Homo sapína – Samkynhneigt Grænland

Myndin á kápunni heimtar athygli lesandans og er eitthvað svo skemmtilega stuðandi. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara að lesa en grænlenska konan sem situr svo groddaleg framan á kápunni, nakin, borðandi banana, eins og ekkert annað komi henni við, gjörsamlega öskrar á athygli. Forvitnin var vakin, ég varð að lesa hana. Ég komst svo seinna að því að fyrirsætan á bókakápunni er höfundur bókarinnar, Niviaq Korneliussen sjálf. Homo sapína var valin í bókaklúbbnum mínum. Bókaklúbbar eru frábærir til að fá mann til að lesa bækur sem maður hefði alla jafnan ekki valið að lesa sjálfur. Bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2015.

Homo sapína fjallar um fimm unga Grænlendinga í Nuuk. Fíu, sem þolir ekki kærastann sinn og kemst að því, eftir að hún kynnist Söru, að hún sé lesbía. Inuk bróður Fíu, sem líklega er hommi sjálfur og glímir við sjálfsmynd sína sem hommi og Grænlendingur. Arnaq, lesbíu sem var misnotuð af föður sínum og deyfir sig með áfengi og kynlífi. Inuk sem er kærasta Söru og glímir við annars konar vandamál. Að lokum er það Sara, sem hefur misst lífsviljan þar til hún verður vitni að fæðingu systurdóttur sinnar.

Korneliussen byrjar bókina á svakalegum æðibunugangi, munnræpu Fíu. Fía er ósátt í sínu sambandi og það fer ekki framhjá lesandanum. Stíllinn er ekki til að laða mann að því að lesa bókina, ég varð þreytt, pirruð og hefði mögulega hætt að lesa hana þarna ef ekki hefði verið fyrir kvöðina sem hvíldi á mér vegna bókalúbbsins. Það eru fáir punktar á milli setninga í munnræpunni, ef nokkrir. Ég man það ekki alveg. Örvæntingin er áþreifanleg og skyndilega varð æðibunugangurinn skiljanlegur. Korneliussen nær að koma til skila ótrúlegri örvæntingu sem litar eiginlega alla bókina. Hver einasta persóna hefur þó sinn stíl og sína rödd.

Persónurnar í bókinni tengjast allar á einu kvöldi á skemmtistað í Nuuk, eins konar örlagakvöldi. Kvöldið sem Fía sá Söru. Þótt stíllinn í bókinni verði örlítið auðveldari, umberanlegri,  eftir því sem líður á bókina þá er hann alltaf svolítið óþægilegur og það er sjarminn við bókina. Hún hlýfir ekki lesandanum við því sem er óþægilegt. Þegar maður er að lesa bókina þá vill maður alltaf meira. Ég þráði að heyra af næstu persónu í bókinni, en þegar kom að skiptunum þá vildi ég ekki hætta að lesa um hina.

Örlagakvöldið  í Nuuk

Lýsingar af fylleríi, vodkadrykkju, sígarettureykingum og subbulegu kynlífi. Djammið var skuggalega líkt djammi í Reykjavík, sérstaklega þegar fer að líða að morgni. Hreinskilnar lýsingar af ógeðslegri þynnku eftir djammið voru svo ekkert síðri. Aldrei hef ég áður lesið bók og fundist ég skítug eftir suma kaflana.

Korneliussen notast við textaskilaboð í frásögninni og skapar þannig stemmningu og færir bókina inn í nútímann. Einhvern veginn fannst mér líka dásamlegt að lesa um Grænland nútímans, því flestar bækur sem maður les um Grænland eru einhvers konar fræðibækur eða greinar um selaveiðar Grænlendinga. Um leið komst ég að því hve gríðarlega fáfróð ég er um Grænland.

Kannski hefði ég aldrei lesið þessa bók ótilneydd. Það hefði verið synd, því Homo sapína á allt lof skilið sem hún hefur fengið. Hún er hreinskilin bók um samkynhneigðar konur á Grænlandi, en samt svo miklu meira en það. Hún á ekki eingöngu erindi til samkynhneigðra (eins og ég held að sé stundum hættan með bækur sem fjalla um málefni samkynheigðra), heldur á hún erindi til allra bókaunnenda.

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...