Æsileg rannsókn á leyndardómum eyðihússins

Snæbjörn Arngrímsson hlaut íslensku barnabókaverðlaunin í ár með bókinni Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins. Það kom flestum á óvart að Snæbjörn skyldi vera sá sem stóð á bak við bókina, enda hefur hann áður skapað sér nafn í bókaútgáfubransanum áður. Snæbjörn stofnaði bókaútgáfuna Bjart á sínum tíma og gaf út Harry Potter á íslensku. En það er allt annað að gefa út bækur annars vegar og skrifa þær hins vegar.

Í Rannsókninni á leyndardómum eyðihússins byrjar Snæbjörn á að telja upp nokkrar þekktar staðreyndir og skapar með því dularfullt andrúmsloft sem fylgir lesandanum í gegnum alla frásögnina. Sögusviðið er Álftabær, óskilgreindur smábær á Íslandi. Aðalsöguhetjur bókarinnar eru vinirnir Milla og Guðjón G. Georgsson. Milla hefur alla ævi búið í Álftabæ í nágrenni hins dularfulla Eyðihúss. Guðjón G. Georgsson (sem vill reyndar frekar láta kalla sig Gonna) flytur í húsið á hæðinni rétt hjá Millu. Dularfullur pakki er skilinn eftir á bókasafni bæjarins, með skilaboðum frá látnum íbúa Eyðihússins sem var moldríkur einfari.

Knappur en grípandi stíll

Sagan er skrifuð út frá sjónarhorni Millu, frásögnin er hennar. Milla segir söguna úr nokkurri fjarlægð, eins og hún sé að segja lesandanum sögu sem gerðist einu sinni. Frásögnin er yfirveguð og róleg og skapar nokkuð mótvægi við æsilega atburðina. Milla og Guðjón G. Georgsson geta auðvitað ekki látið ráðgátuna sem skilin var eftir á bókasafninu í friði – þau hreinlega verða að komast að hinu sanna. Ráðgáturnar eru fjölmargar! Eru stórhættulegir flóttafangar í Eyðihúsinu? Leynist brjálaður bróðir einfarans í húsinu? Eru skrímsli þar inni? Og hvað í ósköpunum þýða allar þessar undarlegu og torræðu vísbendingar!?

Snæbjörn er með knappan stíl. Fyrstu kaflarnir komast fyrir á einni síðu sem veldur því að lesandi er stöðugt að fletta. Hver kafli er nær eins og lítill prósi. Hann gefur lítið af upplýsingum í hverjum kafla, en samt er hægt að lesa svo mikið meira úr því ósagða. Þegar líður á bókina lengjast kaflarnir, en það er í raun ekki eitthvað sem lesandinn tekur eftir því þá er spennan orðin óbærileg og það er ekki hægt að hætta að fletta. Spennan er svo mögnuð og upplifunin við lesturinn veldur hröðum hjartslætti og á einum tímapunkti upphrópun!

Æsilegir atburðir æskunnar

Milla og Guðjón G. Georgsson eru krakkar og Snæbjörn nær að koma sýn barna á heiminn ótrúlega vel til skila. Sjálf man ég eftir því þegar ímyndunaraflið hljóp með mig í gönur þegar ég var krakki – trúði á drauga, álfa og tröll. Man þegar ókunnur maður gekk um móann og við krakkarnir vorum sannfærð um að þar væri á ferðinni glæpamaður, því glæpamenn eru á hverju strái í sveitinni og ganga iðullega um móa. Það kom síðar í ljós að maðurinn var að kanna fúa í símastaurum. En það breytti því ekki að við krakkarnir flýttum okkur heim, sannfærð um að stórhættulegur glæpamaður með byssu væri á eftir okkur. Við skriðum undir girðingar og smeygðum okkur milli þúfna og stukkum milli heyrúlla. Þetta var æsilegasti atburður æsku minnar og Snæbirni tókst að fanga þessa spennu og magna hana upp fimmtíufalt og gera það trúanlega.

Í lok bókarinnar hefur Snæbjörn aðeins gefið lesandanum hluta af lausn gátunnar. Það eru ótal þræðir sem hann skilur eftir og ég býð þess óþreyjufull að lesa meira um Millu og Guðjón G. Georgsson. Því ráðgáturnar virðast endalausar og þegar ein er leyst dúkkar önnur upp!

Ég hugsa að ég komi því á engann hátt almennilega til skila í þessari umfjöllun hve rosalega spennandi bókin er og hve tilfinningalíf krakkanna er ótrúlega vel skrifað. Ég get heilshugar mælt með þessari bók fyrir alla, krakka, unglinga og fullorðna. Þótt markhópur bókarinnar sé sennilega börn á aldrinum 8-12 ára þá ættu allir að geta haft gaman að henni. Sérstaklega fullorðnir sem vilja upplifa eftirvæntingu og spennu æskunnar upp á nýtt.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...