Úlfur og Edda – Á flakki í Ásgarði

Hefðin er að sökkva sér í safaríka, brakandi ferska jólabók á jóladag. Eða svo er mér sagt. Ég sökkti mér í aftur á móti niður í spennandi barnabók sem er ekki glæný heldur hefur setið í hillunni hjá mér ólesin allt of lengi. Úlfur og Edda – Dýrgripurinn eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur er grípandi barnabók sem kom út árið 2015. Kristín Ragna myndskreytir bókina sjálf með skemmtilega líflegum myndum. Þriðja bókin í seríunni kom út fyrir jólin.

Þrátt fyrir að hafa setið í bókahillunni nokkuð lengi þá kallaði hún á mig, enda er ég með óseðjandi áhuga fyrir norrænum goðsögum. Bókin segir frá systkinunum Úlfi og Eddu sem eru eins og svart og hvítt. Þau verða fyrir því eitt sumarið að þurfa að flytja tímabundið út á land, í Skálholt, þar sem pabbi þeirra ætlar að töfra fram heillandi rétti fyrir starfsfólk staðarins (það er mjög skopleg lýsing í bókinni á því hvernig honum tekst til). Foreldrar systkinanna setja húsið í leigu, pakka niður öllu hafurtaski og rúnta út í sveit.

Svo kemur í ljós að dularfullir atburðir eiga sér stað í Skálholti og dýrgrip ömmu Eddu (sem er ofursvalur fornleifafræðingur) er rænt af óprúttnum ræningjum. Úlfur og Edda vilja að sjálfsögðu gera sitt til að hjálpa ömmu Eddu, sem er líka orðin undarlega gleymin. Rannsóknin leiðir þau niður í göng undir Skálholti  þegar þau eru að elta einn þrjótinn. Göngin leiða þau í Ásgarð, á vit ævintýra en líka hættu.

Edda er aðalpersónan í bókinni, þótt nafn Úlfs sé líka í bókartitlinum. Við fylgjumst frekar með för Eddu í bókinni þar sem Úlfur virðist hálf óþroskaður lítill bróðir sem veður úr einu í annað. Hann er sá sem drífur söguþráðinn áfram, kemur þeim í hættu, lætur ævintýrin gerast. Edda er rödd skynseminnar, áhugakona um vísindi og rannsóknir og á stundum erfitt með að þola þennan hvatvísa gorm sem bróðir hennar er.

Sagan er hröð og það er spenna á nær hverri blaðsíðu. Þótt sagan byrji hægt þá kemst hún á flug eftir um það bil fjórða kafla. Úlfur og Edda komast svo sannarlega í hann krappann í Ásgarði og hin mannlega breyskni goðanna fær að njóta sín í öllu sínu veldi. Enginn er al-góður, enginn er al-vondur. Kristín Ragna setur líka goðin í örlítið annan búning en áður hefur verið gert. Þór er latur en máttugur fylliraftur, Sif er langrækin og glysgjörn kona og Mímir er langorður, búklaus haus.

Mér fannst vanta fleiri myndir í bókina. Myndirnar hennar Kristínar Rögnu eru skemmtilegar og fallegar en allt of fáar í bókinni. Sagan býður að mínu mati upp á miklu meiri myndskreytingu. Myndirnar yrðu eingöngu til þess að laða að fleiri lesendur, þótt blaðsíðurnar yrðu aðeins fleiri. Sagan er hröð og hentar vel þeim sem eru að byrja að sökkva sér í flóknari skáldsögur og er góður inngangur inn í furðusagnaheiminn. Textinn er lipur en mér að það hefði mátt brjóta textann meira upp með því að henda inn einni feitletrun á setningar, skáletrun eða einhverju sem brýtur upp blaðsíðurnar.

Úlfur og Edda – Dýrgripurinn er spennandi furðusaga sem hentar krökkum frá 6 ára til 12 ára. Úlfur og Edda eru skemmtilega ólíkar persónur og ævintýrin í Ásgarði fanga vel athygli lesandans. Ég hlakka til að vinda mér í næstu bók um systkinin.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...