Hrollvekja í gufupönkstíl

Húsið í september er fyrsta unglingabókin sem Hilmar Örn Óskarsson sendir frá sér.  Hann er þekktari fyrir bækurnar um Kamillu Vindmyllu sem eru ætlaðar yngri lesendum og eru töluvert frábrugðnar Húsinu í september. Húsið í september er nokkuð blóðug, hrollvekjandi og spennandi.

Áróra og Nói eru bestu vinir og búa á eyju. Áróra þráir ekkert heitar en að komast burt af eynni, burt frá forvitnum augum bæjarbúa bæjarins Gálga. Áróra er með málmhjúp um hendina, sem felur ónefndan óhugnað, en sjálf veit hún ekki hvað leynist undir málmhjúpnum. Bæjarbúar hafa stimplað hana sem norn og sniðganga hana og föður hennar. Nói og Áróra hafa nýtt tímann í að smíða fleka og ætla sér að fljóta í burtu frá eynni, þótt næsti viðverustaður sé algjörlega óviss. Kvöld eitt verða Áróra og Nói fyrir áras og í framhaldi af því hefst atburðarrás sem er bæði hröð, dularfull og hrollvekjandi.

Ímyndaður og raunverulegur óhugnaður

Áróra er hörkutól! Hún blótar eins og sauðdrukkinn sjómaður, stendur fyrir sínu og lætur ekki vaða yfir sig. Hún er með þykka brynju sem aðrar persónur í sögunni fá ekki að kíkja inn fyrir og í raun ekki lesandinn heldur. Þótt hún sé hrædd, þá er hún alltaf tilbúin að takast á við erfiðleikana og verkefnin og hún hefur nær alltaf ráð á hverju strái.

Hilmar er ekki hræddur við að skrifa hrollvekju!Mér fannst ég glitta í innblástur úr alls kyns hrollvekjum eins og The Ring, Saw og Idle hands (sem var svo sem gamansöm hrollvekja) sem og mismunandi sálfræðitrylla. Hafi ég rétt fyrir mér þá finnst mér Hilmar hafa fléttað þessum mismunandi hugmyndum mjög vel saman og gert að sínum. Þungamiðja sögunnar er ráðgátan um Húsið í september, sem opinberast lesendum hægt og rólega í gegnum bókina. Á leiðinni að lausn ráðgátunnar afhjúpast alls kyns óhugnaður; óhugnaður sem finnst í raunveruleikanum sem og ímyndaður.

Íslenskir molar í erlendu formi

Sagan flokkast sem furðusaga. Hún gerist í ónefndum heimi, í öðrum veruleika. Mér fannst Hilmar sækja örlítinn innblástur í gufupönk í sögunni, með málmhlutum, kringlóttum, dökkum gleraugum, lífstykkjum, tannhjólum og koparlitum málmi. Yfirbragð sögunnar er því ekki miðaldir eins og vill verða í klassískum furðusögum heldur lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu.

Oft þegar íslenskir höfundar skrifa furðusögu sækja þeir í að hafa sögusviðið sem fjærst Íslandi og mögulegt er. Hilmar velur að gera það ekki í þessari bók, heldur glittir í Ísland á ólíklegustu stöðum. Ein persóna þrýstir hraunmola í góminn til að halda sér vakandi, það eru hraungjótur, mosi, nóvember kuldi og annað sem minnir á Ísland. Þó er nokkuð ljóst að sagan gerist á ónefndri eyju úr hugarheimi Hilmars. Mér fannst frískandi að sjá glitta í Ísland í sögunni.

Það sem angraði mig við söguna er hve lítill heimurinn er. Lesandi fær engar upplýsingar um hvað er fyrir utan eyjuna né hverjir fyrstu íbúar Gálga eru (nema það hafi farið alveg framhjá mér!). Hugsanlega ætlar Hilmar að halda áfram að spinna við þennan söguheim og það yrði vissulega forvitnilegt. Einnig angraði kápa bókarinnar mig ögn. Sagan gerist á óræðum tíma en hvergi heyrði ég talað um bíla. Þess vegna fannst mér skjóta skökku við að sjá bílskúr prýða husið á kápunni. Sé horft fram hjá þeirri undarlegu viðbyggingu á húsinu er kápan mjög falleg og hæfir bókinni vel.

Bókin er flokkuð sem unglingabók og Nói og Áróra eru bæði sextán ára. Sem unglingabók tel ég hana vera góða, en ekki síður sem skáldsaga fyrir fullorðna. Þótt bókin sé furðusaga þá er hægt að finna efni sem unglingar glíma við í dag, svo sem ástina, ógnina um kynferðisofbeldi, leiðann af eigin heimili og löngunina út í heim, pirring við foreldra. En fyrst og fremst er Húsið í september spennand og dularfull saga með dassi af hrollvekju og blóði sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara!

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...