Mömmuklúbburinn til bjargar

Fyrirmyndarmóðir eftir Aimee Molloy kom fyrst út fyrir um ári síðan í Bandaríkjunum og orðið á götunni er það að henni verði varpað á hvíta tjaldið innan skamms. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Mörtu Hlínar Magnadóttur og Ingibjargar Valsdóttur fyrir skemmstu.

Mömmuklúbbarnir

Fyrirmyndarmóðir er nokkuð ólík þeim glæpasögum sem njóta hvað mestra vinsælda núna. Í staðinn fyrir að gerast á köldum haustdegi í Skandinavíu eins og hinir köldu og napurlegu norrænu noir krimmar þá gerist þessi saga í hitabylgju í Brooklyn og aðalsöguhetjurnar eru mæður í mömmuhópnum Maímömmur. Allar eru þær nýbakaðar mæður og eiga það eitt sameiginlegt að hafa eignast börn á sama tíma. Eins og vill verða í mömmuklúbbum þá eru kynni þeirra grunn. Þær ræða lítið um eigin líf og mikið meira um útbrot á ungabörnum og svefnþjálfun. Það er greinilegt að Molloy hefur reynslu af þessum heimi mömmuklúbba.

Þegar ein úr hópnum sýnir einkenni um fæðingaþunglyndi finnst mömmuhópnum sniðug hugmynd að hittast allar saman á bar eitt kvöld án barnanna. Þær mæður sem þekkja þessar aðstæður vita að það er mikið meira en að segja það að ákveða að fara frá barninu í fyrsta sinn. Þetta er því ekki léttvægur fundur, heldur uppfullur af kvíða og samviskubiti en samt lika þessari þörf eftir að komast aðeins út og leita að fyrra sjálfi. Þessi fundur á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar því barni Winniear, einstæðrar móður sem heldur sig mjög til baka í mömmuhópnum, er rænt á meðan mæðurnar skemmta sér (sem ég get fullyrt að er einn mesti ótti móður, að hafa sett sjálfa sig í fyrsta sæti á meðan eitthvað hræðilegt hendir barnið). Francie, Nell og Colette taka hvarf Mídasar mjög nærri sér og hefja sjálfstæða rannsókn á hvarfinu.

Bók tveggja sagna

Aimee Molloy þekkir greinilega vel til mömmukúbba.

En þetta er ekki bara saga um sakamál heldur nær Molloy að flétta saman tveimur sögum í eina bók; glæpasögunni eða ráðgátunni um hvarf Mídasar og reynsluheim kvenna sem reyna að fikra sig eftir einstiginu sem samfélagið hefur skapað mæðrum. Francie, Nell, Colette og Winnie eru mjög ólíkar mæður og búa við mjög mismunandi aðstæður. Francie er nýflutt til Brooklyn ásamt manninum sínum og þau glíma við fjárhagsörðugleika og óvissu varðandi framtíðina. Þar fyrir utan eru hjónin með nýtt barn sem gerir allt örlítið erfiðara. Hvarf Mídasar leggst þungt á Francie, en allar hennar áhyggjur og kenningar varðandi hvarf hans eru afskrifaðar sem raus í móðursjúkri kellingu. Colette er rithöfundur sem á erfitt með að taka þeim breytingum sem móðurhlutverkið hefur í för með sér. Hún á erfitt með að sinna nýjum skyldum, gera „allt rétt“ þegar kemur að móðurhlutverkinu og vinna á sama tíma. Nell virðist svo glíma við eitthvað allt annað.

Þær hafa að minnsta kosti allar sín vandamál að glíma við og ofan á það bætast svo ofurmannlegar kröfur samfélagsins til móðurhlutverksins og hinnar fullkomnu móður. Molloy nýtir tækifærið og heggur örlítið í fæðingarorlof sem foreldrar eiga rétt á í Bandaríkjunum (0 dagar) en ekki síst þá staðreynd að konur eigi að vera á vinnumarkaði en á sama tíma eiga þær að vera mæður í fullu starfi. Aðalpersónurnar endurspegla þessar aðstæður mjög vel og það var auðvelt að upplifa togstreituna milli móðurhlutverks og starfsframa með þeim. Það er nefnilega fjarri því að það sé auðvelt að yfirgefa börnin í dagvistun fyrstu mánuðina og jafnvel árin, sama hvað þau eru gömul.

Við hvarf Mídasar færast augu fjölmiðla og almennings á mömmuhópinn. Umræða um meðlimi klúbbsins verður mjög óvægin og dómharkan svæsin. Þær séu óhæfar mæður af því þær skemmta sér á bar og höfðu áfengi um hönd. Þær tóku hliðarskref frá ímyndinni um hina fullkomnu móður og hugsuðu um sjálfa sig, en ekki bara um bleyjuskipti og ælutuskur. Umræða um móðurhlutverkið getur verið svo fáránleg stundum. Ég hafði gaman að því að sjá Molloy henda gaman að því í lok bókarinnar. Þar var ein persónan sem benti á að eitt ráð sem áður var heilagt og gott þótti núna úrelt og jafnvel skaðlegt heilsu barnsins.

Grípandi glæpasaga

Molloy tókst að skrifa glæpasögu þar sem aðalpersónurnar eru konur, og enn fremur nýbakaðar mæður. Þær hjálpa hvorri annarri og leysa gátuna saman. Það er frískandi að lesa um móðurhlutverkið þar sem það er ekki sveipað rósrauðum blæ, þar sem allt er smá erfitt, þreytandi, og stundum einmanalegt. Glæpasagan á bak við þessa sögu um móðurhlutverkið er svo ekkert síðri, ég bara tók frekar eftir hinni sögunni. Sagan hélt manni vel við efnið og fléttan í lokin kom mér algjörlega í opna skjöldu.

 

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...