Er íslenskur glæpasagnamarkaður ofmettaður af skandinavískum glæpasögum? Hvað finnst starfandi rannsóknarlögreglu vanta í glæpasögur? Hvað leynist í næstu bók Evu Bjargar Ægisdóttur? Ef þú hlustar á hlaðvarpið þennan mánuðinn eru allar líkur á því að þú finnir svör við þessum spurningum.
Glæpasögur seljast eins og heitar lummur og eru því gefnar út í bílförmum. Lestrarklefinn.is tileinkaði apríl glæpasögunni, í tilraun til þess að nálgast skemmtilega hefð Norðmanna um páskakrimmann. Í hlaðvarpsþætti mánaðarins er rætt við Bjarna Þorsteinsson, útgefanda hjá Bjarti Veröld og rannsóknarlögreglur á Akranesi, Helga Pétur Ottesen og Jónas H. Ottósson. Að lokum er svo spallað við Evu Björgu Ægisdóttur, handhafa fyrstu Svartfuglsverðlaunanna og höfund bókarinnar Marrið í stiganum.