlögum föður síns sem var stunginn til bana fyrir mörgum áratugum. En þegar kafað er ofan í fortíðina kemur fleira í ljós en leitað var að og lítil stúlka sem drukknaði í Reykjavíkurtjörn fangar óvænt athyglina.

Ég viðurkenni strax að ég hef bara lesið eina bók eftir Arnald af því að mér var sagt að gera það í framhaldsskóla. En ekki taka því sem fordómum í hans garð heldur er ástæðan fordómar mínir gagnvart öllu íslensku efni hvort sem það eru bókmenntir, leikið efni eða jafnvel tónlist! En þessir fordómar mínir eru endemis vitleysa sem ég hef verið að streytast á móti í áratugi, því að þetta er örugglega vísindalega sönnuð þvæla í mér. Íslenskt efni er verðlauna efni!
Núna er ég komin á þann aldur, án þess að hafa tekið eftir því, að ég á krakka sem gengur í þennan sama framhaldsskóla. Og viti menn hann er látinn lesa Grafarþögn alveg eins og ég. Ég las bókina aftur til að geta verið honum innan handar með verkefnið, og komst að því að sagan hafði setið eftir í kollinum á mér. Það var einstaklega gaman að tala um bókina við son minn, því að ég fæ afar fá tækifæri til að tala við hann um annað en tölvuleiki og Star Trek sem eru hlutir sem ég bara fæ mig ekki til að skilja.
Það var undarlega skemmtilegt að lesa hana aftur.

Ég vel að lesa nýju bókina einmitt afþví að ég er nýbúin að lesa Grafarþögn. En röddin í hausnum mínum benti mér á að tugir bóka hefðu komið út eftir Arnald. “Ætlar þú að dýfa þér í bókina bara si svona? En hvað ef þú þarft að lesa fyrri bækur til að skilja haus frá sporði?” Efinn minn sendi mig beint til Google sem var svo vænn að segja mér að aðalpersóna bókarinnar hafi fyrst birst í bókum Arnaldar í fyrra, í bókinni Myrkrið veit. Ég var á báðum áttum hvort ég yrði að byrja á henni. En ákvað svo að þess þyrfti sennilega ekki. Í þessum krimmum er yfirleitt alltaf framinn nýr glæpur ótengdur fyrri bók en með rauðum undirliggjandi þræði úr fortíð aðalpersónunnar, sem er yfirleitt lögga, og skýtur upp kollinum til að ásækja hana í nútíð. Ég ákvað að með því að lesa Stúlkuna hjá brúnni, án þess að lesa Myrkrið veit, yrði eins og að setjast niður að borðspili en kunna ekki leikreglurnar heldur treysta á að hinir leikmennirnir myndu útskýra þær fyrir mér jafnóðum. Ég ákvað að treysta Arnaldi til að fylla fyrir mig í eyðurnar.

Stúlkan hjá brúnni.

Bókin hefst á því að ungur maður, verðandi skáld, stendur á brúnni yfir tjörninni í Reykjavík. Hann kemst varla ferða sinna með öllum sínum ljóðræna þankagangi þegar hann sér dúkku fljótandi rétt undir yfirborðinu. Hann finnur sig knúinn til að hripa niður með sjálfblekungnum sínum í skrifblokk öll þau hughrif sem þessi sýn veldur honum. En þegar hann ætlar að halda ferð sinni áfram snýst honum hugur. Hann ákveður að veiða leikfangið uppúr, ef ske kynni að eigandinn reyndi að finna hana síðar, en þá sér hann að meira flýtur í tjörninni en bara dúkkan.
Þetta eru fyrstu þrjár síðurnar í bókinni og ég ætlaði ekki að sleppa henni eftir þetta. Í næsta kafla er okkur jafnvel boðið að trúa á drauga!

Konráð er viðkunnalegur fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem kominn er á eftirlaun. Hann er í góðu sambandi við son sinn og barnabörn en hefur nýlega misst eiginkonu sína. Það sem styttir honum stundir eru gamlar skýrslur og blaðaúrklippur um dularfullt morð á föður hans, og reynir hann að hafa uppi á öllum þeim sem gætu varpað nýju ljósi á það mál. Hann flækist skyndilega í mál hjónanna sem týnt hafa dótturdóttur sinni og miðils sem telur sig þurfa að leysa dularfullt mál drukknaðrar stelpu úr fortíðinni.

Ég hef algert yndi af því að lesa hverja persónu sem kynnt er til sögunnar. Lýsingar Arnalds geta verið stuttar en svo göldróttar að hann þarf ekki nema eina málsgrein til að þú vitir nákvæmlega hverskyns manneskja er þar á ferð.
Í bókinni varð ég ekkert vör við óþarfa persónur, litlar eða stórar, allar höfðu sínu mikilvæga hlutverki að gegna. Takið eftir þeim persónum sem birtast bara í flugu mynd en hafa oft svo mikið að segja þegar púsla á saman stóru myndina.
Allir sem gegna hlutverki skúrks, eða eru að jafnaði fífl í lífinu, virðast fá höfuðáverka í sögunni. Glæpamennirnir eru nærri alltaf aulalegir í háttum sem þeir ættu svo sem að vera.
Aðgerðir lögreglunnar eru mestan part mjög trúlegar en stundum held ég að hún Marta, sem er í stóru hlutverki sem rannsóknarlögreglukona og fyrrum samstarfsmaður Konráðs, láti hann fá of mikinn aðgang að fíkniefnamálinu þótt hann hafi flækst inn í það fyrir tilviljun.
Einnig fannst mér Konráð skipta sér of mikið af því, þegar við fáum að vita með hans eigin orðum að hann vill alls ekkert vera blandaður í það.

En hvað veit ég hvað rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum vill í raun gera við sinn frítíma? Í byrjun sögunnar var ég búin að telja fjögur kvöld þar sem hann var einn heima með rauðvíni en því meira sem hann flæktist í málið um stúlkuna í tjörninni hafði hann víst enga þörf til þess. Eygló, sem er miðillinn, heldur honum uppteknum og stundum fær maður þá tilfinningu að þau heyri í hvort öðru á kvöldin bara til að hittast.
Þau eru tengd í gegnum feður þeirra og þar hrekkur upp þessi rauði krimma þráður sem mun færa okkur nær örlagaríka kvöldinu þar sem faðir Konráðs var myrtur árið 1963.

Samtölin í allri sögunni eru dásamlega áreynslulaus og trúleg, sem er afskaplegt hrós frá mér þar sem ég get stundum fengið gæsahúð af einskærum kjánahrolli. Konráð var samt spurður af hverri einustu persónu “afhverju hann væri að forvitnast þetta” svo ég var farin að ergja mig á því.
En yfir það heila þá elska ég þessa bók.  Fléttan er vel ofin og spennandi. Hún verður aldrei of æsileg né látin hanga í leiðindum. Hún sýnir ljótu hliðarnar en fer ekki í allan þann hrylling sem aðrir krimmar gera.
Ég vil dásama frásögn Arnaldar og þakka virkilega vel skrifaðan texta og skemmtilegt val orða og orðatiltækja eins og; að lempa, reri fram í gráðið, haska sér, svartagallsraus, vansvefta, krakað í og það besta ,í sinni dópkæfu, en það fékk mig til að hlæja upphátt!

Ég mæli eindregið með bókinni og hlakka til að rökræða við alla reyndu Arnalds-lesarana á safninu um hvað þeim fannst!
Einnig mun ég beita mér allri til að fá bókaklúbbinn minn til að lesa þessa bók á næsta fundi því það eru nokkur atriði sem ég þarf að ræða sem ég get ekki opinberað hér, í hættu á að “Spoil-a”, og ræða þá sérstaklega atriðið þar sem ég tel mig hafa fundið villu í samfelldni söguþráðar*!

*Eða þú heyrir bara í mér sjálfur Arnaldur 😉

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...