Eyðieyjan – Urr, öskur, fótur og fit er fyrsta bók Hildar Loftsdóttur. Bókin segir frá systrunum Ástu og Kötu sem fara með fjölskyldunni sinni á eyðieyju. Afi stelpnanna ólst upp á eyjunni og ætlunin er að fagna áttræðis afmæli afans. Systurnar eru síður en svo ánægðar með ferðina, finnst hálf skítt að ætla að gista í niðurnýddu húsi. Strax á fyrsta kvöldinu hefst þó ævintýrið, því Ástu og Kötu er ætlað að aðstoða Unu álfaprinsessu við mjög erfitt verkefni sem snýst um líf og dauða.
Á eyðieyjan í bókinni sér einhverja stoð í raunveruleikanum?
„Eyðieyjan er í raun Hrappsey á Breiðafirði þar sem pabbi minn bjó á árunum 1940-45, með foreldrum sínum og níu systkinum. Þau voru eina fólkið á eyjunni. Þegar pabbi varð áttræður fórum við út í Hrappsey. Þar stóð húsið ennþá sem þau bjuggu í og við hliðina á því er stór álfhóll, en pabbi ímyndaði sér alltaf að hann ætti vinkonu sem byggi þar. Þessu er öllu lýst í bókinni.“
Hvaðan kom innblásturinn fyrir bókina? Hefur hún blundað lengi í þér?
„Mig hefur lengi langað til að skrifa barnabók, og ekki síst um pabba og hans líf, sem er svo órafjarri lífi barna í dag, barnabarnanna hans. Ég hef byrjað á mörgum bókum og fyrir langa löngu bað ég pabba um að svara spurningum um líf sitt á þessum árum; bæði daglegu lífi og ýmsum atburðum, sem ég nota. En inn í þessa bók blandast líka hugmyndir að öðrum bókum sem ég haft.“
Hvaðan koma Ásta og Kata? Eru fyrirmyndir að þeim úr raunheimum?
„Já, ætli þetta séu ekki mest megnis mínar stelpur? Það eru einmitt þrjú ár á milli þeirra eins og hjá Ástu og Kötu, sem eiga ýmislegt meira sameiginlegt með þeim. Upphaflega var samt ekki hugmyndin að nota þær sem fyrirmyndir, en maður grípur til þess sem maður þekkir án þess að hugsa. Mig langaði bara að skrifa bók með sterkum og flottum stelpum sem taka málin í sínar hendur og redda þeim, en með hjálp stráka, því kynin eiga auðvitað að hjálpast að.“
Hvaðan kom hugmyndin um tímalykkjuna sem er í bókinni?
„Þessu er smá erfitt að svara án þess að kjafta frá hvað gerist, þar sem allur söguþráðurinn hverfist um þessa tímalykkju. Alla vega fannst mér ég alveg rosalega snjöll og klár að hafa fengið þessa hugmynd, en gerði mér svo grein fyrir að þetta er ekki ósvipað því sem gerist í bíómyndinni The Terminator. Ég fletti ég þessu upp og sá þá að þetta hefur margoft verið gert og að ég var því miður alls ekki jafn frumleg og ég hafði haldið.“
Sækirðu innblástur í einhverja sérstaka þjóðsögu?
„Í bókinni er vinnukona sem á sér fyrirmynd í raunveruleikanum. Ég læt hana heita Hildur, því ég byggi sumt í lífi hennar á sögunni um Hildi álfadrottningu. Við skrifin notaði ég ýmislegt úr þeirri sögu, og það fór síðan að hafa áhrif á aðra þætti söguþráðarins og framvinduna alla. Ég nota líka minnið um álfkonu í barnsnauð, og þegar illar álfkonur taka á sig mynd móður mennskra barna til að lokka þau í burtu. Svo er það auðvitað frændurnir þrír; skoffínið, skuggarbaldurinn og urðarkötturinn. Við kynnist líka dvergi, þannig að í bókinni má finna ýmsar áhugaverðar týpur úr þjóðsögunum okkar góðu.“
Hér fyrir neðan má lesa brot úr 2. kafla, þar sem fjölskyldan kemur í húsið sem afinn bjó í sem barn.
„Hvernig líst ykkur svo á?“ spurði afi, en fékk ekkert svar, bara uppglennt skilningslaus augu okkar hinna. Pabbi gekk út að einum glugganum, bankaði í gler og karma.
„Já, þú segir það Jökull minn,“ tuldraði hann. Mamma gekk að hinum glugganum. Brestir! Braml! Mamma hrópaði upp yfir sig. Hún hafði gengið í gegnum fúið trégólfið og stóð með annan fótinn í gati upp á miðjan kálfa.
„Hvenær kemur aftur báturinn að sækja okkur?“ spurði mamma og röddin í henni skalf, en afi heyrði ekki einu sinni í henni.
„Við þurfum aðeins að snyrta til og þá verður bráðhuggulegt hjá okkur. Er það ekki?“ Afi ennþá hress á því.
Ekkert svar. Ég gekk ofur varlega inn í stofuna og það brakaði í viðargólfinu við hvert skref sem ég tók. Ég kreisti upp bros til afa þegar ég gekk framhjá honum og leit í kringum mig. Inn af stofunni kom ég í lítið hliðarherbergi með rúmi upp við einn vegginn. Það var gat á veggnum svo mold og sandur höfðu fokið inn á rúmið.
„Hér svaf ég,“ heyrði ég afa segja á bak við mig.
„Æ, það er komið gat hjá rúminu þínu. Ryðgað bárujárnið er búið að flettast af húsinu. Þú getur ekki sofið hér núna,“ benti ég afa á.
„Jú jú, elsku góan mín. Það var alltaf kalt upp við þennan vegg. Ef það var ekki hríðarbylur sem stóð beint á hann var það einhver bölvaður norðanstrekkingur.” Eins og ég fíla afa geðveikt vel, þá þarf maður helst að vera með meistarapróf í veðurfræði til að skilja margt sem hann segir. Og forníslensku auðvitað. Já, og latínu líka.
„Sei sei já. Einu sinni lá ég nú lengi veikur í þessu rúmi. Í marga mánuði var mér vart hugað líf. Ég var tólf ára. En ég hjarnaði við. Það fyrsta sem ég sá þegar ég vaknaði aftur voru ljósin á jólatrénu inni í stofu. Það var gamalt jólatré sem pabbi gamli hafði smíðað og á því voru lifandi ljós,“ sagði afi og horfði dreymnum augum inn í stofu eins og jólatréð stæði þar ennþá. Eins og hann væri tólf ára veikur strákur.
„Afi, af hverju hefðurðu aldrei sagt mér þetta áður?“ spurði ég titrandi röddu því mér fannst þetta frekar mikið mál. Pæliði ef afi hefði dáið þegar hann var tólf ára, þá hefði ég aldrei fengið að hitta hann!
„Ha? Já, einmitt“, muldraði afi fastur með í hugann aftur í fornöld.
„Afi, halló!“ kallaði ég í eyrað hans og þá snéri hann sér loksins að mér.
„Hvað segirðu rýjan mín?“ sagði hann og brosti.
„Af hverju hefurðu ekki sagt mér fyrr að þú varst næstum því dáinn?“ endurtók ég.
„Hvaða vitleysa, ég hef margoft sagt þér frá því,“ sagði hann og klappaði mér á kinnarnar, eins og það væri ég sem væri gömul og gleymin.
„Jæja, nú skulum við kíkja upp á svefnloft. Komiði!“ Afi skaust fram, ýtti Kötu á undan sér og brátt heyrði ég brak í bratta stiganum.
„Vá, æðislegt!“ kallaði Kata að ofan. „Pant þetta rúm!“
Allir þustu til og vildu fara upp á loft fyrst það var virkilega eitthvað æðislegt í þessu húsi.