Á Suðurlandi, eða austanfjalls, blómstrar bókmenntalífið. Þar hafa verkefni eins og „Bókabæirnir austanfjalls“ náð góðri fótfestu og náð að vekja athygli á bókum og bókalestri. Gerðar hafa verið tilraunir með bækur í strætó, sérstakan Ljóðapóstkassa, bókaskúr og margt fleira sem íbúar og meðlimir félagasamtakanna hafa fundið upp á. „Hér er auðvitað mikil skáldamenning. Hveragerði er gamalgróinn skáldabær og það er hópur af skrifandi fólki á því sem við gætum kallað „stórbókabæjarsvæðið““, segir Harpa Rún Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur og formaður Bókabæjanna.
Fimm ár af bókmenningu
Bókabæir eru bæir sem gera bókum og bókmenningu hátt undir höfði og leggja áherslu á aðendurnýta bækur. „Bókabæirnir austanfjalls“ er klasi samstarfsaðila sem tengjast bókum, menningu og ferðaþjónustu á svæðinu. Félagasamtökin voru stofnuð að hausti 2014. „Við erum frjáls félagasamtök og hver sem er, fyrirtæki eða stofnanir, geta verið með,“ segir Harpa Rún. „Með því að stækka félagahópinn fáum við inn fleiri hugmyndir en breikkum líka vettvanginn okkar til þess að starfa með fleira fólki og gera fjölbreyttari hluti.“ Verkefnið er hluti af alþjóðlegu samstarfi Bókabæja sem starfa í 14 löndum og þremur heimsálfum. „Markmið Bókabæjanna austanfjalls er meðal annars að fá íbúa svæðisins til að taka sem mestan þátt í því að kynna bækur, varðveita þær og stuðla að því að fólk á öllum aldri haldi áfram að njóta bókalesturs. Þetta er hugsað sem sameiginleg eign okkar allra sem búum innan svæðisins, og sem vettvangur þar sem við getum öll unnið að því saman að varðveita einn dýrmætasta arf okkar; bókmenntirnar.“
Bókakassar á víð og dreif
En hvernig er best að varðveita arfinn? Bókabæirnir skipuleggja reglulega viðburði tengda bókmenntum, hvort sem það eru göngur eða heilu málþingin. Nokkrir viðburðir séu þó orðnir árleg hefð. „Þar á meðal er Margmálaljóðakvöldið sem við höldum í samstarfi við Listasafnið í Hveragerði og Gullkistuna á alþjóðadegi ljóðsins 21. mars á hverju ári. Þar koma saman manneskjur með önnur móðurmál en íslensku og lesa ljóð á sinni tungu – sem eru síðan þýdd yfir á íslensku eða ensku.“ Þá sé einnig haldið þematengt málþing einu sinni á ári. „Við höfum meðal annars fjallað um barnabækur, glæpasögur, kvennabókmenntir og nú síðast karlabókmenntir“. Þar er blandað saman fræðum og skemmtiatriðum og Harpa segir að málþingið sé alltaf vel sótt. Einnig hefur félagið staðið fyrir bókagöngu um bókabæina, til dæmis á Eyrarbakka, Selfossi, Þorlákshöfn og nú síðast á Stokkseyri. „Þá fá lestrarhestar að hreyfa sig og tala um bækur á meðan.“
Bókabæirnir reyna líka að koma bókum í hendur viljugra lesenda. Til dæmis með því að skipuleggja bókamarkaði á sumrin, þá gjarnan í samstarfi við Bókakaffið á Selfossi, og með því að halda úti bókakössum með ókeypis bókum víða á svæðinu. „Við erum í góðu samstarfi við bókasöfnin og bóksalana, sem og Konubókastofuna og Sigvaldabooks á Stokkseyri. Í vetur komum við á samstarfi við World Poetry Movement og höfum skipulagt ljóðalestra með þeirra hjálp, haldið ritlistarnámskeið og margt fleira.“
Sumarið
Bókabæirnir eru þó alls ekki eingöngu fyrir heimamenn. „Nei, nei, við erum bara staðsett hérna, en í rauninni erum við alltaf að færa út kvíarnar. Við höfum gjarnan fengið fólk víða að til að taka þátt í skemmtidagskrá á viðburðum hjá okkur og þeir eru sóttir af fleirum en fólki hér á svæðinu,“ segir Harpa Rún ánægð. En þrátt fyrir að venjan sé sú að mæting sé góð, þá leynist alltaf örlítill kvíði yfir því að aðsókn minnki. „Við opnum alltaf húsið með hjartað í buxunum og fögnum innilega fyrstu gestunum. Svo er gjarnan bara fullt!“ segir Harpa og hlær. „Málþingið í Tryggvaskála hefur alltaf endað þannig að ekki allir fá sæti. Margmálaljóðakvöldið er sívinsælt. Við vorum með ljóðaupplestur í samstarfi við WPM á Kátum dögum í FSu í vetur og það var troðið í stofunni. Við erum alltaf jafn þakklát og það er svo gefandi að hitta annað fólk sem einnig elskar bækur.“
Í sumar verður hvergi slegið slöku við. Harpa Rún segir að sumarvindarnir séu hagstæðir og færi spennandi hluti. „Í sumar ætlum við, í samstarfi við Bókakaffið og Gullkistuna á Laugarvatni, að standa fyrir reglulega óreglulegum síðdegisupplestrum. Sá fyrsti var um hvítasunnuhelgina.“ Þar lásu upp Guðrún Eva Mínervudóttir, Pjetur Hafstein Lárusson, Kristinn árnason, Jónas Reynir Gunnarsson, Jóna Guðbjörg Torfadóttir og Jón Özur Snorrason.
Við hvetjum ferðalanga á Suðurlandinu sem og heimamenn til að nýta sér dagskrá frá Bókabæjunum austanfjalls í sumar.
Ert þú að gera eitthvað spennandi tengt bókmenntum eða bókalestri? Lestrarklefinn vill gjarnan heyra frá þér! Sendu okkur línu á lestrarklefinn[hjá]lestrarklefinn.is og segðu okkur frá.