Fimmta og síðasta Lestrarátak Ævars vísindamanns hófst í gær, 1. janúar, og stendur til 1. mars. Sú breyting er á þetta árið að bæði krakkar og fullorðinir geta tekið þátt. Nemendur í 1.-10. bekk taka þátt eins og venjulega og geta freistað þess að verða persónur í síðustu bókinni um bernskubrek Ævars sem verður risaeðlu-, geimveru-, ofurhetjubók.
Á heimasíðu sinni hvetur Ævar Þór alla til að taka þátt; unga sem aldna og krakka og fullorðna sem búa fyrir utan Ísland. Það er mikil nýjung að fullorðnum sé hleypt í lestrarátakið. „Það er ekki nóg að við tölum um að allir verði að lesa, heldur verðum við líka að sýna að við séum að lesa,“ segir Ævar í kynningarmyndbandi fyrir lestrarátak ársins.
Fimm krakkar og eitt foreldri verða dregin úr pottinum ásamt þeim skóla sem les hlutfallslega mest í átakinu og verða þau öll sett í síðustu bókina um bernskubrek Ævars vísindamanns sem kemur út næsta vor. Einnig verður dreginn út einn nemandi úr hverjum einasta skóla sem tekur þátt og mun hann eða hún fá sérstaka bókagjöf frá Ævari. „Þetta þýðir að það verður allavega einn sigurvegari í hverjum einasta skóla,“ segir á heimasíðu lestrarátaksins.
Reglurnar eru einfaldar:
- Lestu það sem þig langar að lesa.
- Þú mátt lesa hvaða bók sem er.
- Á hvaða tungumáli sem er.
- Hljóðbækur, eða ef einhver les fyrir þig, teljast líka með sem lesin bók.
Þegar bók hefur verið lesin hún skráð á lestrarmiða átaksins sem hægt er að nálgast hér sem og frekari upplýsingar. Lestrarklefinn hvetur að sjálfsögðu alla til að taka þátt í lestrarátakinu; krakka, mömmur, pabba, ömmur og afa.