Ys og þys út af öllu! er þriðja bók Hjalta Halldórssonar. Í fyrri bókum, Af hverju ég? og Draumurinn sækir Hjalti innblástur til Íslendingasagnanna í skrifunum. Í fyrstu bókinni er Egla innblásturinn og önnur bókin er innblásin af Grettis sögu. Ys og þys út af öllu! er engin undantekning og sá sem þekkir til er ekki lengi að reka augun í hvaða saga vakti Hjalta innblástur.

Aðalpersónur sögunnar eru þrjár – sjöundabekkingarnir Kjartan, Bolli og Guðrún. Nöfnin ein og sér gefa rækilega til kynna að hér liggi Laxdæla undir. Í byrjun sögunnar eru krakkarnir á leið að Laugum í Sælingsdal í skólabúðir. Þau eru misspennt fyrir ferðinni, hafa leyndarmál sem erfitt er að halda fyrir sjálf sig, áhyggjur eru kvíðin en þau eru líka ógeðslega spennt fyrir vikunni sem er framundan. Það er ekki auðvelt að vera í sjöunda bekk, á þeim tíma sem tilfinningar eru farnar að krauma, líkamar að breytast og skotin verða einhvern veginn erfiðari og dýpri en þau voru áður. Hjalti ætti að þekkja nokkuð vel til sögupersónanna sinna, enda kennir hann samfélagsfræði á elsta stigi grunnskóla.

Stíll Hjalta er einfaldur og hann segir söguna út frá aðalpersónunum þremur. Það er ögn þreytandi þegar hann hoppar á milli persóna og segir frá nákvæmlega sama atburði frá sjónarhorni næstu persónu. En það gefur tækifæri til að bæta við glettni og húmor í söguna, því heimssýn persónanna þriggja er skemmtilega ólík.

Laxdæla í skólabúðum

Það er nokkuð vandmeðfarið að skrifa ástarþríhyrning inn í sögu um sjöundabekkinga. Í Laxdælu fellur Guðrún fyrir Kjartani, sem giftist svo annarri. Guðrún telur hann hafa svikið sig illa, þótt hún hafi sjálf gifst Bolla. Guðrún fær Bolla til að hefna sín á Kjartani fyrir hennar hönd, sem endar með vígi Kjartans. Hjalti tæklar þennan ástar/hatursþríhyrning nokkuð vel. Guðrún er auðvitað yfir sig skotin í Kjartani, þrátt fyrir að þau hafi verið vinir frá barnæsku. Bolli er skotinn í Guðrúnu en á erfitt með að segja nokkuð. Vegna misskilnings, sem Hjalti stillir meistaralega upp, endar það svo að Guðrún verður æfareið við Kjartan, finnst hann hafa svikið sig og fær Bolla í lið með sér til að niðurlægja Kjartan.

Hefði þetta verið amerískur gamanþáttur hefði mér liðið eins og ég væri að horfa á Seinfeld, þar sem einn misskilningur veldur endalausum flækjum og vandræðalegum augnablikum. Þar sem allt hefði leysts hefðu persónurnar aðeins talað saman og sagt frá tilfinningum sínum.

Það er enginn drepinn í Ys og þys út af öllu! eins og í Laxdælu. Í staðinn bætir Hjalti við skemmtilegu vinkli í lokin – plot tvisti sem kom nokkuð á óvart. En hafði þó verið ýjað að í gegnum bókina.

Hér kemur Höskuldarviðvörun og ef þú vilt ekki vita hver vinkillinn er þá skaltu ekki lesa lengra.

Það kemur í ljós að Kjartan sveik ekki Guðrúnu eftir allt saman, því eins og áður sagði allt var á misskilningi byggt. Kjartan hafði komist að því að hann er hommi, en átti erfitt með að segja bestu vinum sínum frá því. Eflaust geta einhver ungmenni speglað sig í Kjartani og það er mjög gaman að sjá að vinsælasti strákurinn getur haldið stöðu sinni innan vinahópsins þótt hann komi út úr skápnum. Það á nefnilega ekki að vera neitt stórmál að koma út úr skápnum við vini sína. Þetta er allt hinn eðlilegasti hlutur, þótt Kjartan hafi gengið í gegnum svolitla sálarkrísu eftir að hann uppgötvaði þessar tilfinningar.

Ys og þys út af öllu! er fínasta léttlesning fyrir krakka í fjórða til áttunda bekk. Það er gleðilegt að sjá bók fyrir krakka þar sem fjallað er um samkynhneigð og hnykkt á því að það skipti ekki máli hverjum maður er skotinn í.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...