Bækur Guðna Líndal Benediktssonar um stelpuna Þrúði heita flestar bráðskemmtilegum en mjög óþjálum og flóknum nöfnum. Fyrsta bókin heiti Stelpan sem ákvað að flytja húsið sitt upp á fjall (og þurfti að berjast við vélkjúklinga og sjóræningjaeðlur). Önnur bókin fékk nafnið Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu (og þurfti að berjast við leðjubirni og bollamörgæsir). Nú hefur þriðja sagan um Þrúði hina vösku bæst í hópinn. Stelpan sem sigldi kafbát niður í kjallara (og lenti í sápufólki og smáninjum).
Í þriðju bókinni heldur Þrúður náttfatapartý með tveimur vinum sínum, Palla og Heiðu. Að sjálfsögðu fer allt úr böndum, eins og í alvöru náttfatapartíum. Rafmagnið fer af og hundurinn Jói, sem lesendur þekkja úr fyrri bókum, týnist og það er undir Þrúði og vinum hennar komið að finna Jóa og koma rafmagninu á aftur.
Bækurnar um Þrúði eru einstaklega hugmyndaríkar og það er aldrei hægt að giska á hvað kemur næst. Guðni segir að hugmyndavinna á bak við þessa þriðju bók um Þrúði hafi verið samvinna með myndhöfundi bókarinnar, Ryoko Tamura. „Við skoðuðum fyrri tvær bækurnar til að átta okkur á því hvað við gætum gert núna sem væri öðruvísi. Þá kom upp hugmynd að nota myrkur sem stóru ógnina – því öll erum við jú smeyk við myrkrið. Eftir það fór boltinn að rúlla og áður en ég vissi af var kominn kafbátur í spilið og hellingur af smáninjum.“
Í sögunum um Þrúði leynist dulinn boðskapur sem líklegara er að foreldrar taki eftir, fremur en börnin sem bókin er lesin fyrir. Í fyrstu bókinni var umfjöllunarefnið skjánotkun foreldra, í annarri bókinni leyndist boðskapur um loftlagsmál.
Er einhver boðskapur í þriðju bókinni?
„Sama hverslags bækur ég er að skrifa, þá reyni ég alltaf að lauma inn boðskap, bæði til barna og fullorðinna. Hann er hjartað sem allar fallegu myndirnar og skemmtilegi söguþráðurinn límast utan á. Í þessari bók er ég að fást við óttann við hið ókunna – eitthvað sem valdamikið fólk um allan heim nýtir sér til að fá sínu framgengt. Það er svo auðvelt að benda á staði eða fólk sem þú þekkir ekki og halda því fram að þetta sé allt saman stórhættulegt án þess þó að vita nokkuð um það. Bókin heldur því fram að oft sé það sem þú óttast mest ekki svo slæmt ef þú hefur hugrekki til að kynnast því almennilega.“
Hvaða atburðarás fannst þér skemmtilegast að skrifa?
„Mér finnst alltaf skemmtilegast að skrifa atriði þar sem allt er á fullu og persónurnar vita ekkert hvað þær eiga að gera. Hamagangurinn á blaðsíðunum eftir að stór gul augu birtast í myrkrinu í fyrsta sinn er í sérstöku uppáhaldi hjá mér í þessari bók.“
Hvað er sápufólk og smáninjur?
„Fyrir þá sem ekki þekkja sápufólk og smáninjur, þá eru þetta einstaklega vinalegar verur sem fyrirfinnast í flestum húsum. Sápufólk er á stærð við sápustykki, oftast með hatt eða klút um hálsinn og alltaf í svakalega góðu skapi. Ef þú færð einhverntíma tækifæri til að stýra kafbát, þá eru góðar líkur á því að áhöfnin verði mestmegnis sápufólk. Smáninjurnar er erfiðara að sjá, því þær eru svo smáar. Þær eru meinlausar, ferðast alltaf í stórum hópum og stunda það að stela tannburstum sem þær nota svo í að þrífa eyrun á allskyns húsdýrum.“
Í fyrri bókum hefur fjölskylda Þrúðar verið nokkuð áberandi. Systir hennar er skrímsli í fystu bókinni og Þrúður þarf að bjarga litla bróður sínum í annarri bókinni. Koma nýjar persónur fram í þessari bók eða er fjölskyldan enn aðalatriðið?
„Í þessari bók langaði okkur Ryo að stækka heiminn örlítið með því að draga tvo vini hennar inn í sviðsljósið. Palli og Heiða eru afskaplega uppátækjasamir krakkar sem eru skemmtilega ólíkir. Hann er algjör lengja og fíkill í gamaldags tækni, hún er pínulítil og klædd í víkingabúning. Þau lenda í þessu ógurlega ævintýri með Þrúði og reyna bæði að hjálpa til, hvort á sinn hátt. Betri vini er ekki hægt að finna.“
Myndir Ryoko Tamura gefa bókunum einstakt yfirbragð, en hún hefur líka laumað „páskaeggjum“ inn í myndirnar. Er eitthvað sem lesendur ættu að leita að í þriðju bókinni um Þrúði?
„Hvað varðar páskaegg í þessari bók, þá laumaði Ryo ógrynni af brúnum músum út um alla bók – fleiri en í hinum tveimur til samans held ég. Hvorugt okkar veit nákvæmlega hversu margar þær eru. Svo er hún búin að vera með tannpínu undanfarið og þess vegna laumaði hún tönn inn á eina síðuna án þess að láta mig vita. En ég held að aðal páskaeggið sé að smáninjurnar eru allar byggðar á Ryo sjálfri – pínulitlar og skemmtilegar. Geturðu talið þær allar?“
Guðni segir að á bak við eina svona barnabók sé gríðarleg vinna. „Við höfum mikinn metnað fyrir því að gera svakalega flottar og eigulegar sögur. Ryo handmálar alla litina á endurunninn pappír, sem hún svo skannar inn og lætur ofan í handteiknuð mót í tölvunni, sem er aðferð sem ég hef ekki séð áður. Uppsetningin á textanum er líka þrælskemmtileg og sérhönnuð til að halda ungum lesendum við efnið. Við erum afskaplega stolt af þessari fallegu sögu og við vonum að hún rati í hendurnar á sem flestum lestrarhestum um hátíðirnar.“