Hvaða konu manstu eftir úr bókmenntunum sem var svo sterk að það var eftirtektarvert? Lína langsokkur kannski? Hún er vissulega sterk. Sterkasta stelpa í heimi! Það jafnast enginn á við Línu langsokk! En styrkleiki mælist ekki eingöngu í vöðvamassa og það vissi Astrid Lindgren alveg þegar hún skapaði Línu, sem er sterk á allan hátt. Sterkar konur leynast alls staðar. Það er eiginlega sama um hvaða bók ég hugsa, það er alltaf hægt að finna eina sterka konu í bókinni. Stundum þarf maður að leita að henni, stundum er hún falin. Stundum er hún algjörlega ómissandi fyrir söguþráðinn og mikill gerandi í sögunni þótt hún sé ekki aðalpersóna. Sagan væri ekkert án hennar. Stundum er hún líkamlega sterk, eða andlega sterk eða bæði. Sterkar konur rekja ævi sína í ævisögum, yfirstíga erfiðleika, jafna sig á hjartasári og stíga út úr ofbeldissamböndum. Þær eru allt í kringum okkur. Styrkleiki er ekki alltaf mældur í vöðvamassa.
Lestrarklefinn ætlar að varpa kastljósinu á sterku konurnar í bókmenntunum í október. 24. október munu einhverjar konur taka þátt í Kvennafrídeginum og það er von okkar að þær hugsi til sterku kvennanna í bókunum og muni að styrkleikinn býr í okkur öllum.