Það vilja allir skilja ástina. Hvort sem það eru heimspekingar eða vísindamenn, skáld eða Jón og Gunna. Ástin er óendanlega fjölbreytt og manneskjan þreytist aldrei á því að velta ástinni fyrir sér. Ótal bækur hafa verið skrifaðar um ástina eina og sér. Rétt eins og heilu ljóðabálkarnir.
Ástin fyllir mann af hlýju, rétt eins og vorið gerir eftir langan vetur. Grasið grænkar, skrefin verða léttari og náttúran lifnar til lífsins og allt virðist springa af ást.
Þess vegna ætlum við í Lestrarklefanum að beina kastljósi okkar að ástinni í maí, hvar sem hún finnst. Ástin getur verið margskonar. Hún getur verið ástin í Rauðu seríunni, dramatísk og áköf. Hún getur verið feimin og óörugg eins og hvolpaást í unglingabókum. Hún getur verið óendanleg eins og móður- og föðurástin. Hún getur verið heilnæm ást milli vina. En fólk getur líka ruglað ástinni við eitthvað allt annað; þráhyggju, örvæntingu og réttlætt ofbeldi með ástinni. Við viljum einbeita okkur að ástinni í maímánuði og velta fyrir okkur hinum mörgu birtingarmyndum ástar í bókum.
#ástaðvori #lestrarklefinn